140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[12:33]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Þráinn Bertelsson hefur nú teygt umræðuna út á guðfræðilegar brautir. Ég vil bara lýsa því yfir að ég er honum algjörlega ósammála um boðorðin 10. Ég tel að þau hafi staðist tímans tönn og það þurfi engar breytingartillögur þar. Hins vegar er ég sammála honum um að meginefni þeirra miklu hugmynda sem fram koma í tillögum stjórnlagaráðs eru þess eðlis að ef ég stæði frammi fyrir tveimur valkostum sem hv. þingmaður stillti upp gagnvart sjálfum sér, að gleypa það hrátt eða hafna því, mundi ég taka fyrri kostinn. Ég tel að breytingarnar sem í þeim eru séu það djúpristar og mikilvægar að ég mundi vilja leggja það á mig. Það breytir ekki hinu að það eru ýmis ákvæði þarna sem ég vil sjá öðruvísi, það höfum við rætt, ég og hv. þm. Þór Saari, fyrr í dag.

Ég tel í fyrsta lagi að það sé góð hugmynd að kanna a.m.k. hvort hægt sé að bera einstaka kafla undir atkvæði þjóðarinnar, þá að undanfarandi þeirri rispu sem stjórnlagaráð og sérfræðingar hugsanlega taka á því áður. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt til að taka ýmsa skavanka af þessu.

En hv. þingmaður kemur fram með merkilega hugmynd sem er þessi, eins og ég skildi hv. þingmann: Hann telur að sniðugt væri að skoða hvort hægt væri að setja fram valkosti við einstaka kafla. Það kann vel að vera ágætishugmynd. En eins og hv. þingmaður sagði líka eru fjögur ár ekki mikilli tími til að breyta stjórnarskrá.

Við erum búin að eyða miklum tíma nú þegar í að koma þó fram með þessa afurð, en krefst það ekki mikils tíma til viðbótar að reyna að ná einhvers konar samstöðu um hverjir valkostirnir ættu að vera? Er þá ekki hugsanlegt að við föllum á þeim tímamörkum sem ég tel vera (Forseti hringir.) mjög mikilvægt að við fylgjum og er að finna í síðustu setningu þessarar ágætu þingsályktunartillögu?