140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[17:19]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst vil ég biðja hv. þingmann um að velta eftirfarandi fyrir sér: Getur viðurkenning á fullveldi Palestínu með einhverjum hætti spillt friðarhorfum á svæðinu? Ég held að það sé lykilspurningin. Ég held ekki að svo sé.

Um hitt er það að segja að þegar ég fór í heimsókn mína að undirlagi og fyrirmælum utanríkismálanefndar til Palestínu og fór m.a. til Gaza, talaði þar á mörgum fundum við fjölmarga menn, við fjölmarga fjölmiðla, þá sagði ég alls staðar þar sem ég kom: Það er erfitt að styðja ykkur á meðan þið eruð í innbyrðis átökum. Það var boðskapur minn. En það þýðir ekki að ég telji að ekki sé tímabært að stíga þetta skref. Þegar hv. þingmaður talar eins og þarna ríki styrjaldarátök er það nú ekki svo. Hamas hefur verið með einhliða vopnahlé annað veifið, m.a. núna, og þau átök sem þar hafa stundum brotist út eru miklu minni en þau voru áður.

Svo ætla ég að rifja upp fyrir hv. þingmanni, af því að það var nýlega í fréttum, að átök voru á landamærum Egyptalands og Ísraels ekki alls fyrir löngu og eins og hv. þingmaður man þá drápu Ísraelar allnokkra menn.

Ég er þeirrar skoðunar, og það er meginkjarninn í máli mínu, að ef allar þjóðir færu þessa leið sem við erum að gera mundi það auka þrýstinginn á Ísrael og líka Bandaríkin þannig að hægur vandi væri að leiða þessa deilu til lykta. En því er ekki að heilsa. Ég er síður en svo að halda því fram að með þessu séum við að brjóta einhvern ís og straumur þjóða muni koma á eftir okkur, það er ekki svo. En við höfum líka skyldur gagnvart alþjóðasamfélaginu og okkur sjálfum og við erum að gera það sem við teljum rétt. Í þessu tilviki tel ég að þetta sé fullkomlega rétt. Við erum að leggja okkar litla lóð á vogarskálarnar.