140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[16:52]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Það er með sérstakri ánægju sem ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að ríkisstjórn Íslands verði falið að viðurkenna sjálfstæði og fullveldi Palestínu innan þeirra landamæra sem ríktu frá því fyrir sex daga stríðið 1967. Ég held að það sé mjög þarft að við alþingismenn tökum þetta mál hér til umræðu og vegum þau rök sem mæla með þessu og líka þau sem hugsanlega kunna að vera hér tínd til gegn málinu.

Ég vil þó segja það að eins og málin hafa þróast sé ég engin efnisleg rök sem mæla gegn samþykkt þessarar tillögu. Við Íslendingar höfum í 64 ár, eða allt frá árinu 1947, verið fylgjandi hinni svokölluðu tveggja ríkja lausn og hún felst í því að Palestína og Ísrael, tvö ríki, búi hlið við hlið í friðsamlegri sambúð. Ísland hefur ekki bara stutt þessa stefnu, herra forseti, heldur hefur Ísland átt á sínum tíma meiri frumburðarrétt að því að þessi stefna var samþykkt hjá Sameinuðu þjóðunum en flestar aðrar þjóðir. Við skulum ekki gleyma því, þó að mjög margir hafi gleymt því í dag, að það var Íslendingur, íslenskur sendiherra, Thor Thors, annálaður fyrir vandvirkni í störfum, sem bæði flutti tillöguna á allsherjarþinginu 1947 og ruddi málinu braut í gegnum þingið eftir að það hafði verið unnið af sérstökum hópi og þeir sem voru valdir í forustu þess hóps höfðu stokkið frá borði.

Allar götur síðan má segja að Íslendingar hafi með einum eða öðrum hætti, og þó miklu fastast síðasta áratug, stutt þessa stefnu. Ef við horfum til sögunnar er þess vegna hægt að segja að í sögulegu tilliti eigum við Palestínumönnum skuld að gjalda og hún hefur verið ógoldin áratugum saman og nú, þegar Palestínumenn hafa óskað eftir því að Ísland, sem eitt af ríkjum Vestur-Evrópu, stígi fram og styðji þá sé ég engin efnisleg rök sem mæla gegn því og ég held að siðferðilega sé það ekki hægt af hálfu Íslendinga.

Menn velta því fyrir sér hvort tíminn sé réttur. Ég hef heyrt alþingismenn í fjölmiðlum velta því upp hvort rétt sé að gera þetta nákvæmlega núna, hvort ekki sé rétt að bíða. Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að tíminn sé einmitt réttur núna og fyrir því eru mörg og sterk rök. Ein rökin snúa að því Alþingi sem situr núna. Mörgum sinnum á þessu ári hefur arabíska vorið, og þeir fersku sviptivindar frelsis og lýðræðis sem fóru um Norður-Afríku og höfðu áhrif um allan heim, komið til umræðu hér á Alþingi. Í hvert einasta skipti hafa allir þeir alþingismenn sem hafa tekið til máls, og ég held að þeir séu úr öllum flokkum, lýst eindregnum stuðningi við þá þróun sem þar er að gerast og við aukin réttindi íbúanna. Og í hvert einasta skipti hefur Alþingi líka hvatt til þess að íslenska ríkisstjórnin geri allt sem hún getur til að mótmæla ofríki harðstjóra sem þar hafa áratugum saman kúgað sína alþýðu, sitt fólk.

Ég tel þess vegna að það væri tvískinnungur af verstu tegund ef alþingismenn sem hafa stutt réttindabaráttu íbúa Norður-Afríku skirrtust við að ljá Palestínumönnum sama stuðning í sinni eigin réttindabaráttu. Þar eru grundvallarmannréttindi brotin dag hvern, ár eftir ár, áratugum saman. Palestínumenn búa við hernám, við stöðugt landrán og eru jafnvel sviptir dýrmætum vatnslindum sínum og aðgangi að sínu eigin landi. Ég spyr, herra forseti. Hvernig er hægt að styðja íbúa Líbíu, Túnis, Egyptalands, Sýrlands og Jemen án þess að styðja líka sömu baráttu Palestínumanna? Það er ekki hægt, tel ég, slíkt væri í senn órökrétt, þverstæðukennt og yrði Alþingi til minnkunar.

Önnur rök snúa líka að okkar eigin utanríkisstefnu. Við höfum, Íslendingar, átt samleið með öðrum þjóðum á Norðurlöndum, öðrum þjóðum í Vestur-Evrópu í því í reynd á síðustu árum að halda aftur af Palestínumönnum. Við höfum sagt: Farið ykkur hægt og gefið ykkur heldur tíma til að undirbúa þessar óskir ykkar um viðurkenningu með því að byggja þær stofnanir og þá innviði sem þarf til þess að geta rekið ríki. Í samræmi við það sagði ég hér í fyrirspurn til eins hv. þingmanna Hreyfingarinnar á síðasta ári að ég mundi ekki gefa neinar yfirlýsingar fyrr en því ferli, sem vinaþjóð okkar Norðmenn hafa nú staðið í forustu fyrir, yrði lokið. Því ferli er lokið, því lauk í september. En allar úttektir, hvort sem þær eru á vegum stofnana Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða annarra alþjóðlegra stofnana, eru á einn veg: Palestína hefur nú lokið við að byggja upp þá innviði sem þarf til að reka fullvalda ríki.

