140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland.

15. mál
[16:50]
Horfa

Flm. (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið til máls við þessa umræðu fyrir þeirra ræður. Það er ljóst að áhugi á öryggismálum á Íslandi, lögreglunni og löggæslumálum, er mikill meðal þingmanna sem er mjög gott. Það ætti að þýða að umræða um þetta mál og önnur því tengd ætti að vera málefnaleg og góð. Sú tillaga sem hér liggur frammi og er til umræðu er til þess fallin að svara töluverðu af þeim spurningum sem settar hafa verið fram, að varpa ljósi á mannaflaþörf lögreglunnar og hversu mikið fjármagn þarf til að sinna þeim verkefnum sem lögreglu eru falin. Ég efast ekki um að oft hafi lögreglumönnum og þeim er starfa við öryggismál á Íslandi þótt kjör sín rýr og umhverfið erfitt. Ég held þó að enginn geti neitað því að síðastliðin eitt til þrjú ár hefur það samfélag sem við lifum í breyst gríðarlega mikið. Þar af leiðandi er umhverfi lögreglunnar orðið töluvert öðruvísi, þ.e. starfsumhverfi. Nýjar hættur, það má orða það þannig, ný verkefni að fást við, erfiðari, allt þetta þurfum við að taka inn í myndina, hvort sem við ræðum kjaramál eða almenna sýn á öryggisstig eða þjónustustig o.s.frv.

Ég vona því, herra forseti, að tillagan fái efnislega og góða meðferð í nefndinni og verði afgreidd fljótt og örugglega þegar búið er að fara vel yfir hana, þ.e. eftir að sérfræðingar og aðrir hafa verið kallaðir til og gefið álit á þessari tillögu. Ég vona að sú vinna fari sem fyrst af stað. Ég þakka að öðru leyti fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram.