140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

fjárhagsstaða heimilanna -- málefni háskólanna -- ráðning forstjóra Bankasýslunnar o.fl.

[10:49]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég kem upp vegna orða hv. þm. Skúla Helgasonar um nauðsyn þess að efla háskólakennslu á Íslandi. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni. Við verjum hlutfallslega litlum fjármunum til háskólakennslu á Íslandi miðað við önnur lönd, svo sem hv. þm. ræddi fyrr í morgun. Hins vegar tel ég færar leiðir til að auka hagkvæmni í háskólarekstri og þar má líta til samvinnu og ef til vill samruna þeirra sjö háskóla sem starfa hér á landi. Ég hef hins vegar verið talsmaður þess að Háskólinn á Akureyri og Háskóli Íslands verði ekki sameinaðir heldur að þeir auki samstarf sitt. Það er einu sinni svo að sérstaða háskóla á borð við Háskólann á Akureyri er mjög rík og sést það ekki síst í því að meginhluti nemendanna sem þar leggur stund á nám skilar sér út í atvinnulífið úti á landi. Það er sérstaða skólans og hann hefur einmitt aukið menntunarstigið úti á landi til mikilla muna á þeim bráðum 25 árum sem hann hefur starfað á Sólborg á Akureyri.

Sameiningu Háskólans á Akureyri við Hólaskóla tel ég vera mjög fýsilega og ég tel reyndar að hægt sé að sameina landbúnaðarháskólakerfið enn frekar háskólum úti á landi. Eins finnst mér koma til greina að samlegðin fyrir sunnan verði skoðuð í þessum efnum, á milli Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík og e.t.v. fleiri háskóla í námunda við höfuðborgarsvæðið. Háskólar eiga að sækja fram á þeim tímum sem við lifum núna, krepputímum. Það er betra að hafa fólk í námi en á atvinnuleysisbótum.