140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[15:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Það eru tvö atriði, hæstv. forseti, sem hv. þingmaður nefndi. Í fyrsta lagi tek ég fram að mér er ekki ljóst, frekar en öðrum sem hér eru, nákvæmlega hvaða stefnu þetta mál mun taka. Ég held að það sem við vitum núna er að eftir umræðuna í dag gengur þetta til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, forseti þingsins hefur lýst því yfir að sú nefnd hafi þar með forræði á málinu.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að það er ekki hægt að ljúka afgreiðslu frumvarps um breytingu á stjórnskipunarlögum nema í lok kjörtímabils nema menn séu tilbúnir að rjúfa þing fyrr. Það er alveg rétt. Ég bendi á að það er rétt rúmlega eitt og hálft ár eftir að núverandi kjörtímabili. Það er ekki langur tími fyrir þingið til að fjalla um stjórnarskrárbreytingar þannig að ég hef engar áhyggjur af því að gert sé ráð fyrir of rúmum tíma eins og hæstv. forseti leggur þetta upp. Ég held að okkur veiti ekkert af þeim tíma í þinginu, einu og hálfu ári, til að fara yfir þessar tillögur og komast að niðurstöðu um þær.

Hin spurningin sem hv. þm. Pétur Blöndal nefnir er sú hvort fara eigi fram ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla á einhverju stigi málsins. Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað. (PHB: Um hvað?) Þingið hefur ekki tekið afstöðu til þeirrar spurningar hvort fara eigi fram ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla á einhverju stigi málsins. Ég veit að meðal þingmanna er töluverður áhugi á því, en ég er sjálfur ekki hrifinn af því. Ég held að við eigum einfaldlega að halda okkur við þær formreglur sem stjórnarskráin sjálf kveður á um og klára málið eftir þeirri leið. Ef menn, eins og hv. þm. Pétur Blöndal, vilja breyta aðferðinni við það að breyta stjórnarskránni (Forseti hringir.) er rétt að byrja á að breyta 79. gr. og svo er hægt að (Forseti hringir.) taka hitt í framhaldinu.