140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

vextir og verðtrygging.

9. mál
[15:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, sem ætti í raun að vera bara hrein stærðfræði sem kennd er víða um heim. Fyrst vil ég fara í gegnum það sem mér finnst skekkja umræðuna töluvert mikið, það eru afskriftasjóðir bankanna og mikill hagnaður þeirra.

Fyrir hrun skulduðu íslensku bankarnir um 12 þús. milljarða kr. sem var tíföld landsframleiðsla á þeim tíma. Þeir sem höfðu lánað þessa peninga töpuðu helmingnum af upphæðinni. Þeir eru ekkert voðalega kátir með það. Þeim þykir ekki gott að tapa 6 þús. milljörðum, fjórfaldri eða fimmfaldri þjóðarframleiðslu Íslands. Ég hef sagt að þeir geti sjálfum sér um kennt, vitleysingarnir sem lánuðu vitleysingunum, ég vil leyfa mér að orða það þannig. Þeir hefðu mátt vita að þetta var mjög áhættusamt þegar komið er upp í svona stórar tölur af þjóðarframleiðslu eins lands. Þegar þessi staða var komin upp og menn samþykktu neyðarlögin og stofnuðu nýju bankana, kom upp deila um hvernig ætti að færa eignir á móti þeim lánum og innlánum sem nýju bankarnir tóku yfir. Það stefndi í áratuga málaferli af því kröfuhafarnir, og ég vil undirstrika það, frú forseti, þeir vildu hafa afskriftasjóðinn sem minnstan svo þeir fengju sem mest virði fyrir þau skuldabréf sem sett voru yfir. Þeir vildu hafa afskriftasjóðinn sem minnstan til að þeir fengju sem mest út úr bönkunum, fyrir þær eignir sem þeir létu á móti innstæðum og öðru slíku. Hins vegar vildi íslenska ríkið sem stofnaði bankana hafa afskriftasjóðinn þykkan, stóran og mikinn til að bankarnir yrðu sterkir og gætu staðist þær hremmingar sem kæmu síðar og þær komu vissulega. Dómurinn um að öll gengistryggð lán væru ógild var verulega mikið högg, þá kom í ljós hvað var gott að hafa safaríkan afskriftasjóð, bankarnir réðu við þetta.

Til að leysa þetta voru nýju bankarnir settir undir gömlu bankana. Það er reyndar hugmynd sem ég gaukaði á sínum tíma að forsætisráðherra, Geir Haarde, til að koma í veg fyrir áralöng málaferli. Þá skiptir afskriftasjóðurinn ekki máli, því ef hann er mjög safaríkur kemur fram mikill hagnaður, frú forseti. Það er einmitt það sem er að gerast þessa dagana. Ég skil ekki að menn skuli ekki átta sig á þessu samhengi. Þetta er samhengið.

Ef við förum hins vegar að eyðileggja bankana, ef við ætlum að skerða þessa eign kröfuhafanna á einhvern máta, verða þeir áfram reiðir og muna eftir því að þeir eru búnir að tapa 6 þús. milljörðum á Íslandi og langar ekki til að tapa meiru og fara í mál. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra kom einmitt inn á þetta, kannski ekki nógu skýrt, að við getum ekki skert bankana með óeðlilegum hætti. Almenn skuldaniðurfelling mundi þýða að bönkunum mundi blæða og þá mundu kröfuhafarnir fara í mál. Þeir mundu segja: Almenn skuldaniðurfelling er ekki í Þýskalandi, af hverju ætti hún að vera á Íslandi? Nákvæmlega eins og Þjóðverjar segja núna í sambandi við annað mál: Við erum ekki tilbúnir til að borga 90% lífeyrisréttindi í Grikklandi á meðan við erum með 60% lífeyrisréttindi. Þetta þurfa menn að hafa í huga, við getum ekki gert hvað sem við viljum með bankana. Við getum ekki bara sagt: Þeir eru ægilega ríkir og hagnaðurinn er mikill, við ætlum bara að taka af þeim hagnaðinn. Sérhver skattlagning verður skoðuð í þessu ljósi, í ljósi forsögunnar.

