140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

staða fangelsismála og framtíðarsýn.

[11:39]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum stöðu fangelsismála og framtíðarsýn. Nýverið gaf hæstv. innanríkisráðherra yfirlýsingu um að búið væri að samþykkja í ríkisstjórn að byggja gæsluvarðhalds- og öryggisfangelsi á Hólmsheiði eins og fram hefur komið fyrr í umræðunni. Ekkert hef ég á móti því að byggt verði gæsluvarðhaldsfangelsi á höfuðborgarsvæðinu en undrast fjölda rýma nýrra öryggisplássa sem talað er um að staðsetja á Hólmsheiði. Ljóst er að loka verður fangelsunum við Kópavogsbraut og Skólavörðustíg vegna þess að staðsetning eða ástand húsnæðis er ekki boðlegt til starfseminnar og finna þá lausn sem fyllir það skarð sem við lokun þeirra myndast.

Litið er á Litla-Hraun sem öryggisfangelsi landsins þótt fangelsi séu samkvæmt íslenskum lögum ekki skilgreind eftir öryggisstigi. Ég leyfi mér að fullyrða að í landi sem telur rúmlega 300 þús. íbúa þurfi ekki að byggja upp fleiri en eitt öryggisfangelsi með allri þeirri stoðstarfsemi sem slíkri stofnun er nauðsynleg, þar á meðal námsaðstöðu og vinnusvæði. fyrir fanga Á Litla-Hrauni starfa reyndir starfsmenn. Þekking á málaflokknum er þar góð, fangelsið starfar í sátt við samfélagið og hefðin í umgengni og samskiptum við stofnunina er til staðar. Á styrkum stoðum starfseminnar á Litla-Hrauni á að byggja upp öryggisfangelsi til framtíðar.

Áður en ráðist er í dýrar byggingar er mikilvægt að þörfin sé greind eftir þeim úrræðum sem lög leyfa. Nú bíða 368 Íslendingar sem hlotið hafa dóm eftir afplánun, 23 konur og 345 karlar. Það er ekki ljóst hve margir þeirra sem bíða afplánunar verða vistaðir í öryggisfangelsi eða lokuðu fangelsi, hverjir fullnægja skilyrði um vistun í opnu fangelsi og hve margir fullnægja skilyrði um afplánun í samfélagsþjónustu. Þessar greiningar þurfa að vera til staðar og áætlanir út frá þeim svo byggja megi upp þá fangelsisþjónustu sem þörf er fyrir.