140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[17:23]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Forseti. Stefnt er að því að ný bráðabirgðastjórn sem bæði Hamas og Fatah styðja, sjái um kosningar í gervallri Palestínu og til verði ný ríkisstjórn. Hún tekur þá væntanlega líka þau formlegu völd sem Hamas hefur núna.

Þá er líka að greina frá þeirri flóknu stöðu sem þarna er. Sú forusta sem fyrir Hamas er á Gaza hefur meira að segja stundum reynt að skikka þá til sem samtökin ráða ekki algjörlega yfir á þessu sérkennilega svæði þar sem friður og öryggi er ekki daglegt brauð. Hún hefur reynt að koma í veg fyrir að menn brjóti yfirlýst vopnahlé með því að senda skotflaugar á Ísrael.

Staðan er enn flóknari þegar menn síðan hugsa til þess að það eru erlend stórveldi utan landamæra Gaza sem hafa hag af því að hafa sem mest öngþveiti á þessu svæði, og sem mest átök milli Ísraels- og Palestínumanna. Þau geta því miður stýrt litlum hópum sem kenndir eru við Hamas. Að því er ég best veit eru það þeir hópar sem lúta ekki agavaldi Hamas sem hafa stundum, þegar vopnahléi hefur verið lýst yfir eins og nýlega, staðið fyrir þessum árásum, beinlínis til þess að spilla friðarlíkum. Það eru mörg dæmi um að þegar erlend fyrirmenni koma þarna til heimsóknar séu einmitt þessir hópar látnir til sín taka.

Mér þykir hins vegar vænt um það sem hv. þingmaður lýsti yfir, að hann vildi sjálfstæða Palestínu. Þá hvet ég hann til að velta því fyrir sér hvort það að viðurkenna Palestínu með þeim hætti sem við leggjum til í tillögunni geti spillt friðarhorfum. Ég held nefnilega að svo sé ekki. Hv. þingmaður hefur öll föng á því að kalla til sín miklu meiri sérfræðinga en mig til þess að grafast fyrir um það í utanríkismálanefnd. (Forseti hringir.)

Svo minni ég enn og aftur á glæsilega fortíð Framsóknarflokksins í þessu máli og reyndar fleirum.