140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[17:25]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka aftur hæstv. ráðherra fyrir framsögu hans og hvernig hann hefur fylgt málflutningi sínum eftir í andsvörum og skýrt sjónarmið sín. Ég vil í upphafi máls míns taka fram að ég tel rétt að við í utanríkismálanefnd fáum góðan tíma til að fara yfir þessa tillögu og skoða málið frá öllum hliðum.

Í máli hæstv. ráðherra kom fram að það væri ekkert, bara ekki neitt, sem mælti gegn því að þingið mundi fallast á tillöguna. Ég tel að málið sé ekki alveg svo einfalt en mér finnst mjög þess virði að skoða það vegna þess að sannarlega skiptir það þjóðir máli að fá viðurkenningu fyrir fullveldi sínu.

Við eigum að líta í kringum okkur, ekki til að elta aðra eða til að láta segja okkur hvað við viljum sjálf, en við eigum að spyrja okkur hvað aðrar þjóðir sem við gjarnan horfum til eru að gera í þessu efni. Ríkisstjórnin er með aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Sá sem fer fyrir utanríkismálum í Evrópusambandinu er einn af þeim sem talar í nafni kvartettsins svonefnda, ekki satt? Kvartettinn er ekki alveg á þessari línu. Hann er hins vegar að draga upp eins konar kort fyrir næsta ár um hvernig hægt sé að vinna að þessu markmiði með því að halda friðarviðræðunum áfram.

Sama gildir um Norðmenn, samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum haft í nefndinni. Þeir hafa einnig verið mjög fylgjandi því að styðja við friðarferlið, þeir hafa lagt mjög mikið af mörkum og hafa byggt upp getu innan utanríkisþjónustu sinnar til að fylgja þeim áhuga sínum eftir. Þeir hafa talað fyrir því að þessu markmiði væri hægt að ná þegar tiltekin skilgreind viðmið væru uppfyllt, til dæmis um að endanleg niðurstaða væri komin í samningaviðræðurnar, að það væri ljóst að ríkið mundi fylgja áætlunum Sameinuðu þjóðanna eða þær væru grundvöllur stofnunar ríkisins, og að Palestínumenn væru tilbúnir til að takast á við þau verkefni og skyldur sem fylgja því að vera fullvalda, sjálfstætt ríki, t.d. hvort innviðirnir væru einfaldlega til staðar. Það væri t.d. skilyrði að fyrir lægi yfirlýsing þeirra um að virða stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hæstv. ráðherra kom inn á það áðan að því hefði þegar verið lýst yfir. Eins hafa Norðmenn fjallað um mikilvægi þess að leiðtogar Palestínumanna lýsi því yfir að þeir muni standa vörð um grunngildi lýðræðis og mannréttinda á sama hátt og leiðtogar Ísraels gerðu við stofnun Ísraelsríkis. Þarna er búið að tína til fimm mikilvæg atriði sem menn gætu horft til sem viðmið eða skilyrði fyrir því að taka þá ákvörðun sem hæstv. ráðherra segir að sé augljóst að við eigum að taka.

Mér finnst jafnframt hafa borið á því í máli hæstv. ráðherra að þeir sem hefðu minnstu efasemdir um að tími væri kominn til að lýsa yfir sjálfstæði Palestínu hlytu því sem næst að vera á móti sjálfstæðu palestínsku ríki, en það er auðvitað alls ekki svo. Nærtækast er að líta til þess sem forsætisráðherra Ísraels hefur sjálfur sagt nýlega. Þegar maður skoðar hvað Ísraelar sjálfir segja, kemur í ljós að þeir eru að berjast fyrir friði á svæðinu og þeir sjá fyrir sér sjálfstætt ríki Palestínumanna við hliðina á Ísraelsríki. Hvað segja Ísraelar sjálfir um ástæðu þess að ekki skuli enn hafa tekist að stofna sjálfstætt ríki í Palestínu? Í þeirra máli hefur komið fram að meginástæðan sé sú að átökin á svæðinu hafi snúist um allt annað, nefnilega tilvist Ísraelsríkis. Um það hafa átökin snúist allan tímann, um tregðu arabaríkjanna á svæðinu til að viðurkenna sjálfstætt ríki Ísraels. Sumir hafa gengið svo langt, eins og t.d. Hamas, og Íranir sem hafa haft áform um að byggja upp kjarnorkuvopnagetu, slíkir aðilar hafa beinlínis lýst því yfir að það beri að afmá Ísraelsríki af yfirborði jarðar, hvorki meira né minna.

Ef maður gefur sér tíma til að hugleiða málið í örskotsstund blasir við hverjum sem kynnir sér það að allir sem eru á svæðinu, líka Ísraelsmenn, hljóta að vilja vinna að friði, það er í þágu allra. En sagan hefur sýnt að það hefur ekki verið í þágu þeirra sem ekki hafa viljað að Ísraelsríki væri þarna til frambúðar, að það kæmist á friður, vegna þess að þeir hafa ekki viljað neinn frið um Ísraelsríki. Þeir hafa beinlínis viljað það í burt. Um þetta hafa átökin snúist.

Þess vegna mun ég, þegar ég skoða þessa tillögu í utanríkismálanefnd, fyrst og fremst líta til þess hvort með þessu skrefi sé hægt að ýta undir frið á svæðinu. Spurningin sem hæstv. ráðherra ber upp við okkur sem hér erum stödd og tökum þátt í umræðunni, um hvort eitthvað í þessari tillögu mæli gegn því að friður komist á á þessu svæði, er einmitt verkefni utanríkismálanefndar á næstu dögum og vikum. Nefndin þarf að skoða hvort í þessu felist einhver ákvörðun sem geti ógnað friðarviðræðunum með einhverjum hætti. Mér finnst að við eigum að skoða slíka hluti.

Það má t.d. velta því fyrir sér hvernig ástandið verður ef stjórn Abbas gerir það sem sagt er, að halda um 45% Palestínuaraba innan sinna vébanda án stöðu ríkisborgara, þ.e. að um 45% Palestínuaraba á svæðinu verði áfram flóttamenn. Hvaða ástand mun það kalla yfir svæðið? Í hvaða stöðu verður allur sá fjöldi? Mun það mögulega áfram kynda undir ófriði? Þessar spurningar hljóta menn að þurfa að taka með í reikninginn.

Hvernig mundi samþykkt þessarar tillögu líta út með hliðsjón af samkomulaginu í Ósló um friðarferlið, þar sem það var bundið sérstökum fastmælum að ekki yrði hróflað við stöðu hinna umdeildu landamæra? Þar var sérstaklega kveðið á um að hvorugur aðilinn mundi gera neitt sem gæti sett viðræðurnar í uppnám eða breytt eðli þeirra. Þetta hljóta menn að þurfa að taka með í reikninginn. Og síðan það sem ég nefndi í andsvari fyrr, að sjálfstjórnarsvæðin tvö virðast vera hvort undir sinni stjórninni og þær eiga beinlínis í átökum hvor við aðra.

Ég vil að lokum láta þess getið að þegar við ræðum utanríkismál í þinginu finnst mér mikilvægt að við leggjum okkur fram um að ná samstöðu. Mér hefur þótt það vera mjög til eftirbreytni hvernig mörg af vinaríkjum okkar á Norðurlöndunum leggja sig sérstaklega fram um að skýr tónn komi í utanríkisstefnu þjóðþinganna og menn leggi innbyrðis deilur til hliðar. Þess vegna hvet ég til þess að við fjöllum um þetta málefnalega og vandlega og tökum okkur (Forseti hringir.) þann tíma sem málið kallar á.