Þetta var um kröfuhafana og afskriftasjóðina sem eru mjög þykkir. Einn banki er undantekning að því leyti, Landsbankinn, því hverjir skyldu nú hafa verið kröfuhafarnir þar eftir neyðarlögin, frú forseti? Það voru Bretar og Hollendingar af því að þeir höfðu lagt út fyrir Icesave. Breska fjármálaráðuneytið og hollenska fjármálaráðuneytið langaði ekki til þess að eignast banka á Íslandi, virkilega ekki. Afskriftasjóðurinn varð miklu minni í kjölfarið hjá Landsbankanum og gefið var út skuldabréf með endurskoðunarákvæði, þ.e. ef innheimtur yrðu meiri en ætlað var ætti að borga meira til kröfuhafanna, til slitabúsins. Svona er þetta, þetta er staðreyndin. Svona er það, frú forseti, þegar maður skuldar, það er mjög einfalt. Þeir sem eiga kröfu á mann reyna að ná eins miklu og þeir geta, hvort sem það eru erlendir bankar eða innlendir bankar eða hver sem það nú er. Þess vegna segi ég að fólk eigi ekki að skulda, við áttum aldrei að skulda þetta, en það er önnur saga, það er bara persónulegt sjónarmið mitt. (Gripið fram í.)

Hér hefur farið fram undarleg umræða um vexti. Það er kannski best að lesa um vaxtafræði í tryggingafræði, því í tryggingafræði eru vextir notaðir mjög mikið og til langs tíma. Það er talað um vikuvexti en þeir leggjast við einu sinni á viku. Mánaðarvextir leggjast á einu sinni í mánuði eins og hjá Íbúðalánasjóði. Þá reiknar maður út reiknaða vexti eða afkastavexti, sem eru mánaðarvextirnir lagðir við einn í tólfta veldi, og mínus einn aftur. Þá fær maður út hvað eru afkastavextir. Ég var einmitt að kíkja á það að Íbúðalánasjóður brýtur þessa reglu. Hann segist vera með 4,9% vexti og deilir í með 12, leggur það svo inn í formúluna, af því þetta er borgað í hverjum mánuði, og fær út afkastavexti sem eru yfir 5%. Hann smyr sem sagt á. Ég reiknaði þetta út og mér sýndist í fljótu bragði muna um 1% á öllum greiðslum til Íbúðalánasjóðs við þetta. Nú getur vel verið að þeir hafi heimild til þessa, ég er ekki búinn að kanna það. Ég ætla að vona að þeir séu að gera þetta rétt, hitt væri verra, þó að það væri til hagsbóta fyrir lántakendur hjá Íbúðalánasjóði ef þeir hafa borgað of mikið. Ég ætla að vona að ég sé ekki að hreyfa við einhverju nýju máli.

Það eru líka til samfelldir vextir þar sem vextirnir eru lagðir við á hverri sekúndu, á hverju sekúndubroti. Það eru því til alls konar vextir, dagvextir, vikuvextir, mánaðarvextir. Nafnið segir til um hversu oft viðkomandi vextir eru lagðir við höfuðstól. Þegar ekkert er nánar tilgreint um vexti er átt við ársvexti. Það er grundvallaratriði. Í lögunum sem við erum að tala um eða í 12. gr. stendur einmitt mjög skýrt að allir vextir á Íslandi séu ársvextir. Þar segir, með leyfi frú forseta:

„Sé vaxtatímabil lengra en tólf mánuðir án þess að vextirnir séu greiddir skulu þeir lagðir við höfuðstól og nýir vextir reiknaðir af samanlagðri fjárhæð.“

Það stendur sem sagt í 12. gr. að bæta á vöxtunum við höfuðstól einu sinni á ári ef vaxtatímabilið er lengra, annars skulu þeir leggjast við höfuðstól skemur. Það vantar eiginlega þá hugsun að til sé eitthvað sem heitir vikuvextir þar sem er lagt við höfuðstólinn vikulega. Það má því ekki hafa tíu ára flata vexti. Frumvarpið sem við ræðum hér gerir einmitt það. Í því er gert ráð fyrir að ekki séu lagðir vextir við höfuðstólinn á 12 mánaða fresti. Það er kannski stóri gallinn við það.

