140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

vextir og verðtrygging.

9. mál
[14:37]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka til máls í þessari umræðu um það frumvarp sem hér er flutt til breytinga á lögum um vexti og verðtryggingu og felur í sér að breyta skuli útreikningsforsendum við endurreikning ólögmætra gengistryggðra lána frá því sem ákveðið var með lögum sem sett voru hér nr. 151/2010. Rétt er að rifja það upp af hverju lög 151/2010 voru sett. Þau voru sett í kjölfar þess að Hæstiréttur hafði í tveimur dómum, 16. júní og 16. september á síðasta ári, komist að þeirri niðurstöðu að gengistryggð lán væru ólögmæt á nánar skilgreindum forsendum og að þau lán sem þannig hefðu verið talin ólögmæt ættu að taka vexti í ljósi þess að vaxtaákvörðunin væri ógild frá upphafi eftir því sem kveðið væri á um í óverðtryggðum vaxtaákvörðunum Seðlabanka Íslands. Þetta var leiðsögnin sem mátti ráða af þessum tveimur dómum. Það lá jafnframt fyrir að mikill fjöldi lána heimila og fyrirtækja lá þarna undir. Það var alveg ljóst að skuldavandi heimila væri ærinn fyrir þó svo ekki þyrfti til að koma að hvert einasta heimili þyrfti að fara í dómsmál um stöðu síns láns eða leita til úrskurðaraðila.

Það hefur oft verið gagnrýnt að ekki hafi í skuldum heimilanna verið reynt að búa til einfaldar og almennar lausnir og meginreglur og því var það sem ég lagði fram frumvarp til laga um einfalda aðgerð til að veita öllum heimilum þann rétt sem kveðið var á um í þessum dómum. Dómarnir tóku bara til bílalána, þannig að ekki var vitað á þeim tíma hvort íbúðalán féllu líka undir fordæmin. Við ákváðum hins vegar að leggja það til að þau yrðu líka felld undir fordæmið og þau yrðu líka talin ólögmæt í skilningi dómsins. Með því tókum við áhættu gagnvart stjórnarskrá Íslands sem ver eignarréttindi kröfuhafa og banka í þessu tilviki. Við gerðum það undir hótunum frá kröfuhöfum. Þeir sendu forstjórum bankanna og stjórnarmönnum þeirra meðal annars persónulegt hótunarbréf þar sem þeir hótuðu þeim eignamissi og alls konar viðurlögum ef þeir samþykktu þessar fyrirætlanir stjórnvalda. Slík var nú harkan af hálfu viðsemjendanna í þessu máli. Við gengum engu að síður þá leið að taka þessa áhættu hvað íbúðalánin varðar. Við fengum vissulega, við sem vorum hér í meiri hluta þings fyrir jól, uppreist æru hvað það varðar þegar Hæstiréttur komst að því snemma á þessu ári að íbúðalán féllu vissulega undir þetta fordæmi. Þar með var létt af ríkinu allri mögulegri bótaábyrgð vegna þess að löggjafinn hefði hlutast til um samningsskilmála íbúðalána.

Þá kom að því hvernig haga skyldi reiknireglunni, hversu langt skyldi ganga. Það var afstaða mín, og ég held ég tali þar fyrir meiri hluta Alþingis sem samþykkti þessi lög, að við vildum ekki brjóta á stjórnarskrárvörðum réttindum kröfuhafa. Við tókum það skýrt fram. Ég gerði það í framsöguræðu og það var margtekið fram hér í umræðu. Auðvitað rýrðu þessi lög ekki á einn eða neinn hátt rétt lántaka ef hann reyndist meiri. Við vorum einfaldlega með lögunum að búa til einfalda reiknireglu um hvernig hægt væri að haga endurreikningum lánanna lánþegum til hagsbóta. Ef Hæstiréttur teldi að menn ættu meiri rétt væri hann auðvitað áfram fyrir hendi, því að löggjafinn getur ekki tekið af fólki rétt sem fólk á, stjórnarskrárvarinn rétt sem fólk á, bótalaust. Markmiðið var með öðrum orðum að setja hér reiknireglu. Við fórum eins langt og talið var fært að ganga á þeim tíma án þess að brjóta gegn rétti kröfuhafa af því við vildum ekki baka ríkinu bótaskyldu. Við vildum ekki með þessari aðgerð ríkisvæða mögulegt tjón bankanna af endurreikningi gengistryggðra lána.

Síðan hafa komið fram önnur sjónarmið og þessi aðgerð hefur verið gagnrýnd. Einkanlega hafa tveir þættir verið gagnrýndir. Það er annars vegar að vaxtaákvæðin í samningunum séu endurreiknuð frá grunni og þar með gildi ekki, sem fullnaðarkvittun fyrir afborgun, kvittun sem hefur verið gefin út vegna þeirrar afborgunar aftur í tímann og að með því sé brotið gegn gömlu ákvæði sem lengi hefur verið hér í lögum, frá 1798, um skuldbindingargildi áritana um afborganir af skuldabréfum.

