140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[18:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er nákvæmlega sú þjóð sem hv. þingmaður talaði í kringum áðan sem gerir það að verkum að fjöldi þjóða í Vestur-Evrópu hefur ekki stigið sama skref og átta Evrópusambandsríki hafa gert og þar af sex NATO-ríki fyrir töluvert löngu síðan og viðurkennt Palestínu. Þannig er gangur þessa heims. Sú þjóð sem vill slá okkur og kaupfélögin okkar í hausinn með hamri út af hvalveiðum hefur þessi áhrif. Því veldur pólitísk innanríkisstaða í Bandaríkjunum, svo að ég nefni það ríki. Bandaríkin munu ekki vera í færum til að láta neitt til sín taka í þessu máli næstu 18 mánuði, ekki fyrr en kosningum um forsetaembætti í Bandaríkjunum er lokið. Það er ekkert leyndarmál að áhrif Ísraelsmanna á bandarísk stjórnmál eru slík og staðan í Bandaríkjunum er þannig núna að þetta er það sem úrslitum veldur.

Þegar formaður Framsóknarflokksins fór til Túnis og hitti útlagastjórn PLO og Arafat var hann fyrsti vestræni leiðtoginn sem hitti Arafat. Þá var Arafat heitinn af öllum álitinn versti þrjótur og skúrkur. Samtök hans voru á öllum þeim listum sem Hamas er á núna. Í dag er allt annað uppi. Nú er litið svo á að PLO séu fulltrúar þjóðarinnar, Arafat var í guðatölu tekinn víða áður en hann varð hallur úr heimi.

Ég nefni þetta til þess að sýna að jafnvel samtök geta rétt stöðu sína, horfið frá villu síns vegar og gleymum því ekki að 2006 munaði ekki miklu að Hamas varpaði andstöðu sinni gagnvart Ísrael fyrir róða. Ég gæti nefnt fleiri skúrka sem vesturveldin hafa gefið upp sakir, jafnvel harðstjóra sem nú eru á flótta og sprengdu flugvélar. (Forseti hringir.) Það sýndi forsætisráðherra Bretlands sem fór út í eyðimörkina þar sem hann faðmaði einn þeirra.