140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[18:17]
Horfa

Flm. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil í lok fyrri umræðu um þessa ágætu tillögu byrja á því að þakka kærlega fyrir umræðuna. Hún hefur verið góð og málefnaleg, hér hafa orðið skoðanaskipti. Við erum ekki öll sammála og það er gott, þá spyrjum við og svörum þeim spurningum sem hægt er. Þannig tölum við okkur vonandi að niðurstöðu sem við getum öll verið sátt við og komið málinu áfram þannig að við getum sammælst um að koma þeim í góðan farveg og ég þarf ekkert að endurtaka í hvaða farveg ég tel að það eigi að vera. En ég vona svo sannarlega að þetta samtal sem við höfum átt hér og sem nefndin mun eiga í framhaldinu verði til þess að við leiðum þetta mál farsællega til lykta.

Það er ljóst að þörf var á þessari umræðu og ég get alveg viðurkennt að mér lá á í lok þings. Ég vil ekki kalla það offors eins og hv. þm. Þór Saari gerði hér áðan, kannski vegna þess að þingmaðurinn sagði að það lægi ekkert á en það gerir það nefnilega fyrir svo marga sem eru í þessari stöðu. Við verðum að taka það inn í umræðuna að þetta er ekki mál sem við getum bara lagt á ís og rætt í einhverjum akademískum fílabeinsturni. Þetta er mál sem snertir fólk og manneskjur, það snertir líf og við þurfum að taka tillit til þess og kynna okkur málið, ræða það, en við skulum tileinka okkur þann aga að vinna vel í því og klára það. Ég held að það sé okkur öllum til góðs.

Það er nefnilega þannig, eins og hæstv. forseti á forsetastóli sagði, að menn skipta gjarnan um skoðun í þessu máli um leið og þeir fara að kynna sér það. Svo það misskiljist ekki þá er ég ekki að gera mönnum upp vanþekkingu eða þekkingarleysi af neinu tagi en þegar fyrst var komið að máli við mig og ég spurð hvaða skoðun ég hefði á þessu máli þá var ég eins og allir aðrir hér inni og hafði bara enga skoðun á því. Ég vissi ekkert hverju ég átti að svara. Mín fyrstu viðbrögð voru að segja: Ég treysti mér ekki til að setjast í dómarasæti um það hver eigi að fá að eignast barn og hver ekki. Það var grundvallarsvarið. Síðan fór ég að kynna mér þetta og setja mig meira inn í þessar spurningar, hverjum á að heimila þetta, hvort eigi að heimila þetta, með hvaða skilyrðum og hvernig og nú er ég komin að þeirri niðurstöðu, reyndar fyrir þó nokkru síðan, að þetta skuli vera leiðin.

Fyrir réttum þremur árum þegar ég stóð hér í þessum ræðustól, kasólétt nota bene, þetta var 12. september 2008 og ég eignaðist barn 25. september þannig að það mátti ekki miklu muna, þá lagði ég fram fyrstu fyrirspurn mína um þetta mál. Það var einmitt til að koma umræðunni af stað vegna þess að seinast þegar tekin var afstaða til þessa máls, í lögum um tæknifrjóvgun, var sagt: Staðgöngumæðrun er bönnuð vegna þess að umræðan í samfélaginu er ónóg. Síðan hefur markmið mitt verið að auka umræðuna og þess vegna hef ég verið frekar þreytandi við þá fjölmörgu hæstv. heilbrigðisráðherra sem setið hafa frá þessum tíma, því miður er búið að skipta dálítið oft, við að inna þá eftir þessu og mjaka málunum áfram vegna þess að í hvert skipti sem rætt hefur verið um þessi mál á Alþingi hefur skapast umræða úti í samfélaginu. Svo hefur hún dáið út. Síðan kemur málið hingað aftur og þá skapast umræða í samfélaginu, svo deyr hún út aftur. Ef við erum tilbúin til að nota tímann vel núna og taka þessa umræðu þá trúi ég því að við munum og eigum að klára þetta.

