140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[15:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi taka fram skýrt og skilmerkilega að um þetta mál eru skiptar skoðanir í Framsóknarflokknum eins og í öðrum flokkum, bæði meðal þingmanna og almennra flokksmanna, svo því sé haldið til haga.

Ég er einn af þeim sem hafa talið þetta ferli allt saman hið undarlegasta frá upphafi. Ég var á móti því að stofna til þessa stjórnlagaþings sem átti að gera en samþykkti það engu að síður hér vegna þess að Framsóknarflokkurinn hafði samþykkt að fara þessa leið. Það var lýðræðisleg ákvörðun, tekin á flokksþingi. Samþykki mitt náði hins vegar ekki lengra en það því að sú vegferð sem síðan var farin í þinginu er fyrir neðan allar hellur, að skauta fram hjá því sem Hæstiréttur kvað upp úr og stofna til þessa stjórnlagaráðs á mjög hæpnum forsendum að mínu viti. Ég hef engin kynni af því ágæta fólki sem sat í stjórnlagaráði nema kannski einum eða tveimur, allt er þetta örugglega hið ágætasta fólk. Þar af leiðandi ætla ég ekki að fjalla neitt um þær persónur á neinn hátt.

Ég vil hins vegar segja að það er mjög sérstakt að ráð, hverjir sem í því sitja, sem var kosið í af 36% atkvæðisbærra Íslendinga ef ég man rétt — Hæstiréttur ógilti þá kosningu — sé skipað af Alþingi sem ákveður að skauta fram hjá þessum staðreyndum sem ég gat um. Það sýndi sig glöggt í þessum kosningum að sú aðferðafræði sem var viðhöfð, það kosningakerfi, þessi persónukosning, gekk einfaldlega ekki upp. Kosningin dró ekki upp þverskurð af þjóðinni á nokkurn hátt ef horft er til aldurs, menntunar, búsetu og slíks. Það hefði verið nær að taka slembiúrtak úr þjóðskránni til að ná fram sama eða betra vægi hefði ég haldið.

Þá ætla ég að minnast þess sem ég sagði hér í ræðu 22. mars um þetta mál og stend að sjálfsögðu við allt sem þar kemur fram. Ég gagnrýndi harðlega að mér sýndist að ákveðin forgjöf hefði verið í þessari kosningu því að menn hefðu misjafnan aðgang að fjölmiðlum og þess háttar. Tilurð þess plaggs sem við ræðum hér er að mínu viti mjög sérstök, ég ætlaði að segja vafasöm en það er kannski ekki rétta orðið í þessu sambandi. Ég hlýt hins vegar að þakka fyrir þá vinnu sem var lögð í þetta hvað sem okkur finnst svo um afurðina og allt sem því fylgir.

Ég verð að segja, herra forseti, að margt í þeim tillögum sem hér eru settar fram virkar ekki vel á mig. Sumt skil ég bara alls ekki, svo það sé bara hreinlega sagt hér, og sumt fæ ég heldur ekki til að ganga upp í þeim anda sem er lagt af stað með, þ.e. að auka og jafna rétt þegnanna. Ég hef til dæmis efasemdir um það kosningakerfi sem lagt er upp með. Ég tek undir með hv. þingmanni sem talaði hér áðan, Valgerði Bjarnadóttur, um að það þarf að skýra það verulega til að átta sig á því hvað í því felst.

Eignarréttur er eitt af því sem var rætt hér. Mér sýnist við fyrstu sýn að það sé verið að reyna að standa vörð um hann þó að það sé hoggið að einhverju leyti í hann. Ég ætla ekki að fara í einstakar greinar, þær eru nokkrar sem ég hef þó merkt við hér, vil stoppa fyrst við 19. gr. um kirkjuskipanina. Ég er á móti því að breyta því fyrirkomulagi sem við höfum í dag um kirkjuna, svo það sé sagt hér, þ.e. ef ég skil þetta rétt.

