140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[13:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst varðandi forseta Íslands og ummæli hans. Þau hafa náttúrlega mjög mikið vægi úr stól Alþingis. Það má eiginlega segja að ef viðkomandi greinar verða samþykktar orðrétt nákvæmlega eins og þær liggja fyrir núna sé komin endanleg túlkun á þeim. Hún sé eins og forseti Íslands túlkaði þær, burt séð frá skoðunum allra annarra. Ég held að meira að segja nefndin geti ekki breytt þeirri skoðun í nefndaráliti. Þetta er því töluvert afdrifaríkt.

Ég vona að ég hafi ekki notað orðið „marktækt“ um skoðanakönnun hjá þjóðinni eða kosningu þjóðarinnar um stjórnarskrána, heldur átti ég við að hún hefði lítið gildi. Hún yrði eflaust ef vel tekst til með kynningu mjög marktæk, ég efast ekki um það, en hún hefði ekkert gildi vegna þess að þegar væri búið að rjúfa þing og kjósa nýtt þing og hér kæmu inn nýir og ferskir þingmenn, það hafa orðið gífurlegar breytingar á þingmönnum undanfarið þó einstaka sitji hér eftir, kannski ekki við allra hæfi en ókei, þá bæri þeim og öllum þingmönnum að fara að sannfæringu sinni, ekki eftir reglum frá kjósendum sínum og ekki eftir þjóðaratkvæðagreiðslu enda hefði hún ekkert gildi. Niðurstaðan yrði nákvæmlega eins í atkvæðagreiðslu hér á Alþingi, hvort stjórnarskráin yrði felld eða ekki, þótt þessi kosning færi fram. Hún hefði ekkert gildi, hún væri eyðsla á peningum og alveg hægt að gera bara skoðanakönnun. Það er það sem ég átti við.