Við Íslendingar erum í hópi þeirra þjóða sem gáfu þeim fyrirheit um eigið ríki ef það tækist. Og það er ekki sísta röksemdin fyrir því að þessi tillaga um viðurkenningu á fullveldi Palestínu er sett fram núna. Palestínumenn stóðust það próf sem hið alþjóðlega samfélag setti fyrir þá og Ísland stendur við sín orð.

Í fjórða lagi rifja ég það upp að þessi tillaga er í reynd ekkert annað en rökrétt framhald af þeirri stefnu sem Alþingi hefur haft allar götur síðan það gerði samþykkt sína 1989 og síðan aftur 2002, og það voru tvær mismunandi ríkisstjórnir sem sátu á þessum tíma. Í báðum þessum ályktunum lagði Alþingi áherslu á að það bæri að viðurkenna sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og um leið undirstrikaði það tilverurétt og öryggi Ísraelsríkis innan alþjóðlegra, viðurkenndra landamæra. Þessi tillaga sem við erum nú að ræða hér á hinu háa Alþingi er í tæru samræmi við hina opinberu afstöðu sem Alþingi hefur allar götur síðan haft.

Í fimmta lagi, og það skiptir miklu máli fyrir þessa umræðu, hafa bæði frelsishreyfing Palestínumanna, PLO, og heimastjórnin PNA, viðurkennt Ísraelsríki. Um leið hafa þessi stjórnvöld lýst því yfir að þau hafa gefið upp á bátinn vopnaða baráttu og þau hafa lýst eindregnum vilja til friðsamlegrar sambúðar við Ísrael. Það sem meira er, þau hafa fallist á landamærin frá því fyrir 1967 sem framtíðarlandamæri þó að það þýði að Palestína hefur yfir að ráða helmingi minna landi en það svæði var sem við studdum 1947.

Þá er líka rétt að rifja það upp að enn er í fullu gildi yfirlýsing Arababandalagsins frá 2002 um að arabaríkin séu reiðubúin til þess að stofna til eðlilegra og friðsamlegra samskipta við Ísrael svo fremi Ísrael fallist á að draga sína heri til baka miðað við landamærin frá 1967. Við þetta er svo því að bæta að við Íslendingar höfum alltaf í öllum stuðningsyfirlýsingum okkar látið fylgja skýrar kröfur af okkar hálfu um að Palestína framfylgi þeim gildum og áherslum sem koma fram í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og sömuleiðis að Palestína uppfylli allar sínar skyldur að þjóðarétti.

Nú má segja, herra forseti, að það sé í gadda slegið. Þegar Abbas forseti lagði fram umsókn Palestínu gagnvart Sameinuðu þjóðunum 23. september sl. fylgdi undirrituð yfirlýsing af hans hálfu fyrir hönd Palestínu um að Palestína sækist eftir friði og viðurkenni að fullu þær skyldur sem fylgja aðild að Sameinuðu þjóðunum. Þess vegna er þessi tillaga líka í fullu samræmi við þá afstöðu okkar að Ísrael eigi rétt á að lifa innan hinna upphaflegu landamæra í fullum friði.

Virðulegi forseti. Ég tel líka að það sé mjög erfitt að tefla rökum gegn því að láta Palestínu njóta þess sama og við létum á sínum tíma Ísrael njóta. Ef menn hafa rifjað upp söguna, eins og ég er viss um að sumir alþingismenn hafa gert, var hún á þann veg að Ísrael tók sinn málstað til Sameinuðu þjóðanna, fékk fulla aðild að þeim samtökum og notaði hana sem röksemd fyrir því að fá viðurkenningu alþjóðasamfélagsins á fullveldi sínu. Og við getum ekki annað en stutt Palestínu í ferðalagi eftir nákvæmlega sama pólitíska sjókortinu og við studdum Ísrael á sínu.

Ég hef heyrt menn beita þeim rökum að vegna þess að um sé að ræða landamæradeilur sé ekki tímabært að veita viðurkenninguna núna. Það eru engin rök, alls engin. Á sínum tíma færðu ísraelsk stjórnvöld mjög sterk rök fyrir því þegar þau lentu í sömu mótrökum að niðurstaða í landamæradeilu þeirra við Palestínumenn ætti hvorki að vera skilyrði viðurkenningar annarra þjóða á fullveldi þeirra né fyrir fullri aðild Ísraels að Sameinuðu þjóðunum. Sömu rök og við tókum þá gild fyrir Ísrael, hljótum við að taka gild fyrir Palestínu í dag.

