140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

vextir og verðtrygging.

9. mál
[15:33]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því ef hv. þm. Pétur Blöndal ætlar að eyða hálftíma í það að búa til nýtt reiknilíkan, það veitir ekki af. Bara svo það sé alveg skýrt snýst þetta að sjálfsögðu um að gera það sem er rétt. Það hefur enginn talað um það að menn vilji nálgast hlutina með einhverjum öðrum hætti, en það sem þetta snýst um er að það var gert með þessum lögum að því var breytt sem við göngum út frá alltaf þegar hv. þm. Pétur Blöndal greiðir lánin sín sem ég veit að hann gerir mjög samviskusamlega … (PHB: Ég skulda ekki neitt.) [Hlátur í þingsal.] Já, þetta er ekki gott dæmi, ég er að hugsa um að taka eitthvert annað dæmi. Hver sá sem greiðir lán sín fær kvittun fyrir því og hann treystir á það. Grunnurinn að þessu öllu saman er sá að við stöndum ekki jafnfætis fjármálastofnunum, þær vita meira og gert er ráð fyrir því í íslensku þjóðfélagi og það hefur komið fyrir íslenskan dómstól, að sérþekking þessara stofnana eins og annarra sambærilegra sé meiri en neytandans. Það eru gerðar ríkari kröfur til fjármálastofnana. Ég hvet fólk aðeins til að hugsa: Ef við hættum því, ef við gefum okkur bara að við séum jafnsett öllum þessum stofnunum, m.a. fjármálastofnunum, held ég að við þurfum varla að lesa í smæstu smáatriðum um alla hluti sem okkur finnast vera sjálfsagðir í dag.

Við hver mánaðamót borga ég t.d. af verðtryggðu láni. Ég hef aldrei borgað af erlendu láni en ég borga af verðtryggðu láni. Þar stendur skýrt hvað ég borga af höfuðstól, hvað ég borga í vexti og verðbætur o.s.frv. Á ég ekki að treysta því? (ÓN: Jú.) Hv. þm. Ólöf Nordal segir jú. Það er nákvæmlega þannig. Ef ekki, þarf ég þá að eyða dágóðum tíma mínum í að kanna það og væntanlega kaupa mér sérfræðiaðstoð til að meta að hvort það sé hárrétt hjá bankanum? Það á ekki bara við um þetta, það á við um allt. Ég er með kreditkort hjá bankastofnun og ýmsa aðra þjónustu. Ég er hjá tryggingafélagi. Stundum þarf ég að fara til læknis. Þegar ég fer til læknisins og hann greinir eitthvað að mér, á ég þá að segja við hann: Nei, nú ætla ég að fara heim og lesa aðeins anatómíuna. Við erum nú jafnsettir þannig að þú veist í rauninni ekkert meira en ég og ég get ekki gert ríkari kröfu til þín. Það er auðvitað ekki þannig. Það er grunnurinn í þessu máli að það eru gerðar ríkari kröfur til fjármálastofnana.

Hæstv. ráðherra getur ekki hlaupið frá því að hann sagði að hann væri að gæta hagsmuna fjármálafyrirtækjanna.

Rök hæstv. ráðherra eru þau að hann vildi ekki taka áhættu fyrir hönd ríkisins. Það eru jú málefnaleg rök en það er erfitt að átta sig á því af hverju reikniregla var sett fram sem er á öðrum forsendum en það sem viðgengist hefur hér svo lengi sem elstu menn muna og í rauninni miklu lengur, eins og einhver benti mér á — ég man ekki hvenær það var, sautján hundruð og eitthvað, sem konungsúrskurður kom varðandi fullnustu greiðslna. Ég kann ekki að fara með það en það hefur verið svo í árhundruð. Þá vísa ég til þeirrar reglu að þegar maður er búinn að greiða og búinn að fá kvittun fyrir því að maður hafi greitt þá stenst það. Það gerist ekki í þessum lögum. Í frumvarpinu er ekki tekið tillit til þess að fólk sé búið að greiða höfuðstól. Það kemur illa út fyrir neytendur, fyrir utan það að það er óskiljanlegt af hverju sú ákvörðun var tekin.

Mér finnst vera holur hljómur hjá hæstv. ráðherra sem kemur hér og segir: Ég þorði bara ekki að taka neina áhættu vegna þess að ég vildi ekki skapa ríkinu bótarétt, en síðan heyrum við hv. þm. Margréti Tryggvadóttur lýsa vinnubrögðunum í nefndinni. Það hvarflar ekki að mér að hv. þingmaður sé að segja ósatt þegar hún lýsir því nákvæmlega hvernig það var. Hv. þingmaður sagði frá því að rétt fyrir miðnætti áður en frumvarpið var klárað kom eitt dæmi — eitt dæmi. Frumvarpið var unnið á handahlaupum rétt fyrir jólin. (Gripið fram í: Eins og alltaf.)

Það er ekki sannfærandi að segja: Ég vildi vanda mig svo gríðarlega mikið, og vera síðan í stjórnarmeirihluta sem vinnur með þessum hætti. Síðan er það náttúrlega kapítuli út af fyrir sig af hverju málið fór ekki til hv. viðskiptanefndar. Við höfum oft rætt það.

