140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[17:14]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ef þau ríki sem mestu skipta gagnvart þessu ferli, sem eru Bandaríkin annars vegar, Rússland og síðan Evrópusambandið, mundu öll leggjast á eitt og þrýsta Ísraelsmönnum inn í friðarviðræður og þrýsta þeim til þess að hætta landráni sínu á hernumdu svæðunum væri hægt að fara í friðarviðræður. Það er ófrávíkjanlegt skilyrði, sem ég hef fullan skilning á, af hálfu Palestínumanna að á meðan samningaviðræður standa yfir láti Ísraelsmenn af því að taka land, vatnsból og ekrur. Þá held ég að væri hægur leikur að leiða þessa deilu í jörð. Af hverju? Vegna þess að menn eru meira og minna orðnir sammála um grundvöllinn sem er landamærin fyrir 1968.

Ég vísa þá til sögulegrar ræðu sem Obama Bandaríkjaforseti hélt í maí. Ég vísa til nýrrar yfirlýsingar kvartettsins, þeirra hinna sömu og hv. þingmaður vísaði til. Ég held að það sé engin alþjóðleg stofnun eða samtök sem eru annarrar skoðunar en að þetta eigi að vera grundvöllurinn. Ég vísa til þess að samkvæmt skoðanakönnunum, sem ítrekað hafa verið gerðar af bandarískum háskóla, ríkir yfirgnæfandi stuðningur meðal Palestínumanna gagnvart þessari leið, þ.e. að viðurkenna fullveldið og að Palestína verði sjálfstætt ríki.

Mig langar að hlusta á hv. þingmann hér á eftir í ræðu sinni skýra það út fyrir mér, ef hann er þá þeirrar skoðunar, að viðurkenning okkar á Palestínu sem fullvalda ríki gæti með einhverjum hætti spillt friðarhorfum. Ég hef ekki nægilega mikla greindardýpt til að skilja þau rök, ef það er það sem hv. þingmaður á við.