140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

fjárframlög utan fjárlagafrumvarpsins.

[13:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við fengum nýlega í hendur fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar og í framhaldi af því hafa skapast töluverðar umræður um hluti sem eru ekki í fjárlagafrumvarpinu. Nægir þar að nefna umræðu sem hefur verið í fjölmiðlum um framlag til Háskóla Íslands. Ég held að flestir séu sammála um að málefnið sé gott en þetta er spurning um aðferðafræðina. Ég man eftir því að við umfjöllun um fjárlög þessa árs í fyrrahaust gerði ég athugasemd við það — ég held að það hafi verið í fyrrahaust frekar en haustið áður — að í heimildarákvæði væri heimild til að kaupa hlut í orkufyrirtækjum. Það kom hins vegar ekki fram, ef ég man rétt, hvort það væri 1 milljarður eða 100 milljarðar sem þetta heimildarákvæði væri upp á.

Nú hefur komið í ljós að þeir fjármunir sem eiga að fara til Háskóla Íslands eru ekki í fjárlagafrumvarpinu. Því velti ég fyrir mér hvort það séu fleiri þættir sem er vitað um að eigi að setja fjármuni í en eru ekki í fjárlagafrumvarpinu. Það skal tekið fram að flestum þingmönnum var ljóst að fjármunir ættu að fara til háskólans en ég hugsa að flestir hafi gert ráð fyrir að þeir yrðu á fjárlögum. Skýringarnar sem hafa komið fram eru meðal annars þær að gert verður ráð fyrir þessu í fjáraukalögum. Ég hélt satt að segja, frú forseti, að við værum að reyna að breyta hlutunum þannig að við vísuðum ekki útgjaldaliðum í fjáraukalögin, þ.e. til framtíðar. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort ráðherrann geti upplýst þingheim um það hvort fleiri atriði eigi eftir að koma okkur á óvart varðandi fjárlögin, öllu heldur það sem ekki er í fjárlögunum.