140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[16:08]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er svolítið hvumsa yfir ræðu hv. þingmanns. Það var breið samstaða um það í þinginu að efna til stjórnlagaþings og uppi var mikil krafa í samfélaginu og heilu stjórnmálaflokkarnir höfðu á stefnuskrá sinni að endurskoða stjórnarskrána. Það var breið sátt um að efna til stjórnlagaþings. Hv. þingmaður talar af lítilsvirðingu um 36% kosningaþátttöku. Við skulum þá hafa í huga að 80–90 þús. kosningarbærir Íslendingar fóru á kjörstað til að taka þátt í fremur flóknu kosningakerfi um stjórnarskrána og velja fulltrúa á þingið. Síðan gerist það að Hæstiréttur ógildir kosninguna og að sjálfsögðu virðum við það. Þá var úr vöndu að ráða. Það hefur verið kallað eftir gagngerri endurskoðun á stjórnarskránni nánast frá því að hún var sett í upphafi. Breytingar hafa verið gerðar í smáum skrefum, en það var nokkuð mikil sátt um að nú þyrftum við að stíga skrefið til fulls.

Ég studdi stjórnlagaráð af því að ég taldi að tilnefning á milli 80–90 þús. kosningarbærra manna í ráð væri bara með því hressilegra sem við hefðum af stuðningi við þá fulltrúa sem valdir voru í ráðið samkvæmt niðurstöðu kosninga sem vissulega höfðu verið ógiltar en fjöldi kjósenda hafði farið á kjörstað til að velja til þessa verkefnis.

Því spyr ég: Telur hv. þingmaður eðlilegt að við þrefum um formið frekar en efnið nú þegar við höfum fengið svo glæsilega skýrslu í hendurnar?