140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[15:04]
Horfa

Frsm. forsætisn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég mótmæla því að það séu mjög afmarkaðir tímarammar. Ég tel mikilvægt að nefndin fái góðan tíma til að fara í gegnum allt þetta frumvarp og kalli til sín eins marga og hún telur þurfa. Við höfum núna möguleika á því að vinna mál miklu betur í nefndum en áður. Það er hægt að skipa undirnefndir, úthluta nefndarmönnum afmörkuðum köflum til að vera með umsjón yfir eins og ég nefndi í framsögu minni og undirnefndir geta fundað þó að þingfundir séu í gangi þannig að það eru miklu fleiri möguleikar með nýjum þingsköpum til að sinna þessu starfi mun betur en ella og betur en var áður, fyrir 1. október þegar þessar breytingar voru gerðar.

Síðan hef ég lýst því yfir opinberlega að ég telji að þjóðin ætti að geta komið að þessu áður en málið verður endanlega afgreitt, það sagði ég á fundinum þegar ég tók við tillögum stjórnlagaráðs. En það verður auðvitað á hendi nefndarinnar að leggja til við Alþingi hvernig því verður háttað og það er bara hluti af því sem nefndin þarf að gera í sinni vinnu. Ég ætla ekki að taka frekar afstöðu til þess en minni á og hvet menn til að fara að nýjum þingsköpum, fara að þeim lögum sem við höfum sett okkur við vinnuna hérna, við þessa vinnu. Ég tel það aldrei mikilvægara en þegar við erum að vinna að nýrri stjórnarskrá sem þarf auðvitað að vera vönduð og við þurfum að vera hreykin af.

Sömuleiðis legg ég sérstaklega ríka áherslu á að í ljósi verkefna stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fari hún að lögunum sem við höfum sett okkur.