140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland.

15. mál
[16:23]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég vil þakka framsögumanni ræðu hans um þetta mál. Ég er einn af meðflutningsmönnum þingsályktunartillögunnar en eins og kom fram hjá hv. þm. Gunnari Braga í ræðu hans náðist ekki að ljúka meðferð hennar á síðasta þingi. Það hefði farið betur að svo hefði verið, ekki síst í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er í löggæslumálum á Íslandi í dag. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka þeim einstaklingum öllum sem starfa að löggæslu hér á landi, þeir vinna starf sitt við mjög breytt skilyrði frá því sem áður var og erfiðar aðstæður sem engum getur blandast hugur um að þarf töluvert sterk bein til að þola. Ég leyfi mér að fullyrða að 300 daga bið eftir kjarasamningi hefði ekki orðið svo löng ef til hefði verið slík áætlun sem hér er gerð tillaga um að verði unnin.

Eins og kom ágætlega fram í máli hv. framsögumanns er þessari vinnu ætlað að skilgreina ýmsa grundvallarþætti varðandi löggæslumál á Íslandi og er ekki vanþörf á. Ég vil sérstaklega vekja athygli á þessu í tengslum við fjárlagagerðina sem nú stendur yfir, þar sem ég hef örlitla reynslu af því hvernig með þessi mál er farið í fjárlögum ríkisins hverju sinni.

Einn tilgangur þingsályktunarinnar er að efla kostnaðarvitund Alþingis um löggæslumál í landinu og tryggja að með þau verði farið með öðrum hætti en gert hefur verið. Markmiðið með þessum tillöguflutningi er m.a. að varpa ljósi á raunverulegan kostnað í því efni. Ljóst er að brugðið hefur við oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að fjárveitingar til einstakra embætta eða málaflokksins í heild hafa ekki dugað, að mati þeirra sem annast þessi mikilvægu störf. Sótt hefur verið harðar á en áður að fjárveitingar verði auknar til málaflokksins. Það eru réttmætar ábendingar. Ég tel fulla ástæðu til að ítreka að við meðferð þessara mála virðist mér sem heildaryfirsýn skorti yfir þær afleiðingar sem ákvarðanir á sviði löggæslumála, þó ekki væri nema í fjárlögum, kunna að hafa á þau störf sem löggæslunni í landinu er ætlað að sinna.

Við sjáum í greinargerð með þingsályktunartillögunni rökstuðning fyrir því að löggæslunni í landinu hafi verið falin ýmis ný verkefni sem hafa komið upp í ljósi breyttra aðstæðna, án þess að þeim verkefnum hafi fylgt fjárveiting úr ríkissjóði. Við getum nefnt bara þær aðgerðir sem lögreglan hefur þurft að grípa til á síðustu vikum og allir þekkja umræðuna um glæpi og aukna hörku í undirheimum sem lögreglan þarf að hafa full tæki og fullan mannafla til að taka á svo unnt sé að standa vörð um hagsmuni borgaranna í landinu.

Það sem ég vil leggja áherslu á er að við höfum að mínu mati gert óþarflega mörg mistök við lagasetningu og gripið til ákveðinna aðgerða sem hafa skert starfsgetu löggæslunnar — ekki alltaf, ekki alls staðar, heldur sem betur fer einstaka sinnum, ef svo mætti komast að orði. Það er ekki algilt að slík mistök séu gerð, heldur kemur þetta upp öðru hverju. Ég vil meina að ástæðan fyrir því sé sú að ekki er nægilega vel vandað til lagasetningarinnar né hvernig fjárveitingar eru settar til þessara embætta. Ég get nefnt sem dæmi að í því stóra og mikla kjördæmi sem Norðausturkjördæmi landsins er, afburða fallegt eins og menn þekkja til en mikið yfirferðar, gríðarlega vel skipað löggæslumönnum, telja yfirmenn löggæslu á sumum stöðum umdæmisins sig mjög vanhaldna til að halda uppi þeim verkefnum sem þeim er lögskylt að standa fyrir. Þetta er ekki gott og langur vegur frá að æskilegt eða ásættanlegt sé að löggæslu sé ekki skipað með viðunandi hætti á heilu landsvæðunum.

Ég vil leggja áherslu á að í þinginu hefur oft á tíðum komið upp umræða um hvernig staðið er að vinnu við frumvörp og lagasetninguna sjálfa í framhaldi. Þar vil ég ítreka að oft á tíðum brennur við að skortur sé á heildarsýn yfir málin. Við getum nefnt dæmi um mistök, ef svo má segja, við meðferð mála hér á þingi þar sem gleymst hefur hreinlega að afgreiða lög sem að flestra mati hafa talist tiltölulega brýn. Við getum nefnt dæmi frá síðasta þingi lög um úttekt séreignarsparnaðar, olíuleitina á Drekasvæðinu, greiðslu atvinnuleysisbóta vegna hlutastarfa o.s.frv. Einnig mætti nefna lagasetningu sem er keyrð í gegnum þingið án mikillar ígrundunar og án þess að gerð sé tilraun til að ná sæmilegri samstöðu eða sameiginlegum skilningi á innihaldi þeirra mála. Ætli það nægi ekki að nefna í því sambandi nýlega lagasetningu um Stjórnarráð Íslands.

Þó ekki væri nema fyrir þessi einstöku mál sem ég hef nefnt hér væri nægt tilefni að mínu mati til að rýna betur í verklagið og verkstjórnina á Alþingi. Það er sárara en tárum taki að minnast á þetta þar sem í handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa er þokkalega góð verklýsing á því hvernig fara á með mál þegar þau eru búin í hendur þingsins. Þá er gerð krafa um að á fyrstu stigum málsins sé mikið samráð og samstarf haft við þá aðila sem vinna við viðkomandi viðfangsefni sem lagafrumvarpinu er ætlað að taka á og einnig að fari sé í pólitíska vinnu og samstarf áður en frumvarpið kemur fram. Mín skoðun er afdráttarlaust sú, og það hef ég oftar en einu sinni sagt úr þessum ræðustóli, að auðvelt hefði verið að komast hjá mörgum mistökum í vinnu og lagasetningu Alþingis ef þeim fyrirmælum sem gefin hafa verið út á blaði og í reglusetningu hefði verið fylgt.

Síðast vil ég nefna að þingsályktunartillagan eins og hún liggur fyrir er líka innlegg í þá vinnu að byggja upp aukið traust í samfélaginu sem ekki er vanþörf á. Í henni er gert ráð fyrir að við þetta verkefni sem hér liggur fyrir og vilji er til af hálfu flutningsmanna að ráðast í, verði unnið í sameiningu allra þeirra aðila sem málaflokknum tengjast. Í mínum huga er grundvallaratriði að leggja þannig upp í þessum málaflokki, því ekki er vanþörf á. Við höfum séð töluvert mikil átök um löggæslumálin í landinu á síðustu vikum. Við höfum heyrt orðræðu, m.a. úr þessum stóli, í ætt við það að ræðumenn hafa verið að snupra lögreglumenn eða löggæsluna í landinu. Það er langur vegur frá að slíkt háttalag sé með nokkrum hætti ásættanlegt. Við eigum þvert á móti að standa saman að því að vinna þetta mál svona.

Ég vildi gjarnan óska þess að vinnunni sem hér er lagt upp með, lyki fyrr en tillagan kallar eftir, því nauðsynlegt er að taka til endurskoðunar þær tillögur á sviði löggæslumála sem eru í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2012. Þar eru inni atriði sem á engan hátt er ásættanlegt að gangi eftir óbreytt.