140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

staða fangelsismála og framtíðarsýn.

[11:41]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég get tekið undir margt í máli Vigdísar Hauksdóttur sem hóf þessa umræðu og þakka henni fyrir að vekja máls á þessum efnum. Mér finnst að við þurfum að ræða þetta.

Nú er 21. öldin og við getum ekki leyft okkur að reka fangelsi á undanþágum ár eftir ár. Refsivist á að mínu mati að felast í betrun og til að það sé hægt þarf að vera góð aðstaða og faglegt starf. Það er ekki nóg að hafa lítinn klefa. Það þýðir auðvitað ekki að fangelsi eigi að vera eins og lúxushótel, en aðstæður þurfa að vera boðlegar og þær eru það ekki eins og málum er háttað núna.

Ég er ekki fylgjandi hugmyndum um fangelsi á Hólmsheiði. Mér finnst þetta hugmyndir sem eru blanda af 2007-hugmyndum og kreppuhugmyndum og felast í atvinnubótavinnu fyrir arkitekta og byggingarverktaka. Það er gríðarleg sérfræðiþekking á Litla-Hrauni og þar er öll grunnþjónusta fyrir hendi. Mér finnst mun æskilegra að byggja þar upp öryggisfangelsi en hins vegar þurfum við gæsluvarðhaldsfangelsi á höfuðborgarsvæðinu. Ég sé ekkert hagræði í að hafa það uppi á Hólmsheiði. Við þurfum að hafa það hérna nær og ég hvet menn til að skoða aðrar leiðir og þá kannski sérstaklega fyrir gæsluvarðhaldið.

Þurfum við kannski líka nýja lögreglustöð? Eigum við einhver hús sem við getum notað? Ég velti því upp.