140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

staða lögreglunnar og löggæslumála.

[10:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Löggæslumál og sérstaklega málefni lögreglumanna hafa verið mjög í sviðsljósinu að undanförnu og ekki að ófyrirsynju. Lögreglan hefur tekist á við erfiðari og viðameiri verkefni en áður og á sama tíma hafa fjárveitingar dregist saman og mannafli minnkað. Kjarasamningar lögreglumanna og ríkisins runnu út í október 2008 og ljóst er að niðurstaða gerðardóms frá því í lok september dugar alls ekki til að leysa þann hnút sem kjaramál þessarar mikilvægu stéttar eru í.

Það er ljóst að starfsaðstæður lögreglumanna hafa versnað mikið á síðustu missirum, þeir þurfa að takast á við erfiðari og jafnframt hættulegri verkefni en áður og á sama tíma hafa kjör þeirra dregist aftur úr miðað við viðmiðunarhópa. Þetta er óviðunandi staða fyrir lögreglumenn en þetta er líka, hæstv. forseti, óviðunandi staða fyrir okkur sem þjóðfélag enda er lögreglan óumdeilanlega ein af grunnstoðum ríkisvaldsins og um leið samfélagsins.

Það verður ekki annað séð en að lögregluembættin verði enn að taka á sig skerðingu á næsta ári miðað við fjárlagafrumvarpið sem nú liggur fyrir þegar horft er til áætlaðra fjárveitinga og miðað við sennilega þróun bæði í launa- og verðlagsmálum. Það kemur til viðbótar skerðingu sem þegar hefur komið fram á tímanum frá 2008 sem getur verið á bilinu 20–30% að raungildi hjá ýmsum embættum.

Ég er þeirrar skoðunar að nú þegar hafi verið gengið allt of nærri þessari grundvallarþjónustu í landinu. Samdrátturinn er löngu kominn út fyrir það sem við getum kallað sársaukamörk og það er raunveruleg ástæða til að hafa áhyggjur af því að við séum komin að einhverju sem við getum kallað öryggismörk í þessum efnum. Ég verð, hæstv. forseti, að lýsa þungum áhyggjum af þessari stöðu sem við horfum á á þessu sviði.

Í tilefni af þessari umræðu hlýt ég að nefna að uppi hafa verið hugmyndir um breytingar á skipulagi lögreglunnar sem ætlað er að ná fram aukinni hagræðingu. Ég er viss um að unnt er að gera ýmsar skipulagsbreytingar sem geta verið skynsamlegar, bæði með tilliti til nýtingar fjármuna og þeirrar þjónustu sem við ætlumst til af lögreglunni. Ég legg hins vegar áherslu á að þetta tvennt þarf að fara saman, annars vegar góð nýting fjármuna og hins vegar góð þjónusta. Ég legg áherslu á að menn verða að varast breytingar í sparnaðarskyni sem koma niður á þjónustunni og þeim öryggiskröfum sem lögreglan þarf að uppfylla. Ég er þeirrar skoðunar að við öll, bæði við þingmenn og þó sérstaklega hæstv. ráðherra innanríkismála, verðum að taka tillit til þessa bæði við vinnu okkar á næstu vikum í sambandi við undirbúning fjárlaga en um leið þegar við tökum til meðferðar önnur frumvörp og þingmál sem þessu tengjast. Á ég þar meðal annars við fyrirhugaðar breytingar á lögreglulögum sem hæstv. innanríkisráðherra hefur boðað, þingmannatillögu um löggæsluáætlun sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hefur flutt ásamt fleiri þingmönnum og verður rædd hér síðar í dag og fleiri slík mál.

Ég vil, hæstv. forseti, í tilefni af þessum atriðum spyrja hæstv. innanríkisráðherra eftirfarandi spurninga:

1. Telur hæstv. ráðherra þá stöðu sem nú er uppi í kjaramálum lögreglumanna viðunandi? Deilir hann með mér þungum áhyggjum af stöðu þessarar stéttar í ljósi hinnar alvarlegu kjaradeilu sem staðið hefur yfir í þrjú ár? Ég tek fram að ég veit að kjarasamningar eru ekki á forræði hæstv. innanríkisráðherra en engu að síður hlýtur hann að láta sig þessi mál varða.

2. Telur hæstv. innanríkisráðherra að fjárlagafrumvarpið feli í sér fullnægjandi fjárveitingar til lögreglunnar, bæði þegar horft er til þeirrar skerðingar sem hefur orðið á undanförnum árum og í ljósi aukinna og erfiðari verkefna?

3. Hver eru áform hæstv. innanríkisráðherra um breytingar á skipulagi löggæslumála, ekki síst vegna þess að hann hefur boðað að hann hyggist leggja fram að nýju frumvarp um breytingar á lögreglulögum?