140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

reglur um ársreikninga og hlutafélög.

[14:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég hef í þrígang flutt frumvarp um gagnsæ hlutafélög sem eiga að taka á þessum vanda. Það var mjög einfalt í Danmörku hvernig það var gert. Bankinn lánaði fólki til að kaupa hlutabréf. Þar fór peningurinn í hring, mjög stuttan hring.

En það er verra, frú forseti, þegar menn stofna hlutafélög sem aftur stofna hlutafélög sem aftur stofna hlutafélög og þau kaupa svo aftur í fyrsta hlutafélaginu. Það er ógagnsætt og ekki er búið að laga það. Endurskoðendur líta alltaf bara á eitt hlutafélag, móðurfyrirtæki þess og dótturfyrirtæki en þeir líta aldrei á ömmuna eða barnabarnið. Það er nauðsynlegt að gera til að koma í veg fyrir svona hringi vegna þess að þeir sem eru að vinna úti á sviðinu eru oft miklu klárari en hæstv. ráðherra gerir ráð fyrir.