140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[12:40]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil vel að hæstv. utanríkisráðherra, sem verið hefur miklu lengur í stjórnmálum en ég, skuli gjalda varhuga við því að setja upp marga valkosti handa þjóðinni til að semja um, því að séu valkostirnir margir er aldrei að vita upp á hverjum fjandanum fólk getur tekið og væri einfaldara að leggja fram bara eina stjórnarskrá. Ég skil það sjónarmið alveg og ég viðurkenni fúslega að ég er sjálfur smeykur við þá hugmynd sem ég bar fram að í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána, þegar að henni kemur, verði boðið upp á fleiri valkosti en bara einn. Auðvitað stendur mér stuggur af þessu en þetta er lýðræði eins og ég sé það fyrir mér, mér finnst það lýðræðislegt. Lýðræði er óútreiknanlegt. Það er stórhættulegt, mjög erfitt í framkvæmd, en ég er samt hlynntur því og ég vil hafa mikið af því.

Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir það siðgæðisvottorð sem hann hefur gefið mér. Ég tek þeim meðmælum með þakklæti og þótt ég sé kannski ekki hlynntur öllum boðorðunum hef ég ekki haft slæmt af því að lifa undir þeirri löggjöf.