140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

vextir og verðtrygging.

9. mál
[15:50]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Ég þakka þingmanninum svarið. Ég hef skoðað fjölmörg svona dæmi og í engu þeirra hafa menn fengið að sjá útreikningana. Það eina sem fólk fær að sjá er niðurstaða bankans. Svo hafa menn farið til umboðsmanns skuldara og fengið aðra niðurstöðu þar, en bankinn eða fjármálafyrirtækið segja í einhverjum tilfellum: Við styðjumst ekkert við þá útreikninga, við notum bara okkar eigin útreikninga. Svo segja þeir eiginlega „take it or leave it“ eða við förum í mál eða tökum bílinn þinn eða húsið eða hvað það nú er.

Tilfinning mín eftir að fyrsti dómurinn féll 16. júní er að menn hafi vísvitandi verið að reyna að flækja málið. Ég sá að kerfinu var brugðið. Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn komu með þau tilmæli sem fjármálafyrirtækin fóru eftir og virtust vera sátt við. Tilmælin voru svo lögfest. Umboðsmaður Alþingis kom aðeins inn í umræðuna og spurði Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann hvaða heimild þeir hefðu til þess að veita þessi tilmæli, en það var nú ekki hægt að svara því.

Tilfinning mín fyrir þessu öllu saman hefur verið sú, þannig að ég upplýsi það hér, að kerfið sé vísvitandi að flækja málin til þess að kaupa bankakerfinu tíma til að koma undir sig fótunum og á meðan fer fólk í mál við fjármálafyrirtækin og fjármálafyrirtækin fara í mál við fólkið. Það er náttúrlega gríðarlega atvinnuskapandi fyrir vissar stéttir.