140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði.

12. mál
[14:20]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á því hvað hv. þingmaður var að fara í lokin varðandi það að Evrópusambandið væri svo stórkostlegt, að það sé svo stórkostlegt að hafa Evrópusambandið þegar hv. þingmaður samþykkir lög, sem hv. þingmaður gerði og gekkst við, sem ganga þvert á hagsmuni neytenda. Evrópusambandið bjargaði ekki þjóðinni frá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar í þetta skiptið, því miður, og ég veit ekki hvort hægt er að ætlast til þess. Stóra einstaka málið er, og ég veit ekki til þess að neinn hafi mótmælt því með neinum rökum, að sú reikniregla sem sett var inn í lögin af hv. þingmanni gengur þvert á hagsmuni neytenda. Þess vegna er fólkið að fara í mál. Það er búið að reikna þetta út margoft og menn komast alltaf að sömu niðurstöðu. Það hefur aldrei verið hrakið með neinum rökum. Ég mundi því ætla að ef hv. þingmaður vill neytendum vel muni hún styðja leiðréttingu á þessu. Hv. þingmaður talar svolítið eins og hún ætli af góðmennsku sinni að leyfa fólki að fara í mál, en hv. þingmaður stýrir því ekki sem betur fer, ekkert okkar stýrir því. Fólk fer í mál ef svo ber undir. Það er dýrt og mikil fyrirhöfn. Það er alveg ljóst að brotið hefur verið á fólki, það gerði ríkisstjórnarmeirihlutinn. Við erum tilbúin með frumvarp sem ég er 1. flutningsmaður að til þess að leiðrétta það. Mér fyndist eðlilegt, sérstaklega í samræmi við það sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir talar fyrir hér, að hv. þingmaður styddi það mál.