140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði.

12. mál
[13:56]
Horfa

Flm. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu nokkurra þingmanna úr Samfylkingunni, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og Hreyfingunni auk hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar.

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem geri úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði og setji fram tillögur um hvernig styrkja megi stöðu neytenda gagnvart fjármálafyrirtækjum. Nefndin skoði verkaskiptingu Stjórnarráðsins og stöðu sjálfstæðra stofnana sérstaklega og geri tillögur um breytingar ef þörf krefur. Tillögur nefndarinnar miði að því að bæta stöðu neytenda gagnvart fjármálafyrirtækjum, auka ábyrgð fjármálafyrirtækja gagnvart neytendum, bæta samkeppni á fjármálamarkaði neytendum í hag, tryggja öflugt eftirlit stjórnvalda með fjármálamarkaði og auka fjármálafræðslu til neytenda. Við tillögugerðina hafi nefndin hliðsjón af stöðu neytenda samkvæmt reglum Evrópusambandsins og líti til framkvæmdar neytendaverndarmála annars staðar á Norðurlöndum, í Kanada, Bandaríkjum Norður-Ameríku og víðar ef nauðsynlegt reynist.

Með hruni íslenska fjármálakerfisins komu í ljós miklir ágallar á stöðu skuldara gagnvart fjármálafyrirtækjum. Starfshættir þessara fyrirtækja höfðu verið mjög óvandaðir og eftirliti ríkisins mjög ábótavant. Þetta sést best á því að dómstólar hafa þurft að grípa í taumana hvað varðar t.d. lögmæti lánasamninga en sú hegðun fjármálafyrirtækja leiddi af sér að mikill fjöldi fólks lenti í vanskilum í kjölfar efnahagshrunsins.

Ég vil í þessu sambandi nefna að Creditinfo benti á skömmu eftir hrun að þegar í upphafi árs 2008, þegar lausafjárþurrðar fór að gæta hjá íslensku bönkunum, fóru íslensk heimili og fyrirtæki að lenda í vanskilum enda höfðu fjármálastofnanir ýtt undir það að mörg heimili og fyrirtæki fjármögnuðu neyslu sína með lánsfé. Auðvitað er hver og einn ábyrgur í fjármálum sínum en það er fullkomlega ólíðandi að fjármálakerfi geti hagað sér með þessum hætti gagnvart neytendum án þess að nokkur opinber aðili hlutist þar til um og líti eftir ábyrgð fyrirtækjanna á starfsemi sinni. Reynslan hefur sýnt að það er nauðsynlegt að ríkisvaldið hafi virkt eftirlit með fjármálafyrirtækjum. Bankar og aðrar fjármálastofnanir hafa yfir að ráða sérfræðikunnáttu og styrk umfram einstaka neytendur og því er mjög mikilvægt að vernda stöðu neytenda.

Á undanförnum árum hafa lög um fjármálafyrirtæki verið endurskoðuð, lög sett til að bæta réttarstöðu skuldara auk þess sem embætti umboðsmanns skuldara hefur verið stofnað. Það má segja að í því neyðarástandi sem hér ríkti eftir hrunið hafi komið í ljós sá sári skortur á löggjöf til verndar neytendum sem gerði það að verkum að Alþingi þurfti að prjóna af fingrum fram flókna og umfangsmikla löggjöf til að vernda skuldara og má þar helst nefna lög um greiðsluaðlögun. Það er mjög slæmt að í svo alvarlegu ástandi sem hér ríkti hafi þurft að vera í þeirri vinnu samhliða og ætla ég að minna á það enn eina ferðina að hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir hafði sem almennur þingmaður hér á einum sjö þingum flutt frumvarp um greiðsluaðlögun án þess að það næði fram að ganga.

Ég tel að við þurfum að ganga miklu lengra en við höfum þegar gert. Við erum búin að setja undir versta lekann þó að enn séu óleyst vandamál þeirra neytenda sem hafa fengið lánsveð til að fjármagna húsnæði sitt og í ábyrgðarmannakerfinu sé ýmis vandi og auðvitað á mörgum öðrum stöðum. Það er mjög mikilvægt að taka næstu skref og fara heildstætt yfir réttarstöðu neytenda á fjármálamarkaði og skilgreina hvernig neytendavernd verði best fyrir komið hjá opinberum aðilum.

Það þarf að fara yfir skipan neytendaverndar í Stjórnarráðinu og hjá stofnunum ríkisins. Ég vil hafa þessa tillögu svona víða því að ég held að fara þurfi mjög heildstætt yfir öll þessi mál. Í kjölfar fjármálakreppunnar var í Bandaríkjunum sett upp sérstök stofnun til að sinna málefnum neytendaverndar á fjármálamarkaði og hún tók nýlega til starfa formlega. Hún átti sér fyrirmynd í kanadískri stofnun sem heitir, með leyfi forseta, á ensku Financial Consumer Agency of Canada og hefur verið starfrækt síðan 2001 við góðan orðstír. Hlutverk þessarar stofnunar er að fylgjast með starfsemi þeirra fyrirtækja sem falla undir opinbert fjármálaeftirlit og tryggja að þau fari að lögum og reglum sem settar eru. Eitt af hlutverkum hennar er að upplýsa neytendur og fylgjast með og hafa áhrif á lagasetningu og þróun laga og reglna sem varða réttindi og vernd neytenda. Þess má líka geta í þessu samhengi að samkvæmt könnun World Economic Forum á samkeppnishæfni ríkja árið 2011–2012 var Kanada efst á lista hvað varðar traust á bankakerfinu. Án þess að ég ætli að fullyrða um orsakasamhengi þarna á milli skiptir auðvitað máli að fólk treysti bankakerfinu og að ríkisvaldið verndi neytendur gegn ágangi fjármálafyrirtækja sem, eins og ég hef farið yfir áður, eru í miklu sterkari stöðu en hver og einn einstakur neytandi sem við þá á viðskipti.

Ég tel rétt og við flutningsmenn að forsætisráðherra skipi formann nefndarinnar og efnahagsráðherra, innanríkisráðherra og velferðarráðherra tilnefni hver sinn fulltrúa. Auk þeirra er eðlilegt að Neytendasamtökin og Samtök fjármálafyrirtækja tilnefni fulltrúa í nefndina. Þessi nefnd þarf að fara yfir starfsemi og leita upplýsinga hjá þeim opinberu stofnunum sem fást við neytendamál og fjármálafyrirtæki og eins hagsmunasamtaka sem koma fram fyrir hönd almennings. Þar vil ég nefna Neytendastofu, Samkeppniseftirlitið, talsmann neytenda og umboðsmann skuldara, hér hefur láðst að skrifa Fjármálaeftirlitið sem að sjálfsögðu á að vera þarna, auk hagsmunasamtaka á borð við Alþýðusamband Íslands, BSRB, BHM og Hagsmunasamtök heimilanna.

Svo vil ég líka ítreka að það er mjög mikilvægt að þessi nefnd fái góðan starfsmann og hafi góða aðstöðu til að leita sér að sérfræðiþjónustu bæði innan lands sem utan. Það þarf því að tryggja fjármuni til að hægt sé að vinna þetta sómasamlega og af bestu og færustu sérfræðingum.

Ég vil að lokum leggja til að málinu verði vísað til allsherjar- og menntamálanefndar.