140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ráðning forstjóra Bankasýslu ríkisins er hneyksli. Ráðinn hefur verið forstjóri sem hvorki hefur menntun né starfsreynslu af fjármálamörkuðum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Með því sviptir Bankasýslan sig því trausti og þeim trúverðugleika sem hún verður að njóta þar sem hún fer með eignarhlut Íslendinga í viðskiptabönkunum og það vandasama verkefni að selja hluta þeirra einkaaðilum. Þá á íslenskur almenningur kröfu á því að við ráðningu í æðstu embætti ríkisins ráðist ráðningin af lögmæltri sérþekkingu á viðkomandi sviði en ekki af hentisjónarmiðum eða tilfallandi mati. Þar verða allir að sitja við sama borð, stjórnmálastéttin líka.

Því hefur verið haldið fram til að verja þetta að reynsla pólitísks aðstoðarmanns sé reynsla af fjármálamörkuðum. Hér liggur þegar fyrir álit umboðsmanns Alþingis um ráðningu Þorsteins Davíðssonar að slík reynsla er ekki reynsla af hlutlægu starfi embættismanns. Það er hins vegar reynsla af pólitískri ráðgjöf og sú getur sannarlega ekki talist jákvæð í þessu tilfelli í ljósi þeirra hrapallegu pólitísku mistaka sem þarna voru gerð.

Tilgangurinn með Bankasýslunni er að halda bönkunum armslengd frá stjórnmálunum í landinu. Það er megintilgangurinn með stofnuninni og þó að við í stjórnmálunum eigum að vera gjaldgeng í nær öll störf er það beinlínis óheppilegt að hafa reynslu af pólitískum störfum í starfi forstjóra Bankasýslu ríkisins.

Þá hlýtur líka að vera óheppilegt þegar Alþingi þarf í vetur að rannsaka einkavæðingu bankanna og hvernig að henni var staðið ef forstjóri Bankasýslunnar (Forseti hringir.) þarf annars vegar að koma og svara til um aðkomu sína að því meðan hann á hins vegar að undirbúa (Forseti hringir.) sölu á þeim eignarhlutum sem við höldum nú. Það er gott að fjármálaráðherra hefur hvergi komið hér nærri (Forseti hringir.) Hann verður að grípa til ráðstafana til að endurreisa traust og trúverðugleika þessarar stofnunar.