140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[18:31]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ástæða er til að fagna því að hæstv. utanríkisráðherra skuli setja málefni Palestínu á dagskrá með töluvert afgerandi hætti og mikilvægt að þessi tillaga fái góða meðferð hér í þinginu og í utanríkismálanefnd, sem ég efast ekki um að hún mun gera.

Eins og hæstv. ráðherra hefur nefnt nokkrum sinnum á þetta mál sér töluvert langa sögu í mínum flokki og menn hafa lengi haft töluverðar áhyggjur af stöðunni fyrir botni Miðjarðarhafs og viljað leggja þar gott til. Spurningin er hvort þessi tillaga verður lóð á þá vogarskál. Vonandi verður sú raunin.

Tillagan sjálf er mjög stutt, ég les hana hér upp:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967.“

Spurningin er kannski: Hvernig á ríkisstjórnin að standa að þessu og má túlka það sem svo að það sem fram kemur í greinargerð með tillögunni sé leiðarvísir fyrir ríkisstjórnina um hvernig hún eigi að standa að þessu? Þar er til að mynda fjallað um Hamas-samtökin, sem skilgreind eru sem hryðjuverkasamtök, og mikilvægi þess að þau viðurkenni rétt Ísraels til að njóta friðar og öryggis meðal ríkjanna á svæðinu. Jafnframt er skorað á Hamas-samtökin að virða þá samninga sem frelsishreyfing Palestínumanna hefur gert fyrir hönd Palestínumanna og farið nánar yfir mikilvægi þess að þeir sem fara með völdin í Palestínu taki þátt í friðarferlinu og beiti sér fyrir friði. Spurningin er því: Er þessi yfirlýsing eða þetta verkefni sem ríkisstjórninni er falið, að viðurkenna fullveldi Palestínu, á einhvern hátt skilyrt? Er þetta háð því að Hamas-samtökin eða stjórnvöld í Palestínu viðurkenni Ísrael og taki áfram þátt í friðarferlinu?

Eins og hv. formaður utanríkismálanefndar kom inn á hér áðan var samþykkt yfirlýsing um það í Sameinuðu þjóðunum árið 1947 að Ísrael og Palestína skyldu verða sjálfstæð ríki. Það hefur hins vegar verið löng bið á því að Palestína fengi fullveldi og sá tími hefur á margan hátt haft mjög óæskileg áhrif. Flestir hafa alist upp við að heyra fréttir af átökum á þessum slóðum alla sína tíð. Oft hafa reyndar borist fréttir af einhverjum friðarsamningum sem menn binda miklar vonir við en alltaf heldur stríðið áfram. Það er því mikilvægt að aðkoma alþjóðasamfélagsins að málum þarna verði til að binda endi á þessa löngu sögu hörmunga.

Ég velti fyrir mér hvort virðulegur forseti hefur séð kort af Palestínu eða Ísrael. Það er mjög áhugavert að skoða það. Ísrael er ekki stórt land, hvort sem miðað er við landamærin frá 1967 eða síðar. Ætli það sé ekki bara á stærð við Þingeyjarsýslurnar, eitthvað slíkt? Engu að síður eru þarna nánast óteljandi sjálfsstjórnarsvæði Palestínumanna, með mismunandi skilgreiningu, eða einhvers konar landtökubyggðir Ísraela, þannig að kortið lítur út eins og örlitlum kornum eða freknum sé stráð yfir landið, þannig er því skipt á milli Palestínumanna og Ísraelsmanna.

