140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

staða fangelsismála og framtíðarsýn.

[11:50]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Framtíðarskipulag fangelsismála hefur verið í mikilli óvissu um langt skeið. Það blasa við margvísleg vandamál og biðlistar hrannast upp. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að á þessum vanda verður að taka og það er því fagnaðarefni að nú eru þessi mál komin í alvöru á dagskrá.

Það er jafnmikilvægt á þessum tímapunkti að þegar verið er að taka endanlegar ákvarðanir um framtíðarskipulag fangelsismála sé horft til allra þátta á eins breiðum og skynsamlegum grunni og kostur er. Hvar liggur þörfin, hvernig hún er sundurgreind og hvað má lesa út úr þeim upplýsingum sem lagðar hafa verið til grundvallar í vinnu stjórnvalda? Ég er þeirrar skoðunar að það sé ástæða til að yfirfara ýmsar þær tölur og greina betur. Í þeim efnum verður að líta til allra þátta sem lúta bæði að kostnaði og skipulagi.

Ein mikilvægasta spurningin sem þarf að svara er þessi: Hvernig á að horfa til framtíðarskipulags varðandi annars vegar öryggisfangelsi og hins vegar gæsluvarðhaldsfangelsi í fangelsismálum okkar? Ég vek athygli á því að í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur á síðasta þingi kemur meðal annars fram að samkvæmt gildandi lögum eru íslensk fangelsi ekki skilgreind eftir öryggisstigi. Þannig eru fjögur fangelsi í landinu lögð að jöfnu varðandi öryggisstig, þ.e. Litla-Hraun, fangelsið á Akureyri, í Kópavogi og Hegningarhúsið við Skólavörðustíg.

Við vitum öll að aðstæður á þessum stöðum eru afar mismunandi þó að öryggisstuðull sé hugsanlega sambærilegur. Ætlum við að halda úti og reka fleiri en eitt stórt öryggisfangelsi með langtímavistun fanga eða ætlum við að byggja þá starfsemi upp á einum stað og nýta áfram þá aðstöðu sem við höfum nú þegar til staðar? Varðandi mat og yfirferð á biðlistum eftir afplánun er einnig mikilvægt að skilgreina betur hversu stór hluti þeirra nærri 400 einstaklinga sem bíða eftir afplánun getur mögulega tekið út refsingu með öðrum hætti en fangelsisvist, þ.e. með samfélagslegri vinnu, öryggiseftirliti eða öðrum sambærilegum hætti.

Stjórnvöld eru loks að taka á þeim vanda sem er fyrirliggjandi en þá verður líka að gæta þess að fara skynsamlegustu leiðir, það eru lykilatriði þessa máls.