Mér fannst margar stórkostlega góðar ræður vera fluttar í dag. Ég horfi á hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur sem eins og gömlum skólastjóra sæmir hvatti okkur til að vanda orðaval og gæta hófs í umræðunni og passa að ræða þetta ekki út frá forsendum sem við erum ekki að ræða, við erum ekki að tala um þetta í viðskiptalegum tilgangi nema með því að koma málum svo fyrir að það verði ekki þannig. Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir flutti frábæra ræðu þar sem hún sagði söguna af 20 barna móðurinni sem fékk okkur öll til að hugsa þetta með jákvæðum hætti, ekki afstöðuna til málsins en til að velta því fyrir okkur.

Ég ætla ekki að rekja ræðurnar frekar en ég vil segja og kannski sérstaklega vegna orðaskipta sem urðu í andsvörum við hv. þm. Davíð Stefánsson að hér var enginn að reyna að koma höggi á einn eða neinn. Það vakti aldrei fyrir mér að reyna að koma höggi á einn eða neinn í þessu máli. Þetta er þverpólitískt mál. Að því standa flutningsmenn úr fjórum stjórnmálaflokkum og einn utan flokka og ég hef alltaf lagt mikla áherslu á að þetta snýst ekki um stjórnmálaskoðanir. Þetta snýst um líf fólks, þetta snýst um það hvernig við viljum nálgast þessi viðfangsefni og álitamál og leiða þau til lykta. Ég bið menn að passa að setja þetta ekki í eitthvert pólitískt samhengi vegna þess að fólkið sem talar við mig um þetta mál, hefur áhuga á því og er í þeirri stöðu að það mundi notfæra sér það, kemur úr öllum stjórnmálaflokkum, að ég held en ég veit ekkert um það vegna þess að það berst aldrei í tal í samtölum okkar. Ég vil að það sé algerlega kristaltært að það er ekki pólitík sem ræður för.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir fór vel yfir það hvernig hún skipti um skoðun í málinu. Ég fagna því að þetta verði rætt í hv. velferðarnefnd undir hennar forustu. Ég veit að málið er þá í góðum höndum. Ég veit að nefndin mun leggja sig fram, líkt og hin fyrri velferðarnefnd gerði á sínum tíma, um að fá öll sjónarmið fram og leiða málið til lykta. Í september var sagt að málið væri ekki fullrætt en við skulum leggja okkur fram um að nýta tímann vel núna og ræða það til fulls eins og hægt er á þessu stigi og setja það svo í hendur á starfshópi ráðherra að semja frumvarp sem við fáum síðan aftur til efnislegrar meðferðar á þinginu.

Í athugasemd frá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur kom fram að gott hefði verið að ræða þetta í þingflokkum en nú er þetta komið til þingsins. Nú hefur þingið vald á þessu máli, hægt er að ræða það á hverjum einasta þingflokksfundi sem menn vilja í öllum þingflokkum. Það má ræða þetta í velferðarnefndinni út í eitt og ég hvet til að það verði gert. Síðan þurfum við að taka ákvörðun og láta afstöðu okkar í ljós. Það hafa verið skilaboð mín. Við getum talað um þessi álitamál þangað til við verðum blá í framan en á einhverjum tímapunkti þurfum við að klára málið og ég tel það ekki vera offors eða einhverja vanstillingu að ætla okkur ákveðinn tíma í það. Mér finnst þetta þannig mál að við eigum að skoða það frá öllum hliðum en síðan þurfum við að taka afstöðu.

Ég þakka, hæstv. forseti, fyrir umræðuna. Hún hefur verið afar góð, afar upplýsandi. Nú legg ég til að málinu verði vísað til hv. velferðarnefndar og síðari umræðu og vona svo sannarlega að við fáum tækifæri fyrir þinglok að klára það með atkvæðagreiðslu, hvernig svo sem hún mun fara.