140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[15:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu. Hann segir að hann sé ekki endilega fylgjandi því að breyta stjórnarskránni frá grunni eins og hér er lagt til og ég spyr: Hvaða ástæðu sér hann til þess og telur hann að núgildandi stjórnarskrá sé „nothæf“ til framtíðar?

Þá vil ég spyrja hv. þingmann út í ferlið. Ég skil ekki, frú forseti, hvernig þetta á að gerast. Hér erum við að ræða skýrslu forsætisnefndar, það er bara skýrsla og þá veit þingið af þessari skýrslu. Ég átta mig ekki alveg á hvernig málið fer svo til þessarar nýju nefndar sem hv. þingmaður situr í. Það getur vel verið að það sé bara vanþekking mín á nýju þingsköpunum. Hvað gerist í þeirri nefnd? Er meiningin að hún flytji frumvarp eða hvernig á þetta eiginlega að fara til þjóðarinnar? Það má ekki senda nýju stjórnarskrána sem frumvarp því að um leið og búið er að samþykkja það þarf að rjúfa þing samkvæmt núgildandi stjórnarskrá og við ætlum að fara eftir henni. Það þarf einhvern veginn að fara í kringum þetta regluverk allt sem felst í núgildandi stjórnarskrá og heimildum Alþingis til að senda þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ljóst að sú þjóðaratkvæðagreiðsla er ekki meira virði en Gallup-skoðanakönnun. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður staðfesti það. Ég vildi gjarnan að hann útskýrði fyrir mér, ef hann skilur það, hvernig þetta ferli allt á að vera. Svo greiðir þjóðin náttúrlega atkvæði um þetta, þetta fer til þingsins og þá verður væntanlega samþykkt frumvarp til stjórnarskrárbreytinga. Um leið og búið er að samþykkja það þarf að rjúfa þing og þá kýs þjóðin nýtt þing en greiðir hugsanlega ekki atkvæði um stjórnarskrána.