Þetta er náttúrlega ekki gæfulegt fyrirkomulag og hefur haldið áfram að þróast með þeim hætti að landið hefur verið að sundrast í frumeindir og er ekki, held ég, líklegt til að skapa friðvænlegt umhverfi þarna. Garður er granna sættir, segir máltækið. Það hefur í gegnum mannkynssöguna ekki reynst vel að þvinga þjóðir til að vera undir einni yfirstjórn, þjappa mörgum ólíkum þjóðum saman í eitt ríki, miklu betra að hver þjóð hafi sem mest um sín mál að segja. Þessi tillaga og sjálfstæði Palestínu er til þess fallið að ýta undir að sú verði raunin, að það liggi þá ljóst fyrir hvernig þetta landsvæði skiptist og báðar þjóðir geti byggt upp innan síns svæðis, því að þó að garður sé grannasættir eru múrar það ekki. Þær eru með ólíkindum þær aðstæður sem Palestínumenn búa við innan víggirðingar, geta jafnvel ekki einu sinni sótt vinnu og nauðsynjar, og eru sums staðar í raun í fangelsi.

Ég held að mikil samstaða sé um það hér í þinginu og meðal þjóða Evrópu að þessu þurfi að breyta. En það er áherslumunur í því hvernig best sé að standa að því. Hæstv. utanríkisráðherra nefndi hér áðan að Norðurlöndin, kannski ekki hvað síst ný vinstri stjórn í Danmörku og ríkisstjórn Noregs, séu að miklu leyti, jafnvel að mestu leyti, á sömu línu og lýst er í þessari þingsályktunartillögu. Ég hugsa að það sé rétt hjá hæstv. ráðherra en þessar ríkisstjórnir eru hins vegar ekki alveg á sömu línu eins og við fengum að heyra hjá utanríkisráðherra Noregs fyrir ekki svo mörgum dögum þegar hann heimsótti þingið hér. Hann lagði líklega meiri áherslu á mikilvægi þess, sem ég hef nefnt hér, og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson kom inn á áðan, að fá úr því skorið að stjórnvöld í Palestínu væru reiðubúin að taka þátt í þessari tveggja ríkja lausn, viðurkenna Ísrael og skuldbinda sig til að vinna að friði í stað þess að beita vopnum. Mér fannst á norska utanríkisráðherranum að hann teldi æskilegt að viðurkenning á fullveldi Palestínu væri háð einhverjum slíkum skilyrðum. Ég held að við ættum að velta því fyrir okkur í utanríkismálanefnd hvort skilyrða eigi þetta með einhverjum hætti eða fá að minnsta kosti þá staðfestingu sem Danir og Norðmenn sækjast eftir á því að Palestínumenn, eða þeir sem fara með stjórnina þar, séu reiðubúnir að taka þátt í þessari tveggja ríkja lausn.

Þó viljum við ógjarnan að þetta verði til að tefja málið en það getur verið gagnlegt að fá innsýn í stefnu Noregs því að þar hafa stjórnvöld haft mikinn áhuga á og borið umhyggju fyrir málefnum Palestínu og Ísraels og beitt sér lengi fyrir friðarumleitunum þar, þar er til staðar mikil reynsla og þekking. Við eigum að sjálfsögðu ekki að byggja afstöðu okkar á því hvað aðrar þjóðir gera og þess vegna finnst mér ekki áhyggjuefni í sjálfu sér að þorri Evrópuþjóða hafi ekki viðurkennt sjálfstæði Palestínu. En það getur hins vegar verið gagnlegt að líta til reynslu þessara landa, og ekki hvað síst landa eins og Noregs, sem lengi hafa starfað að friði milli Ísraela og Palestínumanna.

Þetta fer til umræðu í utanríkismálanefnd og eins og ég nefndi hér í upphafi hef ég fulla trú á því að sú vinna verði góð og ítarleg. Hún leiðir vonandi til þess að þingið geti með einhverjum hætti sameinast um að styðja sjálfstæði Palestínu.

Ég vil í lokin ítreka þakkir til hæstv. utanríkisráðherra fyrir að bera þetta mál fram hér í þinginu en jafnframt hvetja hann og aðra til að skoða mjög gaumgæfilega hver besta útfærslan á þessu er, hvernig að þessu er staðið.