140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland.

15. mál
[16:33]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er með mikilli gleði sem ég er meðflutningsmaður á þessari þingsályktunartillögu á þessu þingi sem og síðasta. Ég þreytist ekki við að benda á mikilvægi lögreglunnar í samfélagi okkar, en lögreglan ásamt dómstólunum er ein af grunnstoðum samfélagsins auk fangelsanna sem taka við þeirri afurð, endaafurð, sem lagasetning Alþingis hefur í för með sér. Ef auka á virðingu í samfélaginu er það svo að lögreglan fylgir eftir lagasetningu á Alþingi ef einstaklingar verða brotlegir gagnvart lögunum og þess vegna verður að tryggja rekstur lögreglunnar svo að réttarríkið geti þrifist hér og staðið af sér þau áföll sem við höfum lent í.

Þetta mál hefur vakið mikla athygli í samfélaginu og er með ólíkindum að það skuli ekki vera löngu fram komið að lögreglan fái nákvæma skilgreiningu á því hver hennar grundvallarstörf eiga að vera og hvers vegna ekki hafi verið gerð löggæsluáætlun fyrir Ísland. Miðað við það sem þingmenn hafa rætt hér í dag í sérstökum umræðum um löggæsluna undir forustu hv. þm. Birgis Ármannssonar hefur þessi þingsályktunartillaga fengið miklar og jákvæðar móttökur og vonast ég til þess að hún verði afgreidd löngu fyrir áramót því að þá getur sú vinna farið af sem þingsályktunartillagan gengur út á.

Hv. fyrsti flutningsmaður, Gunnar Bragi Sveinsson, fór vel yfir þingsályktunartillöguna efnislega og er óþarft að endurtaka það en ég minni á að lögreglan er einn af hornsteinum okkar.

Ég var að koma af ráðstefnu sem snýr að Schengen-samningnum sem innanríkisráðuneytið stóð fyrir. Það var mjög athyglisverð ráðstefna sérstaklega í ljósi þess að þau mál heyra að einhverju leyti eða að meginstefnu undir hlutverk lögreglunnar. Þar er oft pottur brotinn og þeirri spurningu velt upp hvort við eigum að vera innan eða utan Schengen. Þarna voru aðilar sem tjáðu sig um það og var þessum málum velt upp því að íslenska lögreglan er að sjálfsögðu í sambandi og samstarfi við sambærilega aðila í Evrópusambandinu. Mjög athyglisvert.

Herra forseti. Það sem mér finnst mest um vert í þingsályktunartillögu þessari er hvað sú nefnd sem lagt er til að verði skipuð hafi afgerandi hlutverk og er það tölusett í fjórum töluliðum þannig að það fer ekkert á milli mála hvað á að skilgreina, sem er mjög brýnt því að oft ef orðalag þingsályktunartillagna er loðið er hægt að skauta fram hjá akkúrat mikilvægi þess sem málin eiga að snúast um.

Nefndin á að sjá til þess að rannsakað verði og skoðað ofan í kjölinn í fyrsta lagi hvernig skilgreina eigi öryggisstig á Íslandi því að lögreglan hefur lögbundið hlutverk. Mig minnir að einhvern tímann hafi komið fram fyrir allsherjarnefnd að yfir 100 lagabálkar nái til lögreglunnar. Þeir þurfa að sinna ýmsum hlutverkum samkvæmt íslenskum lögum en þau hafa aldrei verið skilgreind, eins og þetta öryggisstig. Á lögreglan t.d. að ná köttum ofan úr tré? Á sama tíma eru aðrir lögreglumenn kannski að fást við innbrot eða erfið bílslys, sem dæmi. Þetta skiptir miklu máli.

Í öðru lagi eins og ég fór yfir áðan er þjónustustigið. Hverju á lögreglan að sinna og hvernig verður þeim málum háttað? Er hægt að fela einhverjum öðrum þau verkefni sem lögreglan á nú að þjónusta samkvæmt lögum eða ekki? Er hægt að draga einhver mörk þar þannig að lögreglan eigi að sjá um þjónustustig á alvarlegum málum og millialvarlegum málum og einhverjum öðrum verði falin önnur mál? Ég minni á hugmynd frá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur fyrir þingsetningu um að björgunarsveitir ættu að standa hér heiðursvörð. Ég vil ekki ganga svo langt að leggja til að björgunarsveitirnar eigi að taka við því því að það er ákveðin hefð fyrir því að lögreglan sinni því. Mér fyndist t.d. í lagi að björgunarsveitir hefðu það hlutverk að leysa lögregluna undan því að ná köttum ofan úr trjám. Þarna er komin afgerandi tillaga um hvernig þjónustustigið eigi að vera.

Í þriðja lagi er ekki síður mikilvægt að skilgreina mannaflaþörf lögreglunnar. Það er alveg nauðsynlegt. Þá vonast ég til að þessi nefnd komi til með að líta á landið í heild sinni. Eins og við vitum hefur verið mikill niðurskurður hjá lögreglunni og hefur það bitnað sérstaklega á landsbyggðinni. Oft og tíðum fást lögreglumenn úti á landi við svo stór svæði að það er ógjörningur að komast á milli staða hendi alvarlegir atburðir hvor í sínum enda umdæmisins þannig að leggja þarf mat á það samkvæmt þessari þingsályktunartillögu.

Svo í fjórða lagi er spurning um að skilgreina þörf lögreglunnar fyrir fjármagn.

Nú hefur flötum niðurskurði verið beitt sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir án þess kannski að leggja mat á það hvar þurfi að skera niður og hverju beri að hlífa. Ég hef ætíð talað fyrir því að lögreglunni eigi að hlífa eins og dómstólunum, en ríkisstjórnin hefur farið inn í allar stofnanir og komið með tillögur um flatan niðurskurð. Auðvitað getur lögreglan hagrætt í rekstri eins og allir aðrir en þegar skyndilega kemur flatur niðurskurður eru oft gerð mistök og kannski ekki skorið niður á réttum stöðum.

Herra forseti. Ég fagna sérstaklega þessari þingsályktunartillögu eins og ég sagði í upphafi. Ég vonast til þess að þingmenn taki henni með opnum huga. Ég held að við getum öll verið sammála um að okkur ber að standa vörð um starfsemi lögreglunnar til að hún geti sinnt því hlutverki að halda uppi lögum og reglu í þjóðfélaginu, ekki veitir af í þeirri sundrungarstefnu sem ríkisstjórnin fer fyrir í að brjóta niður grunnstoðir samfélagsins. Við verðum að hlífa lögreglunni því að séu hennar stoðir veiktar til muna er ekki von til þess að við náum okkur upp úr þeirri dýfu sem við erum í.

Flutningsmenn að þessari tillögu eru frá Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum. Ég óska eftir því að vinstri grænir og samfylkingarmenn komi til með að veita þessu máli brautargengi, svæfi málið ekki í nefnd eins og gerðist á síðasta þingi heldur taki höndum saman með okkur framsóknarmönnum og sjálfstæðismönnum að gera þessa þarfagreiningu að veruleika þannig að hér verði hægt að byggja upp löggæslu til framtíðar á faglegum nótum.