Það er dálítið skrýtið að svona mikil deila skuli vera um einfalda stærðfræði, menntaskólastærðfræði og þekkingu sem var til á Íslandi í bönkunum. Allar gömlu sparisjóðsbækurnar voru reiknaðar svona. Það var útborgun og innborgun, það var lagt við út og inn, og í lok ársins voru síðan reiknaðir dagvextir og þeir lagðir við höfuðstólinn 1. janúar, reyndar var það 20. desember af praktískum ástæðum. Þannig að málið er afskaplega einfalt. Ég skil ekki hvað menn hafa getað flækt það mikið. Það er alveg ótrúlegt og frumvarpið líka. Menn hefðu kannski getað legið yfir textanum þegar hann kom í efnahags- og skattanefnd ef menn hefðu fengið tóm til þess en það var bara ekki tóm til að gera þetta skynsamlega þannig að þetta yrði lipurt og létt. Ég man eftir því að ég beið eftir því að umboðsmaður skuldara kæmi með töfluna og útreikningana, excel-skjal þar sem fólk gæti bara potað inn sínum greiðslum og fengið út niðurstöðuna, því þetta er mjög einfalt. Menn sættast á hvenær eigi að leggja vextina við höfuðstól, hvort sem það yrði á 12 mánaða fresti frá því lánið var greitt út, það væri ein aðferð, eða hvort það væri alltaf gert um áramót, það væri önnur aðferð. Báðar aðferðirnar koma nokkurn veginn svipað út en eru ekki alveg eins, það munar einhverjum hundraðköllum. Síðan koma allar greiðslur sem koma inn á lánið til frádráttar höfuðstól um síðustu áramót, ef miðað er við áramót, og svo eru reiknaðir dagvextir á þetta til áramóta og lagt við höfuðstól við áramót. Þetta væri afskaplega einföld aðferð. Ég skil ekki hvað mönnum tekst að flækja þetta og ég skil ekki af hverju menn eru að flækja þetta.

Ég ætla að vona að efnahags- og viðskiptanefnd sem fær þetta til umsagnar, sem ég sit nú reyndar ekki lengur í, finni á þessu góðan flöt og vinni með umboðsmanni skuldara. Mér finnst að umboðsmaður skuldara eigi að gæta hagsmuna skuldara og koma með reiknilíkan, excel-skjal, þar sem hver einasti Íslendingur sem er í þeirri stöðu að vera með gengistryggð lán, getur sett sína dagsetningu og greiðslu inn í skjalið og reiknað það út sjálfur. Ég þekki fólk sem hefur greitt í bankann og óskað eftir að fá útreikningana. Það fær það ekki. Maður er bara gáttaður. Það getur ekki verið. Færðu ekki útreikningana? Nei.

Ég hef reyndar ekki gefið mér þann tíma sem ég hefði kannski átt að gera fyrir kjósendur mína til að setja mig inn í svona dæmi, en mér finnst að þetta eigi ekki að vera flókið. Svo koma auðvitað til alls konar hagsmunir. Það er náttúrlega til fólk sem vill ekkert borga, helst ekki neitt og það ruglar allt dæmið af því að það fólk fellst ekki á sanngjarnar eða réttar lausnir og er alltaf að reyna að fá eitthvað meira. Það finnst mér dálítið slæmt í frumvarpinu. Þar stendur að því verði breytt til hagsbóta fyrir skuldara, eins og það sé eitthvert markmið í sjálfu sér að gera þetta pínulítið skakkt fyrir skuldarana. En hinum megin eru kröfuhafarnir og ef við gerum eitthvað pínulítið of mikið fyrir skuldarana gera kröfuhafarnir einfaldlega kröfu á íslenska ríkið. Þeim þótti ekkert gaman að tapa 6 þús. milljörðum. Það er mjög einfalt. Þeir munu fara fyrir Hæstarétt og ef við gerum eitthvað sem Hæstiréttur kemst að niðurstöðu um að er of mikið fyrir skuldarana, verður gerð krafa á íslenska ríkið. Þá borga skattgreiðendur, allir, líka þeir sem ekki skulda, líka þeir sem spara en við ræddum það fyrr í dag að sparifjáreigendur eru með neikvæða vexti og búið er að hrekkja þá alveg stöðugt. Þetta er farið að minna á gamla daga. Ef menn gera of vel við skuldara kemur bara til viðbótarskattlagning.

Þess vegna skora ég á hv. nefnd sem fær þetta til umfjöllunar að gera þetta rétt svo að við gefum ekki neinn höggstað á okkur, að við séum að gera eitthvað til hagsbóta fyrir skuldara. Það er það sem ekki má. Ég held að þetta sé ekki flókið mál heldur einfalt og ég trúi því varla að einhver endurskoðandi hafi verið í 40 tíma að gera þetta. Það má vel vera. Maður setur þetta í excel og fær vaxtatöfluna frá Seðlabankanum, ég hef reyndar ekki nálgast hana enn þá, hún hlýtur að liggja einhvers staðar. Ef ég fengi hana gæti ég sett hana upp í excel kannski á hálftíma.