Hitt sem hefur verið gagnrýnt er vaxtavöxtun og heimildir þar. Í báðum tilvikum eru sjónarmið sem vegast á. Það er vissulega rétt að sú almenna regla gildir að afborganir feli í sér fullnaðarkvittun fyrir þeirri afborgun, en á það ber líka að líta að Hæstiréttur, í þessum tilteknu málum, 16. júní og 16. september, markaði það fordæmi að endurreikna bæri lánið frá grunni eins og engin vaxtaákvörðun hefði verið í málinu og það leiðir óhjákvæmilega til plús og mínus niðurstöðu á einstökum afborgunum. Það var sú túlkun sem lögð var til grundvallar við setningu laganna.

Að því er varðar vaxtavöxtunina er í 12. gr. laga um vexti og verðtryggingu heimild til slíks. Við í þingmeirihlutanum lásum út úr dómafordæmi Hæstaréttar þá niðurstöðu að vaxtaákvörðunin sem slík væri ólögmæt en ekki önnur ákvæði lánasamninganna. Við vildum ekki hlutast til um þau. Í sumum af þessum tilvikum er vaxtavöxtun heimil, í sumum ekki, og því fer það í sjálfu sér eftir ákvæðum samninganna að öðru leyti hvort vaxtavöxtun er heimil eða ekki. Nú liggur fyrir að einhverjir hyggjast láta á það reyna fyrir dómi hvort þessir tveir þættir úr löggjöfinni standast. Það er vel, því að þetta er að mínu viti álitaefni sem Hæstiréttur verður að leysa úr og veita okkur skýra leiðsögn um.

Ég ítreka að það er ekki á færi Alþingis að svipta fólk lögmætum eignarréttindum sem það á annað borð hefur. Þar af leiðandi er ljóst að ef Hæstiréttur telur að fólk eigi meiri rétt hvað þessa þætti varðar en fólst í lögum nr, 151/2010 mun Hæstiréttur staðfesta það og víkja til hliðar þessum ákvæðum laganna, ef Hæstiréttur telur að meiri hluti Alþingis hafi ekki skilið rétt þá leiðsögn sem í dómum hans fólst. Það leiðir af sjálfu, leiðir af eignarréttarvernd stjórnarskrárinnar og er líka yfirlýstur vilji Alþingis. Það var aldrei markmið okkar að rýra rétt einstaklinga að einu eða neinu leyti. Við vildum tryggja öllum að minnsta kosti þann rétt sem við töldum óumdeilt að hægt væri að leiða af dómum Hæstaréttar. Ef einstök álitamál leiða til þess að fólk eigi enn ríkari rétt, á fólk bara ríkari rétt og fær hann. En við höfum alla vega tryggt það, með þessari löggjöf nr. 151/2010, að 80.000 samningar hafa verið endurreiknaðir án málaferla og fólk hefur þá alla vega fengið til baka rétt samkvæmt þeim, í samræmi við lögin, og ef fólk á ríkari rétt þá fær það hann í kjölfar dómsmála.

Ég tel það ekki skynsamlegt af löggjafanum að ganga lengra hvað varðar lagasetningu um einstaka þætti þessara álitamála. Hér er um að ræða álitamál sem varða lögverndaða hagsmuni í báðar áttir í samningum sem gerðir hafa verið á frjálsum markaði. Ég tel ekki að það sé hlutverk löggjafans út frá samningsfrelsi að hlutast til um slík ákvæði með löggjöf. Það mun skapa hættu á bótaskyldu, þannig að samþykkt þess frumvarps sem hér liggur fyrir skapar hættu á bótaskyldu ríkisins gagnvart fjármálafyrirtækjum ef niðurstaðan yrði sú að Alþingi væri þar að taka af þeim rétt sem þau hefðu samkvæmt samningunum í dag.

Ég tel því óhjákvæmilegt að Hæstiréttur kveði upp úr um þetta. Ég fagna því að loksins sé að koma mál þar sem réttmæti reiknireglnanna að þessu leyti, í lögum nr. 151/2010, er borið undir dómstóla. Það er vonum seinna. Ég var að vonast eftir að það mundi gerast fyrr, því að það er mikilvægt að eyða þessari óvissu. Vilji meiri hluta Alþingis, sem samþykkti lög nr. 151/2010, stóð aldrei til að rýra rétt fólks að nokkru leyti, heldur veita fólki þann rétt sem við töldum óumdeilt að það hefði, en vissulega vildum við ekki tefla þar á allra tæpasta vað til að baka ríkinu ekki bótaskyldu að óþörfu.

Eftir stendur að Hæstiréttur, dómsvaldið, mun eðli málsins samkvæmt eiga síðasta orðið um rétta túlkun þessara ágreiningsmála eins og allra annarra. Niðurstöðu Hæstaréttar verðum við að lúta í þessu máli eins og öllum öðrum.