140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

vextir og verðtrygging.

9. mál
[15:51]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í það minnsta væri umræðan í þinginu, þó aðallega meðal þjóðarinnar, um þessi mál ekki eins og raun ber vitni ef okkur tækist að einfalda þetta, það liggur alveg fyrir. Til þess að hjálpa fólki að átta sig á þessu og til að ýta undir umræðuna setti ég upp reiknivél á heimasíðuna mína, gudlaugurthor.is, þar sem þúsundir manna hafa sett inn forsendur sínar og séð hver munurinn væri ef farið væri eftir hefðbundnum reglum og tekið tillit til greiðslu inn á höfuðstól miðað við þá reiknireglu sem viðgengist hefur, og það munar verulegu þar á. Síðan eru önnur mál sem snúa að vöxtunum sem við höfum aðeins rætt. En stóra einstaka málið er að löggjafarþingið stendur ekki mjög föstum fótum eftir þau vinnubrögð sem viðhöfð voru þegar gengið var frá þessu máli. Þetta er risamál. Það tengist gríðarlega mörgum einstaklingum og fyrirtækjum. Það er alveg ljóst, og menn geta skoðað tölur þar um, að það hafði ekki mikil áhrif á stóru fjármálafyrirtækin þegar þessi dómur kom, það varð ekki mikill skellur. Það segir okkur að þeir hafa komist ágætlega frá þessu. Ég veit að hv. þm. Margrét Tryggvadóttir man það þegar við spurðum Fjármálaeftirlitið út í þá hluti. Það er auðvitað ekkert markmið að reyna að skaða fjármálafyrirtækin, alls ekki, þau hafa sinn rétt og eigendur þar, ég held ekki neinu slíku fram. Ég tel hins vegar að við (Forseti hringir.) þurfum að skoða hvort við höfum gengið rétt fram. Það er skoðun mín að við höfum ekki gert það.