140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[13:50]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég vil byrja á að segja að ég hafna því algjörlega að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um drög að nýrri stjórnarskrá sem hefur farið í víðtæka kynningu inn á hvert heimili í landinu og verið kynnt á þéttbýlisstöðum um allt land sé ómarktæk. Ég held að hún sé þvert á móti mjög marktæk. Hún er ekki bindandi fyrir Alþingi samkvæmt stjórnarskrá en hún er engu að síður mjög marktæk um þá leiðbeiningu sem þjóðin vill gefa þinginu þegar þar að kemur. Það getur vel verið að hún verði samþykkt, það getur vel verið að hún verði felld, það getur vel verið að hún fari 50:50, en þá liggur það einfaldlega fyrir þegar Alþingi fer að vinna með málið. Það finnst mér vera mjög mikilvægt.

Ummæli forseta Íslands við þingsetninguna og þann vinkil sem hann sá á þessari nýju stjórnarskrá, að menn færu í forsetakosningar á næsta ári í óvissu um hvert í rauninni embættishlutverk forseta Íslands ætti að vera í framtíðinni, vakti mikla athygli. Stjórnlagaráðsmenn greinir á um hvort túlkun hans sé rétt. Fleiri en einn og fleiri en tveir hafa tjáð sig um það. Það kom fram í máli hæstv. utanríkisráðherra fyrr í dag í þessum umræðum að hann sjálfur telur að túlkun forseta Íslands á greinunum sé rétt. Það liggur einmitt fyrir stjórnlaganefndinni, sjö manna nefnd með sjö sérfræðingum í, að fara yfir þetta til að tryggja að ekki verði fyrirliggjandi óvissuatriði í þessari stjórnarskrá. Þau er þá hægt að laga áður en hún verður afgreidd.