Þetta er ekki bara tal einhverra þingmanna eða fólks sem telur sig bera skarðan hlut frá borði. Ég vek athygli á því að Ása Ólafsdóttir, lektor við lagadeild HÍ, varaði við þessu og benti á það í meðförum nefndarinnar. Hún hefur skrifað ritgerðir um nákvæmlega þessa lagasetningu þar sem hún segir að hér hafi ekki verið staðið rétt að málum og þetta standist ekki neina skoðun. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra þegar hann sagði að hann ætlaði ekki að styðja málið og vilji ekki að það nái fram að ganga.

Hv. þm. Samfylkingarinnar, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hélt fallega ræðu um neytendavernd og flutti mál um það. Ef ég skil hv. þingmenn Samfylkingarinnar og hæstv. ráðherra rétt á ekki að skoða málið af neinni alvöru í þinginu. Nú reynir þó á hvort aðrir hv. þingmenn og forustan í hv. efnahags- og viðskiptanefnd vilji setja málið í forgang og skoða það vel þegar það fer til hennar. Ég held að það geti enginn haldið því fram að þar komi ekki fram málefnaleg rök, ekki nokkur maður. Ég er búinn að heyra í mörgum lögmönnum og enginn sem ég veit um, ef undan er skilinn lögfræðingurinn hv. þm. Árni Páll Árnason, hefur varið þessa gjörð. Aðrir lögmenn hafa haft miklar efasemdir, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, en flestir sem ég hef talað við ef ekki allir hafa lýst því yfir að það standist ekki skoðun að fara fram með þessum hætti.

Nú reynir á þingið, á þá hv. þingmenn sem tala fyrir neytendavernd hvort við munum ræða þetta og fara í málið af einhverri alvöru.

Af því ég vísaði í ritgerð frá Ásu Ólafsdóttur segir þar í síðasta kafla ritgerðar hennar, með leyfi forseta:

„Það almenna sjónarmið hefur áður komið fram í dómum Hæstaréttar að á bönkum og fjármálastofnunum hvíli rík krafa um vandvirkni og varúð í viðskiptum. Má nefna dóm Hæstaréttar 1995 bls. 453 þar sem vísað er til sérþekkingar banka í viðskiptum með verðbréf. Í dómi Héraðsdóms er einnig tekið fram að bankar þurfi að hafa sanngirni og heiðarleika að leiðarljósi í viðskiptum við lántakendur.“

Svo við förum nú ekki í smáatriðin, sem auðvelt er að gera í þessu máli, og tæknilegar útfærslur hvet ég tilheyrendur til að velta því fyrir sér hvort þeir telji það geta staðist að löggjafinn geti gengið fram og sagt: Kvittanirnar sem þið eruð með í höndunum sem segja að þið hafið greitt niður höfuðstól eru ekki gildar. Alþingi Íslendinga ákveður hér með að þær séu ekki gildar.

Virðulegi forseti. Finnst þér það geta gengið upp? Fyrst við tölum um afturvirkni gekk dómur Hæstaréttar ekki út á það og það er hvergi hægt að finna neinn stað um það að menn ætluðu að ganga fram með þeim hætti. Dómur Hæstaréttar gekk út á það að gengistryggingin væri ekki lögleg en ekki að fólk sem greiðir í góðri trú, og það gerist á hverjum einasta degi, geti ekki treyst því sem tíðkast hefur hér í árhundruð, þ.e. að þegar menn hafa greitt af höfuðstól og eru með kvittun í höndunum fyrir því sé það það sem gildir.

Síðan eru vaxtavextir kapítuli út af fyrir sig og hvenær menn eiga að hefja útreikning á óverðtryggðum vöxtum Seðlabankans. Ég hef viljandi ekki farið mikið út í það en hvet þó þá sem áhuga hafa, sérstaklega fjölmiðlamenn, til að skoða hvort það geti staðist að vera með mánaðarlega vaxtavexti. Á það hefur verið bent að í lögum stendur að reikna eigi vaxtavexti eftir 12 mánuði, árlega vaxtavexti, en í því svari sem ég fékk við fyrirspurn minni kemur fram að þrjú fyrirtæki reikni vaxtavexti mánaðarlega, sem kemur sér illa fyrir þá lántakendur sem verða fyrir því.

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa góðu umræðu. Hv. þm. Pétur H. Blöndal ræddi um afskriftasjóði bankanna og annað slíkt. Ég efast ekki um að við munum ræða það. Um það snýst þetta mál ekki. Það snýst ekki um hvernig efnahagsreikningur bankanna lítur út. Það hefur ekki komið skýrt fram hvenær menn gerðu sér grein fyrir að þessi lán væru ólögleg. Þar lenti ákveðinn fyrrverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, Gylfi Magnússon, í vandræðum vegna þess að hann sagði ekki satt og rétt frá því í þinginu um hvenær hann fékk fyrst upplýsingar um það, ef ég man rétt. En þetta snýst ekkert um hvernig bankarnir gera upp reikninga sína. Við þurfum að fara betur yfir það og eins endurmat á lánum o.s.frv. og hvað sé rétt og skynsamlegt í því. Þetta fjallar ekki um stöðu Íbúðalánasjóðs eða framgöngu hans við lántakendur. Þetta fjallar um þennan endurútreikning. Þetta fjallar um það hvernig löggjafinn, hæstv. ríkisstjórn, gekk fram í því máli. Þar tel ég að hafi verið gerð mistök sem lántakendur þurfa að blæða fyrir. Þetta frumvarp er lagt fram til þess að leiðrétta þau mistök.