140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[17:08]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir hans framsögu sem hann flytur hér af bæði mikilli sannfæringu og greinilega innlifun eftir að hafa komið á þau átakasvæði sem hér eiga í hlut. Ég verð að segja að mér finnst dálítið halla á málstað Ísraela í málflutningi hans en því hefur ávallt verið haldið til haga hér á Alþingi hversu mikilvægt það er að taka tillit til sjónarmiða þeirra aðila sem þarna hafa verið að deila.

Mig langar til að bera það undir hæstv. utanríkisráðherra hvaða sýn hann hefur á afstöðu þeirra herskáu öfgaafla sem sannarlega eru inni á hinu palestínska svæði, hvernig þau muni haga sér í framhaldi af mögulegri sjálfstæðisyfirlýsingu um fullveldi Palestínu sem sjálfstæðs ríkis. Hvaða líkur eru á því að þau öfl verði friðsamari en áður og eru einhverjar líkur á því að núverandi ráðamenn muni geta haft þá stjórn á landinu að þeir geti tryggt góðan frið við þessi öfl?

Það er býsna stórt upp í sig tekið þegar sagt er að það séu beinlínis engin rök fyrir því að gera annað en það sem ráðherrann leggur hér til vegna þess að fjölmörg þjóðríki innan Evrópu eru mjög að velta þessu fyrir sér. Og ég vil taka það fram strax hér að mér finnst þetta vera mjög áleitin spurning. Ég hef haft fyrirvara og ég tel að við þurfum að fara mjög vandlega ofan í saumana á þessu máli því að sannarlega eru rök beggja megin í málinu (Forseti hringir.) þó að menn kunni að hallast á annað sjónarmiðið.