140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

Efnahagsleg áhrif af rekstri og arðsemi Landsvirkjunar til ársins 2035.

[14:09]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það gengur erfiðlega að auka hagvöxt svo ásættanlegt sé. Það sýnir okkur hvað best að orðum verða að fylgja athafnir þannig að áætlanir geti gengið eftir. Við verðum að viðurkenna að aðstæður þeirra aðila sem vinna við hagvaxtarspár eru ekki öfundsverðar. Pólitísk óvissa er svo mikil um stóra og veigamikla þætti, m.a. í atvinnuuppbyggingu, að það má líkja þessu við starf veðurfræðings sem þarf að spá um veðrið langt fram í tímann.

Efnahagsleg velferð okkar síðustu áratugi byggir fyrst og fremst á því að þjóðin býr við þá gæfu að barátta þeirra sem hafa viljað nýta orkuauðlindirnar til að fjölga stoðum í íslensku samfélagi varð ofan á. Þau tækifæri sem við Íslendingar höfum til viðspyrnu eftir efnahagsáfallið hafa ekki verið nýtt sem skyldi. Um það vitnar m.a. hörð gagnrýni aðila vinnumarkaðarins. Sá augljósi ágreiningur sem er um þessi mál innan ríkisstjórnarflokkanna hefur verið mjög skaðlegur íslensku samfélagi.

Í lok júní kynnti Landsvirkjun áhugaverða skýrslu um framkvæmdaáætlun sína sem ef fylgt væri gæfi mikla innspýtingu í efnahagsumhverfi okkar til skemmri og lengri tíma litið. Vegna mikils slaka í hagkerfinu er sérstaklega hagkvæmt að fara í framkvæmdir strax þar sem margir framleiðsluþættir standa ónotaðir og atvinnuleysi er mikið. Ef framkvæmdastefnu Landsvirkjunar væri fylgt hefði það í för með sér til viðbótar árlegan hagvöxt er næmi frá um 1,5%–2,2% á næstu árum. Það þýðir að hér mundu skapast um 1–2 þús. störf á hverju ári. Ruðningsáhrif vegna þessara framkvæmda yrðu lítil eða engin og efnahagsleg áhrif framkvæmdanna yrðu nær hreinn ábati fyrir efnahagslífið. Framkvæmdirnar mundu einnig skila varanlegri aukningu í framleiðslugetu þjóðarinnar til lengri tíma litið.

Þeir virkjanakostir sem áætlunin nær til eiga ekki að vera umdeildir. Í drögum að rammaáætlun lenda þeir allir í nýtingarflokki sem þýðir að um þá á ekki að þurfa að deila. Spurningin verður ekki hvort þarna eigi að virkja heldur hvenær.

Í skýrslunni kemur fram hvað verðmæti orkuauðlindarinnar er gríðarlegt fyrir þjóðarbúið. Reikna má með að þegar markmiðinu verði náð geti arðgreiðslur Landsvirkjunar numið jafnvel á annað hundrað milljarða króna sem jafnast á við það sem olíusjóður norska ríkisins greiðir til þjóðarinnar. Greiðslurnar frá Landsvirkjun gætu farið langt með að greiða fyrir allt heilbrigðiskerfið sem kostar rúmlega 8% af landsframleiðslu. Mestur væri þó ábatinn eflaust fólginn í því að greiða niður erlendar skuldir sem tækju í raun ekki mjög langan tíma miðað við núverandi stöðu eða að efla gjaldeyrisvarasjóðinn að fyrirmynd Norðmanna.

Virðulegi forseti. Það er oft talað um að við megum ekki ganga um of á orkuauðlindir okkar vegna komandi kynslóða. Hvað er hægt að hugsa sér betra fyrir komandi kynslóðir en að við nýtum orkuauðlindir okkar til að skapa komandi kynslóðum skuldlausan ríkissjóð og arðbæra atvinnustarfsemi sem getur staðið undir veigamiklum þáttum velferðarsamfélagsins?

Gríðarlegir hagsmunir eru fólgnir í því að ýta þessari áætlun í framkvæmd strax. Málið þolir einfaldlega ekki bið við núverandi aðstæður. Við sjálfstæðismenn höfum lagt ítrekað til að tekin verði ákvörðun um virkjanaframkvæmd í neðri hluta Þjórsár. Í skýrslu Landsvirkjunar er reiknað með að þær framkvæmdir hefjist á árinu 2013 en við viljum flýta þeim framkvæmdum inn á næsta ár eða eins fljótt og auðið verður.

Það er samdóma álit þeirra sem koma að málum hérlendis að áhugi erlendra aðila til að fjárfesta hér á landi hafi sjaldan verið meiri. Mikilvægt er að grípa gæsina meðan tækifæri gefst. Aðstæður í heiminum eru viðsjárverðar og við vitum í rauninni ekki hversu lengi glugginn verður opinn. Við höfum lent í því áður að tapa tækifærum líkt og mikil hætta er á að nú sé að gerast.

Þeir aðilar sem um þessi mál véla hafa ítrekað sagt okkur að það sem skortir á hjá þeim er að hafa pólitíska stefnu, hafa vissu um hvað þeir geti samið um við áhugasama erlenda fjárfesta sem hingað vilja koma með atvinnustarfsemi. Það er mikið ábyrgðarleysi þeirra sem stýra þjóðarskútunni að halda þannig á málum að þessi óvissa sé eins og raun ber vitni.

Í skýrslu um ríkisfjármál fyrir árið 2012–2015 sem fylgdi fjárlagafrumvarpinu er ekki að finna stafkrók um að tillit hafi verið tekið til þessarar framkvæmdaáætlunar Landsvirkjunar. Það þarf ekki að vefjast fyrir neinum að ástæða þess er væntanlega óeining ríkisstjórnarflokkanna um hvert skuli stefna í orkunýtingarmálum. Slíkt er algerlega óviðunandi við erfiðar aðstæður. Til að koma okkur úr sporunum, til að ná okkur á flug verður að taka þessar ákvarðanir strax.

Ég vil því spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hvað hún hyggist leggja til í ríkisstjórn um næstu skref og hvort hún muni beita sér fyrir því að framkvæmdum og framkvæmdaáætlun samkvæmt skýrslu þessari verði hraðað sem mest.