140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

staða fangelsismála og framtíðarsýn.

[11:52]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að velta upp nokkrum atriðum sem ég hef ekki heyrt menn tala mikið um í þingsal varðandi byggingu nýs fangelsis. Ein þeirra hugmynda er einfaldlega sú að það sé óheppileg hugmynd að hafa eitt risastórt fangelsi fyrir landið. Það er ekki heppilegt fyrir fangana, það er ekki heppilegt fyrir fangaverðina og það er ekki heppilegt fyrir það litla samfélag sem er til staðar á þeim stað sem Litla-Hraun er í dag, að stór eða jafnvel stærstur hluti íbúa í litlu samfélagi skuli vinna starf eins og við fangavörslu sem er eitthvert það neikvæðasta sem hægt er að hugsa sér, því miður. Við búum í samfélagi þar sem þörf er á þessum neikvæðu störfum en þá set ég stórt spurningarmerki við það hvort það sé heppilegt fyrir svona lítil samfélög að vera með slíka einhæfa starfsemi.

Ég tel líka að tvö fangelsi geti verið heppilegri með tilliti til starfsumhverfis fangavarða og vísa þar meðal annars í reynsluna sem varð af sameiningu Borgarspítalans og Landspítalans á sínum tíma í eina stofnun. Áður fyrr hafði starfsfólkið möguleika á að skipta um starfsvettvang innan sömu greinar en sá möguleiki lokaðist alveg af við sameiningu stofnananna. Þetta gæti líka boðið upp á þróun mismunandi verklagsreglna, þróun mismunandi möguleika á úrræðum fyrir fanga og fyrir mismunandi hópa fanga þar sem eitt fangelsi yrði kannski öryggisfangelsi af dýrustu og bestu gerð og önnur yrðu öðruvísi.

Þessi atriði hafa ekki verið mikið rædd, heldur hafa menn fyrst og fremst rætt þetta út frá hagkvæmnisatriðum hvað peningasjónarmiðin varðar. Þau eru mikilvæg en þegar kemur að fangelsisvistun og fangelsismálum almennt þarf líka að horfa á málið út frá velferð fanganna, fangavarðanna og samfélagsins þar sem fangelsið er.