140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

fækkun sparisjóða.

[14:00]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta var fróðleg upprifjun á fortíðinni en hafði hins vegar ekkert með nútíðina að gera. Ég var í raun og veru ekki að spyrja um afstöðu hæstv. ráðherra til mála eins og þau blöstu við í fortíðinni, ég þekki það alveg. Ég spurði hæstv. ráðherra hver væri afstaða hans væri til þeirrar þróunar sem hefði orðið á vakt þeirrar ríkisstjórnar sem hæstv. ráðherra situr í þar sem þjónustustöðvum sparisjóðanna hefði fækkað um helming á einu ári og sú þróun heldur greinilega halda áfram.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra að nýju: Telur hann þetta viðunandi? Finnst honum það jákvæð þróun að þjónustustöðvum sparisjóða á Vestfjörðum hafi fækkað úr tólf í fjórar? Nú vil ég taka fram að ég tel að t.d. Landsbankinn hafi staðið prýðilega að málum í sjálfu sér við yfirtöku sparisjóða þar sem ég þekki til. Ég er ekki að gagnrýna það. Ég er einfaldlega að vekja athygli á því að það er að verða hæg en mjög augljós breyting á fyrirkomulagi fjármálaþjónustu í landinu, sparisjóðakerfið er ekki svipur hjá sjón. Það gerist á vakt þeirrar ríkisstjórnar sem hæstv. ráðherra situr í og ég spyr hæstv. ráðherra: Er hann ánægður með þessa þróun? Vill hann stöðva hana? Vill hann snúa henni við?