140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

fjárhagsstaða heimilanna -- málefni háskólanna -- ráðning forstjóra Bankasýslunnar o.fl.

[10:51]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Í morgun var fundi í atvinnuveganefnd Alþingis frestað um hálftíma með um hálftíma fyrirvara vegna þess að nokkrir nefndarmanna vildu sækja fund hjá fyrirtæki úti í bæ. Nú er bara gott eitt um það að segja ef þingmenn eru áhugasamir um heiminn utan þinghússins, en ég set stórt spurningarmerki við það að fyrirtæki úti í bæ, að ekki sé talað um banki eins og var í þessu tilfelli, ráði fundartímum nefnda Alþingis.

Það er nýbúið að afgreiða ný þingsköp og samkvæmt þeim eru kosnir varamenn í öllum nefndum til að mæta í forföllum aðalnefndarmanna. Ef þingmenn sjálfir vilja vera á fundi úti í bæ á nefndartíma þá á að nota varamannakerfið. Mér finnst ekki góður bragur á því að tími nefndafunda á Alþingi ráðist af fundartímum hjá fyrirtækjum úti í bæ og ég legg til að formenn allra nefnda velti þessu fyrir sér og að hæstv. forsætisnefnd ræði þetta líka. Nefndastörf á Alþingi eiga að hafa forgang fyrir einhverjum áhugamálum þingmanna þó að áhugamálin séu ef til vill brýn, eins og sjávarútvegsmál í þessu tilfelli. Mér finnst hér verið að stíga skref aftur inn í 2007-umhverfið, þar sem fyrirtæki og atvinnulífið eru farin að hafa bein áhrif á störf Alþingis og það er ekki gott.

Að lokum vil ég taka heils hugar undir það sem hv. þm. Helgi Hjörvar sagði áðan um forstjóra Bankasýslu ríkisins. Sú ráðning er skammarleg og ef hæstv. fjármálaráðherra grípur ekki til aðgerða er það Alþingis að taka til á þeim bæ.