140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[12:37]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Viðhorf hv. þingmanns til boðorðanna 10 koma mér nokkuð á óvart vegna þess að breytni hans bendir til hins gagnstæða.

Að því er varðar svo þá umræðu sem við höfum átt um þetta mál erum við eins og yfirleitt u.þ.b. algjörlega sammála. Jafnvel þótt hugmynd hv. þingmanns sé freistandi og sé sannarlega í átt til aukins lýðræðis því að hún gefur þó fólki kost á fleiri valkostum, er ég gamall og reyndur hundur úr stjórnarskrárvinnu. Ég hef setið í stjórnarskrárnefnd. Ég veit hvað það er ofboðslega erfitt og flókið að ná niðurstöðu í tíma. Ég held að við höfum einstakt tækifæri á þessu kjörtímabili til að breyta stjórnarskránni. Verði það tækifæri ekki notað er ekki víst að það komi strax aftur. Ef það tekst að breyta stjórnarskránni í þær áttir sem vísað er til í þessum tillögum yrði það þegar fram líða stundir talið vera mesta þrekvirki Alþingis á þessu kjörtímabili. Ég held að það verði arfleifðin sem lengst mun lifa og óbrotgjörnust verða. Þess vegna óttast ég pínulítið að ef menn setja upp valkosti til viðbótar við það sem þarna er að finna nú þegar gæti það leitt til þess að menn lentu í tímahraki sem gæti síðan með aðstoð óvandaðra manna ýtt þessu fram yfir kosningar. Þá geta himintunglin reikað með allt öðrum hætti en hingað til og það kynni að verða erfitt að hrinda tillögunum í framkvæmd.

Ég held að sú hugmynd sem ég a.m.k. skildi úr munni hv. þm. Þórs Saaris fyrr í dag, að láta tillögurnar ganga þann feril að þær færu í heflun hjá sérfræðingum (Forseti hringir.) hjá stjórnlagaráði og síðan til þjóðarinnar, sé rétta leiðin.