140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

Efnahagsleg áhrif af rekstri og arðsemi Landsvirkjunar til ársins 2035.

[14:27]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Hin nýja stefnumörkun Landsvirkjunar er fyrir margra hluta sakir ansi merkilegt plagg. Það er ein byltingarkennd grundvallarhugsun í því plaggi sem er líklega alveg ný fyrir mörgum í þessum sal. Landsvirkjun ætlar sér að selja orkuna sem hún aflar af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar háu verði, hún ætlar að reyna að fá sem hæst verð fyrir orkuna. Það er, miðað við hvernig við höfum farið um náttúruauðlindir þjóðarinnar hingað til, algjörlega ný hugsun. Á grundvelli þeirrar hugsunar ætlar Landsvirkjun mögulega að byggja upp fyrirtæki sem skilar þjóðarbúinu upp undir 100 milljörðum á ári í arð.

Ef Landsvirkjun á að takast þetta þarf að halda aftur af vissum æðibunugangi, vissri óþreyju, sem hvað eftir annað grípur um sig nákvæmlega í þessum sal. Hér vilja menn eftir sem áður stunda þá gamaldagsauðlindapólitík að skapa 500 störf staðbundin hér og þar með ærnum tilkostnaði og með því að selja orkuna nánast, eins og kemur fram í skýrslunni, á kostnaðarverði. Þessum hugsunarhætti verðum við að sporna við með öllum ráðum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Vinna þarf gegn þeim æðibunugangi sem m.a. birtist í ræðu hv. málshefjanda og í ræðu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, vegna þess að til mikils er að vinna, eins og kemur fram í skýrslu Landsvirkjunar. Við getum skapað hér fyrirtæki á grunni sameiginlegu auðlinda okkar sem skilar þjóðarbúinu allt að 100 milljörðum á ári, ef Landsvirkjun fær að ráða.