Herra forseti. Í kjölfar skelfilegra loftárása Ísraelsmanna á Gaza í ársbyrjun 2009 fól utanríkismálanefnd mér sérstakt verkefni sem utanríkisráðherra Íslands. Mér var falið að kanna hljómgrunn meðal helstu samstarfsríkja okkar og arabaþjóðanna gagnvart hugmyndum um að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael, skera á menningartengsl við Ísrael, setja á viðskiptabann. Ég gerði þetta og hef gert utanríkismálanefnd grein fyrir því og það er rétt að ég segi það líka við Alþingi sjálft. Ég fór víðs vegar um heiminn, ég talaði við fjölmarga utanríkisráðherra á fundum norrænna kollega, Eystrasaltsríkjanna, í EFTA, í EES-ráðinu og sömuleiðis í arabalöndunum, ég fór meðal annars til Egyptalands, og niðurstaðan var öll á sömu lund: Ekki slíta stjórnmálasambandi við Ísrael, ekki setja á þá menningarlegt bann, ekki setja á þá viðskiptaþvinganir. Samtöl gefa möguleika á þrýstingi og fortölum. Tengsl væru besta leiðin til að ná augum og eyrum.

En ég komst líka að þeirri niðurstöðu að um leið og við höldum tengslum okkar við Ísrael, þrátt fyrir brot þeirra gegn Palestínu, væri kominn tími til þess að við stigum skrefið til fulls og viðurkenndum fullveldi Palestínu. Eins og menn muna heimsótti ég líka að fyrirmælum utanríkismálanefndar Palestínu, ég fór til Gaza, ég fór á Vesturbakkann og ég fór til Austur-Jerúsalem og ég sá að engu var logið um stöðuna þar. Ástandið í Gaza var þó ívið verra en ég átti von á. Ég talaði við fólkið í Gaza, ég talaði við sjómennina sem ekki geta lengur róið til fiskjar út af aðgerðum byssubáta Ísraelsmanna. Ég talaði við unga fólkið sem hefur enga atvinnu. Ég talaði við fjölskyldurnar sem ekki eiga þak yfir höfuðið.

Ég fór líka á Vesturbakkann og ég horfði á þá gnapandi, gríðarmiklu múra sem segja má að risti í sundur landsvæði Palestínu með ólögmætum hætti og sá líka hundruð ef ekki þúsundir Palestínumanna sem stóðu í hópum að bíða eftir því að komast í gegnum hlið til að komast á sína eigin akra. Frá okkar bæjardyrum, sem erum þjóð sem alltaf hefur verið í framvarðarsveit þeirra sem hafa barist fyrir mannréttindum, er þetta rangt, þetta á ekki að líðast. Íslendingar geta ekki varið það að sitja aðgerðalausir hjá og láta eins og ekkert sé. Það er einfaldlega staðreynd að Ísraelar brjóta mannréttindi á ótrúlegum fjölda Palestínumanna hvern einasta dag og allt það sem við getum gert til að efla mannréttindi þeirra og styrkja baráttu þeirra verðum við að gera. Annað er tvískinnungur sem framtíðin og sagan munu ekki fyrirgefa okkur.

Við Íslendingar höfum haft það sem rauðan þráð í okkar utanríkisstefnu um alllangt skeið að berjast fyrir ófrávíkjanlegum rétti smáþjóða til að kjósa sér örlög, til að velja sér sína eigin framtíð og til að vera frjálsar og óháðar. Við styðjum aðrar smáþjóðir þegar þær hafa þurft á því að halda. Það var þess vegna sem við brutum ísinn fyrir Eystrasaltsþjóðirnar og viðurkenndum þær fyrstir þjóða og það var líka þess vegna sem Íslendingar studdu Svartfellinga fyrstir þjóða og þegar enginn hafði þorað að viðurkenna fullveldi Króatíu eftir að sex mánuðir voru liðnir frá sjálfstæðisyfirlýsingu þeirra, braut Ísland ísinn og viðurkenndi Króata fyrst þjóða.

Herra forseti. Ég held að góðar líkur eigi að vera á því að við hér á hinu háa Alþingi náum þverpólitískri samstöðu um þessa tillögu.

Ég las eina af merkustu greinum sem ég hef lengi lesið núna um helgina. Mig langar, með leyfi forseta, að lesa úr henni eina málsgrein:

„Eru einhver sérstök efnisleg rök fyrir því að viðurkenna ekki sjálfstæði Palestínu? Enginn dregur í efa að Palestínuarabar eru sérstök þjóð sem ræður yfir tilteknu landsvæði þótt mjög sé að þeim þrengt. Hvers vegna ætti ekki að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki? Af því að Ísraelar eru móti því? Eru það nægileg rök? Nei. Það er ekki hægt að færa nokkur efnisleg rök fyrir því að Ísland viðurkenni ekki Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki.“

Herra forseti. Undir þessi orð Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, sem birt voru um síðustu helgi tek ég heils hugar. Ég hvet Alþingi til að taka undir þau líka með því að samþykkja þessa tillögu. Ég legg til, herra forseti, að að slepptri þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.