140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[13:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga. Það hefði verið skemmtilegra ef hv. formaður nýju nefndarinnar sem fær tillöguna til skoðunar, stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, væri viðstaddur umræðuna vegna þess að þetta skiptir hana töluvert miklu máli.

Við fyrstu sýn sló þessi þingsályktunartillaga mig dálítið. Í fyrsta lagi stendur þarna, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem stjórnlagaráð afhenti Alþingi 29. júlí 2011 fari í eftirfarandi ferli: …“

Nú mega þeir einir leggja fram frumvörp á Alþingi Íslendinga sem eru þingmenn eða ráðherrar og mig minnir forsetinn líka þannig að þetta má alla vega ekki heita frumvarp upp á hvort það verði þingtækt eða ekki. Ég geri því athugasemd við þetta orðalag. Það má þá kannski segja hugmynd til stjórnarskipunarlaga eða eitthvað slíkt eða tillaga til stjórnarskipunarlaga.

Síðan er ferlið sjálft. Þarna er tekið vald af forseta Alþingis. Hann getur ekki sett á dagskrá það sem honum dettur í hug. Alþingi tekur þau völd af honum. Svo er auk þess tekið vald af formönnum og þeim þingmönnum sem eru í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd því að hún á að klára á ákveðnum degi. Ég hef ekki séð áður að mönnum sé skipað fyrir ofan frá af Alþingi öllu. Ég sem sagt geri þessar athugasemdir við þetta, en mér finnst mjög gott að menn ætli að setja þetta í einhvers konar ferli, það er ekki slæmt, þannig að ég geri bara tæknilegar athugasemdir við það.

Ég ætla ekki að ræða neitt sérstaklega mikið um þetta frumvarp eða tillögu eða hugmynd eða hvað við viljum kalla það, en ég er búinn að stúdera það mjög ítarlega. Það er að sjálfsögðu ekki eins og ég mundi vilja hafa það, enda átti ég kannski ekki alveg von á því. Ég hefði viljað hafa mannréttindakaflann miklu sterkari, ég hefði viljað sleppa forsetanum og svona eitt og annað og ég hefði viljað að sagt yrði að ríkið væri til þess að tryggja mannréttindi. Ég sé engan annan tilgang með ríkinu, ekki nokkurn, en það er ekki gert sem er miður. Svo er ég ekki alveg sáttur við breytingarnar á þessu frumvarpi. Það sem sló mig kannski mest af öllu var að í frumvarpinu eða í þessari hugmynd stendur víða að tryggja skuli með lögum eitthvað, eins og t.d. frelsi fjölmiðla. Þetta er algjör hugsunarvilla vegna þess að stjórnarskrá er grunnurinn undir lagasetningu. Þannig að ef eitthvað stendur í stjórnarskrá þarf ekkert að tryggja það með lögum, það á bara að standa að fjölmiðlar séu frjálsir. Svo er það hlutverk Alþingis og þeirra þingmanna sem hér sitja og sverja eið að þeirri stjórnarskrá að koma því aldeilis í verk, en það á ekki að skikka eða framselja kröfur stjórnarskrár til Alþingis. Hvað gerist ef Alþingi gerir það ekki? Hvað gerist ef Alþingi setur ekki þau lög og tryggir ekki þau réttindi? Þá eru þau ekki tryggð og þá getur enginn vísað í stjórnarskrána og sagt: Heyrðu, fjölmiðlar eiga að vera frjálsir. — Nei, nei, Alþingi er ekki búið að þessu. Þetta set ég sem mikinn fyrirvara við þetta frumvarp. Það er auðvelt að laga. Hægt er að fara í gegnum allar greinarnar og taka burt á ótal stöðum þar sem er krafa til Alþingis að setja lög. Þetta er rökvilla, ég veit ekki hvað á að kalla það annað.

Ég ætla ekki endilega að ræða frumvarpið sjálft. Mér þykir það mjög miður, frú forseti, ef þjóðin setur sér stjórnarskrá en getur aldrei kosið um hana. Þannig er ferlið núna í dag af því menn hafa ekki séð leiðir til að komast fram hjá því. Það er til tiltölulega einföld leið til að komast fram hjá þessu. Hún er sú að búið sé til frumvarp til laga um stjórnarskrá og það sett í salt. Í staðinn yrði bara samþykkt ein grein, breyting á 79. gr., sem ég er reyndar með frumvarp um sem var dreift í morgun á þingskjölum 43 og 16 aðrir þingmenn með mér, að breyta stjórnarskránni þannig að 79. gr. verði breytt til að seinni breytingar á stjórnarskránni fari í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem krefst mikils meiri hluta, það er mín skoðun, en að sjálfsögðu geta menn breytt því í þessu frumvarpi. En fyrir næstu kosningar færi sú breyting í gegn og um leið þyrfti að rjúfa þing samkvæmt núgildandi 79. gr., svo yrði kosið til Alþingis aftur og um leið og það kæmi saman hafandi fengið þessa breytingu gæti það sett nýja stjórnarskrá til þjóðarinnar til bindandi afgreiðslu. Þetta teldi ég vera miklu skynsamlegra. Ég vil nefnilega að þjóðin greiði atkvæði um sína eigin stjórnarskrá, ekki að Alþingi geri það og síst af öllu að alþingismenn þurfi að hlíta því ákvæði stjórnarskrárinnar sem er í dag og reyndar í nýju stjórnarskránni líka að þeir skuli hlýða sannfæringu sinni en ekki neinum reglum frá kjósendum sínum. Það mundi þýða að ef þetta ferli sem nefnt er í þingsályktunartillögunni færi í gang þyrfti að kynna þetta, fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og síðan í kosningu, svo mundi nýtt þing taka afstöðu. Þeir þingmenn sem yrðu kosnir á hið nýja þing færu bara eftir sannfæringu sinni samkvæmt gildandi stjórnarskrá. Þeir mundu ekki mega fara eftir þjóðaratkvæðagreiðslunni, þeir mættu ekki fara eftir henni. Þeir eiga að fara eftir sannfæringu sinni. Ef þeim finnst þessi stjórnarskrá ekki góð greiða þeir atkvæði gegn henni, jafnvel þótt þjóðin hafi samþykkt hana. Þannig er rökfræðin í þessu.

Mér finnst þurfa að breyta þessari tillögu þannig að þessi stubbur hérna komi inn í hana, að farið verði eftir því ferli sem ég var að lýsa rétt áðan: Fyrst verði 79. gr. breytt við næstu alþingiskosningar, eftir það verði Alþingi frjálst t.d. tveim vikum seinna að senda stjórnarskrána til þjóðarinnar til bindandi atkvæðagreiðslu. Ég er reyndar með mjög há mörk í þessari tillögu minni um að 6/10 allra kosningarbærra manna skuli samþykkja hana. Ég vil nefnilega að mjög mikil sátt sé meðal þjóðarinnar um stjórnarskrá. Ég vil ekki að menn séu einhvern veginn að flaska á þessu, breyta henni svona einu sinni í viku, það kemur ekki til. Ég vil að um stjórnarskrána sé mikil sátt, enda á það að vera þannig. Þetta eru eins konar boðorðin tíu fyrir þjóðina, grunnur lagasetningar.

Nú vantar formann nefndarinnar eða einhvern sem er í nefndinni, ég er ekki í nefndinni. Nú kemur fram að einn hv. þingmaður hér er í nefndinni og getur þá væntanlega komið þessum boðum eða þessari umræðu til nefndarinnar. Það hefði verið sjálfsagt að öll nefndin hefði hlýtt á þetta vegna þess að hún fær þetta væntanlega til afgreiðslu í dag. Þegar umræðu er lokið fer málið til nefndarinnar og hún þarf að setjast niður og þá er miður ef menn hafa ekki fylgst með umræðunni. Nú getur vel verið að menn sitji á skrifstofum, það er oftast þannig, þá fylgjast þeir með umræðunni og vita þar af leiðandi af þessum fyrirvörum sem ég er með í þessu máli.

Ég vil endilega að menn skoði nákvæmlega þessa breytingartillögu sem ég er með á 79. gr. Ég sé ekki aðrar leiðir til þess að þjóðin greiði atkvæði um sína eigin stjórnarskrá sem ég tel vera mjög brýnt.

Svo að sjálfsögðu áskil ég mér allan rétt með stjórnarskrána sjálfa að koma með hugmyndir, gera breytingartillögur og annað slíkt en við erum í rauninni ekki að ræða það heldur bara ferlið. Það er einmitt hluti af ferlinu að þjóðin greiði atkvæði og ég er dálítið efins um þessar tímasetningar sem forseta Alþingis eru settar, tekið fram fyrir völd hans sem eru byggð á stjórnarskránni að mig minnir, og eins er þingnefndum sagt fyrir verkum sem ég er ekki alveg viss um að sé þörf á og ekki viss um að megi vera í þingsályktunartillögu frá Alþingi. Það er stór spurning hvort þessi þingsályktunartillaga sé yfirleitt þingtæk.