Síðan vil ég segja að mér finnst líka mjög óeðlilegt ef ráðherrar geta ekki setið lengur en átta ár í sama embætti. Mér finnst mjög óeðlilegt að setja í stjórnarskrá að ráðherra sem er kannski mjög farsæll í starfi þurfi að láta af því eftir átta ár. Á stjórnarmyndun, forseta og öllu þessu er hægt að hafa ýmsar skoðanir. Forseti Íslands hafði við þingsetningu langt mál um vangaveltur sínar um þessar tillögur. Þar er á ferðinni maður sem við vitum að hefur mikla þekkingu á stjórnmálum, stjórnmálafræðingur og prófessor eða doktor eða hvað það er nú í þessum málaflokki og málum, þannig að ég held að ekki sé hægt að horfa fram hjá orðum hans. Það sem ég hrekk kannski mest við eftir að hafa hlustað á forseta Íslands flytja ræðuna og heyrt viðbrögðin í fjölmiðlum á eftir er að það gengur vitanlega ekki að vera með stjórnarskrá sem hægt er að túlka út og suður þar sem menn geta lagt mismunandi mat á innihaldið. Það er alveg ljóst að það þarf að skýra einstakar greinar og sjálfsagt plaggið í heild.

Herra forseti. Í grunninn verð ég að segja að það er mjög slæmt að leggja í þá vegferð að breyta stjórnarskrá Íslands með Alþingi í raun klofið og lítinn áhuga þjóðarinnar ef marka má þátttökuna í kosningunum til stjórnlagaþings þannig að ég held að við horfum fram á mikil átök um innihald þessara tillagna um það hvernig á að standa að breytingum á stjórnarskránni nú og í framtíðinni. Ég verð alveg að vera hreinskilinn með það að ég óttast að þegar staðið er að breytingum á stjórnarskrá verði til plagg sem háð er meira einhverjum dægursveiflum en því sem hún á að vera háð, þ.e. grundvallarréttindum Íslendinga. Við viljum að hún marki þá stefnu sem við viljum byggja okkar lagagrunn á og stjórnskipan. Stjórnarskráin á heldur ekki að vera þannig plagg að hún taki mið af tíðarandanum eða sé breytt í ljósi tíðarandans, það má alls ekki vera. Ég hafna því algerlega ef því er haldið fram í dag að það sé stjórnarskránni, þessari gömlu góðu, að kenna að hér varð einhvers konar hrun, efnahagshrun. Að sjálfsögðu er það ekki. Það eru allt aðrir hlutir sem orsökuðu það.

Það segir hins vegar ekki að sá er hér stendur sé á móti því að breyta stjórnarskránni, alls ekki. Ég vil halda því til haga og endurtaka það sem ég sagði hér í mars að ég tel að alþingismenn, 63, sem hafa um 90% þjóðarinnar á bak við sig til að sitja hér séu betur til þess fallnir að breyta þessari stjórnarskrá en stjórnlagaráð með ríflega 30% atkvæði á bak við sig. Það er bara mín bjargfasta trú og skoðun. Það þarf samt að breyta ákveðnum hlutum. Það þarf að skýra ákvæði um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum. Það þarf að skýra það að náttúruauðlindir séu eign okkar allra. Það þarf líka að skýra og breyta því hvernig dómar eru skipaðir. Ég tek undir það.

Það eru ákveðnir hlutir í mannréttindakaflanum sem þarf klárlega að skýra. Mér finnst ég þurfa skýringar á nokkrum tillögum sem hér eru lagðar fram svo ég átti mig á því af hverju þær eiga heima í stjórnarskránni, séu orðaðar eins og þær eru orðaðar þar. Jú, við skulum uppfæra þann kafla klárlega til að taka af allan vafa.

Ég er ekki viss um að svo miklar aðrar breytingar þurfi að gera. Ég held að það sé rangt að festa ákveðið kosningakerfi í stjórnarskránni eins og hér er lagt til. Ég held að það þurfi að vera möguleiki að hafa aðrar aðferðir en þarna er lagt upp með, fyrir utan það að ég skil hana ekki alveg, það verður að segjast alveg eins og er.

Herra forseti. Það er mikilvægt fyrir okkur að vanda til verka, eins og ég sagði. Skýrsla þessi fer til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og fær þar vonandi mjög gagnmerka og vandaða yfirferð. Ég hvika ekki frá því að sem ég sagði áðan, það hefði verið farsælla að reyna að ná meiri samstöðu og sátt um þá vegferð sem var farið í. Það kann að vera að þegar á endastöð er komið í umfjöllun um málið í þinginu verði búið að ná einhvers konar samstöðu eða sátt um breytingar. Ég ætla ekki að gefa mér að það náist ekki, en ég óttast að aðferðafræðin og hvernig til þessa var stofnað sé ekki til þess fallið, því miður.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni, herra forseti. Ég mun að sjálfsögðu fjalla um þetta mál þegar það kemur aftur inn til þingsins og þegar ég er búinn að sökkva mér enn betur ofan í einstakar greinar og leita þá skýringa við þeim.