140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[17:10]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka formanni Sjálfstæðisflokksins fyrir málefnalega spurningu. Það er fullkomlega lögmætt að bera upp þau viðhorf sem hann gerði hér.

Fyrst vil ég taka það algjörlega skýrt fram, eins og ég gerði líka í ræðu minni, að það er enginn vafi á því í mínum huga að Íslendingar verja tilvistarrétt Ísraela og rétt þeirra til að lifa í öryggi. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að nákvæmlega núna á þessu sögulega augnabliki sé besta tækifærið fyrir Ísrael til að treysta stöðu sína, áður en sú þróun sem er hafin í arabaríkjunum gengur til fullnustu. Ég held að núna væri þeirra framtíðarhorfum best komið fyrir ef þeir næðu þessari sátt, tækju þessu boði um friðsamlega sambúð. Svo gæti ég í löngu máli útskýrt fyrir honum af hverju þeir gera það ekki, en það á sér fyrst og fremst rætur í innanríkispólitískum efnum innan Ísraels.

Hv. þingmaður spyr mig þeirrar eðlilegu spurningar hvort ég telji að ýmis róstusöm öfl — og hann á væntanlega við Hamas þar — muni lúta boðvaldi og aga nýrrar ríkisstjórnar. Ég get ekki fullyrt það. En ég vil þó samt segja eftirfarandi: Það ferli sem nú er komið að lokum af hálfu heimastjórnarinnar hófst í vor, eða þessi kafli, þegar Hamas og heimastjórnin undirrituðu sáttmála um að standa saman að myndun nýrrar ríkisstjórnar sem mundi sjá um kosningar í landinu. Það lá algjörlega skýrt fyrir og liggur fyrir opinberlega að sú ríkisstjórn mundi lýsa því yfir að hún gæfi öll vopnuð átök upp á bátinn og vildi friðsamlega sambúð. Þetta er líka afstaða hinnar útlægu forustu Hamas sem hefur aðsetur í Damaskus, liggur alveg skýrt fyrir.

Það liggur líka fyrir að nú í haust munu menn, þessir tveir armar, hefja viðræður sem vonandi leiða til þess að við þurfum ekki að óttast það sem hv. þingmaður er í reynd að draga upp. Ekki er hægt að fullyrða það, en ég fullyrði að þetta er besti kosturinn fyrir Ísrael.