140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[17:45]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ísland hefur um langt skeið skipað sér í raðir þeirra ríkja sem berjast fyrir frelsi og sjálfstæði kúgaðra þjóða. Þannig varð Ísland, eins og kunnugt er, fyrst ríkja til að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna þriggja en Ísland varð einnig fyrst ríkja til að viðurkenna sjálfstæði Króatíu og Svartfjallalands en sú staðreynd er nú ekki jafnþekkt hér á landi. Ísland varð sömuleiðis eitt af fyrstu ríkjunum, ef ekki það fyrsta, til að viðurkenna Ísraelsríki á sínum tíma.

Þótt nú séu bráðum 70 ár liðin frá því að Ísland varð sjálfstætt og frjálst ríki þekkjum við Íslendingar vel til sögu sjálfstæðisbaráttunnar og hún er samgróin þjóðarvitund okkar. Við höldum henni á lofti og við styðjum við aðrar þjóðir sem vilja berjast fyrir sjálfstæði sínu.

Ég vil þakka og hrósa utanríkisráðherra og ríkisstjórninni í heild fyrir það frumkvæði að flytja hér á Alþingi þessa þingsályktunartillögu um viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi Palestínu innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967. Það eru vissulega tímamót að þessi tillaga sé komin fram og til umræðu hér í dag. Ég tel að það beri vott um myndugleik og kjark á sama tíma og áhöld eru um að umsókn Palestínumanna um fulla aðild að Sameinuðu þjóðunum fái sæmandi afgreiðslu á vettvangi öryggisráðsins.

Tillagan gerir ráð fyrir því að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967.

Tillögutextinn sjálfur er einfaldur og skýr, hann snýr bara að þessu atriði. Menn geta síðan lesið ýmislegt út úr athugasemdum með tillögunni sem er ekki hluti af því sem lagt er til að Alþingi samþykki. En tillögutextinn sendir, ef Alþingi samþykkir tillöguna, ótvíræð skilaboð út í alþjóðasamfélagið og ekki síst til nágrannaþjóða okkar í Evrópu um að ekki verði lengur unað við þráteflið á milli Ísraels og Palestínu sem hefur verið viðfangsefni alþjóðastjórnmála um áratugaskeið. Tillöguflutningurinn kallast á við þær hræringar og í raun umbyltingu sem orðið hefur í arabaheiminum fyrir botni Miðjarðarhafs og í Norður-Afríku undanfarna mánuði og er kennd við arabíska vorið. Kröfur íbúa á þessu svæði um mannréttindi, lýðræði, félagslegt réttlæti, enduróma víða um lönd og ómögulegt er að segja til um á þessu stigi hversu víðtæk þessi frelsisbarátta verður, en hún er hafin og hana má ekki stöðva.

Við sem búum svo vel að njóta grundvallarmannréttinda hljótum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að ljá þessari baráttu stuðning á allan þann hátt sem unnt er. Krafa Palestínumanna um eigið fullvalda og sjálfstætt ríki er hluti af þessari baráttu. Vitaskuld er hugsjónin um sjálfstæða Palestínu ekki ný af nálinni, þegar árið 1947 samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ályktun nr. 181 sem kvað á um stofnun sjálfstæðra ríkja gyðinga og Palestínumanna. Ísraelsríki var stofnað í maí 1948 en stofnun ríkis araba í Palestínu hefur látið á sér standa. Fullyrða má að alþjóðasamfélagið hafi í raun gengið á bak orða sinna gagnvart Palestínumönnum og vesturveldin bera þar ríka ábyrgð, ekki síst Bandaríkin þótt þau hafi ekki verið ein í ráðum. Palestínumenn hafa um áratugaskeið mátt búa við mannréttindabrot og hernám sem ganga þvert gegn þjóðarétti og ítrekuðum ályktunum allsherjarþings og öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Engum blöðum er um það að fletta að Palestína uppfyllir öll skilyrði þjóðaréttar til að öðlast sjálfstæði og jafnvel enn betur en ýmis þeirra ríkja sem þegar hafa öðlast slíkan sess eins og skýrlega kemur fram í athugasemdum með tillögunni. Ólögmætt hernám Ísraels á landsvæði Palestínu kemur ekki í veg fyrir að Palestína hljóti viðurkenningu sem sjálfstætt og fullvalda ríki og þegar hafa 127 ríki viðurkennt sjálfstæði Palestínu.

