140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

úttekt á samfélagslegum áhrifum kvótakerfisins.

[13:49]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Undir lok síðasta þings samþykkti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd sem þá var starfandi að óska eftir því við sjávarútvegsráðuneytið að það léti gera úttekt á samfélagslegum áhrifum núverandi kvótakerfis á sjávarbyggðir landsins frá 1991. Áður en þetta var lagt til var kannað í ráðuneytinu hjá ráðherra hvort vilji væri til að vinna slíka úttekt fyrir þingið og þau skilaboð bárust nefndinni að sá vilji væri til staðar. Nefndin lagði til að rannsóknin skyldi lúta að samfélagslegum og hagrænum áhrifum kvótakerfisins á íbúa og byggðaþróun í landinu ásamt öðrum samfélagslegum þáttum svo sem atvinnuöryggi, jafnræðis- og mannréttindasjónarmiðum. Þá óskaði meiri hluti nefndarinnar eftir því að skoðað yrði hvernig frjálst framsal og kvótaleiga hefði haft áhrif á kvótaverð, veðsetningu, fjármál útgerðarfyrirtækja og söfnun aflaheimilda til fárra fyrirtækja. Þá yrðu skoðuð líka áhrif kvótakerfisins á fiskstofnana við landið og farið fram á að rannsóknin næði til þessara atriða sem ég hef nú nefnt allt frá árinu 1991. Verkið áttu að vinna sérfræðingar á sviði samfélagsfræði, félagsfræði, mannfræði, lögfræði, fiskifræði og hagfræði og niðurstöður skyldu lagðar fram fyrir lok septembermánaðar.

Nú vil ég spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: Hvað líður þessari úttekt? Hverjum fól ráðuneytið að vinna hana og hvenær er niðurstaðna að vænta?