140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[17:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég velti fyrir mér er að í þingsályktunartillögunni stendur að þess sé krafist að Hamas láti af ofbeldisverkum. Væntanlega er þá átt við þann hernað eða hvað við köllum það, skærur eða skæruliðaárásir, sem samtökin nota gagnvart Ísraelum. Það sem ég er að reyna að segja er að munurinn á árásum Ísraela og Hamas er kannski ekki svo mikill í grunninn. Þegar upp er staðið er verið að drepa saklausa borgara. Þar af leiðandi, herra forseti, er ég ekki á nokkurn hátt að réttlæta árásir Ísraela á Palestínumenn og mun aldrei gera, það er ekki réttlætanlegt. Deiluna á vitanlega að leiða til lykta með samningaviðræðum.

Ég tek undir með hæstv. ráðherra að það að ályktunin verði samþykkt mun ekki hafa nein úrslitaáhrif á að koma á friði þarna austur frá, það er ekki þannig. Mér finnst við samt þurfa að velta fyrir okkur hvort Íslendingar ætli að viðurkenna sjálfstæði þessa lands á meðan þar er við stjórnvölinn hópur sem er víða skilgreindur sem hryðjuverkasamtök. Hvaða skilaboð eru það?

Ég er hlynntur því að Palestína verði sjálfstætt ríki, svo því sé haldið til haga. Ég er hlynntur því og það skal verða þannig. En ég er jafnmikið á móti sprengjum Hamas og sprengjum Ísraela.