Í greinargerð með tillögu hæstv. utanríkisráðherra segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Sameinuðu þjóðirnar bera ríka ábyrgð á málefnum Palestínu, ekki eingöngu í sögulegu tilliti, heldur einnig sem sá vettvangur alþjóðasamfélagsins sem skal stuðla að heimsfriði og öryggi. Sameinuðu þjóðunum ber að tryggja virðingu fyrir alþjóðalögum og mannréttindum. Harðneskjuleg afstaða Ísraels mun ekki breytast án utanaðkomandi þrýstings og Palestínumenn eru of veikburða til að knýja fram breytingu. Lítil merki eru um að hægt verði að endurlífga friðarferlið í náinni framtíð. Ólögmæt landtaka Ísraels, sem hefur verið helsti spillir friðarviðræðna, hefur þvert á móti haldið áfram á hernumdu svæðunum. Endurvakið friðarferli þarf því að fela í sér miklu ákveðnari aðkomu stofnana alþjóðasamfélagsins að lausn málsins.

Í ljósi þessa er eðlilegt að Palestínumenn hafi valið þá friðsamlegu leið að leggja mál sitt í dóm Sameinuðu þjóðanna með formlegri beiðni um aðild að stofnuninni sem lögð var fram 23. september 2011. Íslensk stjórnvöld hafa lýst stuðningi sínum við aðildarumsóknina og hafa jafnframt lýst því yfir að kjósi Palestínumenn að óska stuðnings við Palestínuríki með ályktun í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna muni hún hljóta stuðning Íslands.

Viðurkenning á Palestínu sem sjálfstæðu og fullvalda ríki er í samræmi við málflutning Íslands og alþjóðasamfélagsins um að Ísraelar og Palestínumenn leiti sátta með friðarsamningum á grundvelli þjóðaréttar og samþykkta Sameinuðu þjóðanna. Mannréttindabrot á hernumdu svæðunum eru sérstakt áhyggjuefni og mikilvægt að nýta áfram hvert tækifæri til að hvetja alla deiluaðila til að láta þegar í stað af öllum ofbeldisverkum og til að virða mannréttindi og mannúðarlög.“

Herra forseti. Því miður er staðan einmitt sú sem hér er lýst í greinargerðinni. Sáralitlar líkur eru á því að hægt verði að koma friðarferlinu og raunverulegum viðræðum í gang á næstunni. Þar ræður mestu um innanríkispólitísk staða í Ísrael annars vegar og í Bandaríkjunum hins vegar. Það getur einfaldlega ekki gengið lengur að unnt sé að kúga og undiroka hina palestínsku þjóð áfram og endalaust af þeim sökum að þungavigtarríki í málum Miðausturlanda, eins og þessi tvö sem ég nefndi, geti ekki eða vilji ekki standa við margítrekaðar yfirlýsingar um stuðning við tveggja ríkja lausn í Palestínu eins og samþykkt Sameinuðu þjóðanna frá 1947 gerði alltaf ráð fyrir, ríki gyðinga og ríki araba.

Þeirri skoðun hefur verið fleygt að viðurkenning á Palestínu nú muni ekki þjóna hagsmunum Palestínumanna og litlar líkur séu á að slík viðurkenning muni koma friðarferlinu af stað. Þetta er auðvitað ein af grundvallarspurningunum og það er kannski erfitt að fullyrða í því efni. Það kann vel að vera að það megi til sanns vegar færa að svona sé í pottinn búið, en hitt er augljóst að óbreytt ástand heldur hinni palestínsku þjóð áfram í helgreipum hernáms og kúgunar. Framferði Ísraelsríkis með ólögmætu hernámi og sífellt nýjum landnemabyggðum á palestínsku landi grefur hægt og bítandi undan öllum möguleikum á tveggja ríkja lausn og því verður að linna áður en það verður um seinan. Færa má rök fyrir því að sú stund nálgist óðfluga.

Þess vegna verða önnur ríki, þótt veikburða séu og smá, á mælikvarða áhrifa í alþjóðastjórnmálum, að taka frumkvæði og sýna palestínsku þjóðinni samstöðu og stuðning, ekki einungis í orði heldur einnig á borði með því að viðurkenna sjálfstæði og fullveldi Palestínu. Við Íslendingar getum sýnt í verki að við séum hugumstór þjóð þótt fámenn séum og það gerum við með því að styðja eindregna og fullkomlega lögmæta beiðni Palestínu um fulla aðild að Sameinuðu þjóðunum og með því að viðurkenna fullveldi og sjálfstæði Palestínuríkis.

Ég hvet til þess að Alþingi sýni myndugleik og sameinist um að samþykkja fyrirliggjandi tillögu fyrr en síðar.