140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[16:17]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ein afleiðing efnahagshrunsins á Íslandi var kröftug krafa um aukið lýðræði. Menn upplifðu, og það var eðlilegt, að lýðræðið og þeir sem áttu að gæta þess hefðu brugðist og það nægir að nefna allar helstu eftirlits- og stjórnsýslustofnanir í landinu, forustumenn í efnahagslífi, viðskiptalífi og bankalífi. Fjölmiðlar brugðust þjóðinni að mjög margra mati, þeirrar sem hér stendur þeirra á meðal. Þeir sinntu ekki aðhalds-, eftirlits- og gagnrýnishlutverki sínu.

Ég hlýt að nefna forseta Íslands sem brást hlutverki sínu algerlega eins og lesa má á bls. 170–178 í 8. bindi rannsóknarskýrslu Alþingis. Ráðandi öfl í stjórnmálalífi þjóðarinnar brugðust líka hlutverki sínu. Í kjölfarið var krafist nýrrar ríkisstjórnar, nýrra kosninga og nýrrar stjórnarskrár og ég fullyrði, herra forseti, að meiri hluti þjóðarinnar telji það forsendu fyrir nauðsynlegri endurreisn og uppbyggingu í landinu, og reyndar líka til að ná sáttum í íslensku samfélagi, að það eigi að byrja á því að bæta og styrkja lýðræðið í sessi með því meðal annars að breyta stjórnarskrá lýðveldisins. Hluti af þeirri kröfu er einmitt líka að þjóðin taki í sínar eigin hendur að breyta stjórnarskránni.

Það er margt sem menn hafa talið að þurfi að breyta og ég ætla að hlaupa á örfáum atriðum. Það þarf að breyta stjórnarskránni að mati flestra í þessu landi, held ég, a.m.k. mikils meiri hluta, með því að taka upp í stjórnarskrá lýðveldisins ákvæði um beint lýðræði, þ.e. að þjóðin sjálf geti tekið ákvörðun um mikilvæg mál og ákveðið með lýðræðislegum hætti í almennum atkvæðagreiðslum hver niðurstaðan á að vera. Einnig að kjósendur geti haft beinni áhrif á það hvaða einstaklingar veljast til trúnaðarstarfa um leið og þeir kjósa um ólíkar stefnur flokka. Í þriðja lagi að í stjórnarskrá eigi að taka ákvæði um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum, að auðlindir til lands og sjávar eigi að vera sameign þjóðarinnar en ekki eign einkaaðila og að með þjóðareign sé áskilið að ríkið fari með forsjá auðlindanna, vörslu og ráðstöfunarrétt og hafi eftirlit með nýtingu þeirra, að auðlindir okkar verði nýttar með sjálfbærum hætti í þágu þjóðarinnar allrar en ekki einstakra hópa.

Þá er held ég víðtæk samstaða um það, og það hefur komið fram í umræðunum í dag, að breyta þurfi fyrirkomulagi hvað varðar breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins, að um það geti farið fram sjálfstæð kosning í stað þess fyrirkomulags sem við nú þekkjum og kallar á að þing sé rofið og tvö þing samþykki breytinguna. Eins og við vitum er í slíkum kosningum í reynd kosið um flokka en ekki stjórnarskrá og það er að flestra mati meingallað fyrirkomulag.

Þessi atriði sem ég hef hér talið voru ofarlega á blaði í kröfugerð búsáhaldabyltingarinnar, en meginkrafan sem gekk eins og rauður þráður í gegnum alla þessa umræðu var að það væri sérlega valið stjórnlagaþing en ekki Alþingi Íslendinga sem ynni frumvarp að nýrri stjórnarskrá. Ég hef heyrt í umræðunum í dag gamalkunnugt stef um að með því móti sé valdið tekið frá Alþingi, það að Alþingi sé stjórnarskrárgjafinn. Ég hlýt að spyrja hvaðan það vald sem menn tala um að Alþingi hafi sé komið ef ekki frá þjóðinni. Allt vald í raunverulegu lýðræðisríki kemur frá þjóðinni, hennar er valdið og í hennar umboði starfar Alþingi. Ég tel mikilvægt að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði það áréttað að valdið komi frá þjóðinni, ekki frá öðrum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara efnislega yfir einstaka kafla í tillögum stjórnlagaráðs. Mig langar til að þakka sérstaklega fyrir ræðu formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur. Í tilefni af orðum sem hér hafa fallið um þessa umræðu, og vísa ég þar til orða hv. þm. Birgis Ármannssonar fyrr í dag, vil ég taka fram að eins og ég hef skilið aðdragandann að þessari umræðu gilda engar takmarkanir á því hversu lengi þessi umræða getur staðið. Það er meira að segja gert ráð fyrir því í skipulagi þingsins þessa vikuna að ljúki þessari umræðu ekki fyrir miðnætti í kvöld, en svo lengi getur fundur staðið á þriðjudagskvöldum án þess að um það fari fram sérstök atkvæðagreiðsla í þingsal, og er gert ráð fyrir því að hægt sé að halda henni áfram á morgun. Við höfum mjög góðan tíma til að fara yfir þessi atriði og ræða þau í þingsal áður en skýrslan fer til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Ég verð að játa, herra forseti, að umræðan hefur tekið nokkuð aðra stefnu en ég hefði kosið. Það hlýtur að verða til þess að ég fari minna í einstakar tillögur stjórnlagaráðsins að þessu sinni. Það er staðreynd að Alþingi hefur að margra mati mistekist að endurnýja stjórnarskrá lýðveldisins en ég undanskil þó mannréttindaákvæðin. Það er ekki svo langt síðan, bara fyrir kosningar 2007, að menn heyktust á því eftir gríðarlega mikla vinnu í stjórnarskrárnefnd sem kennd hefur verið við formann hennar, hv. fyrrverandi þm. Jón Kristjánsson, að breyta stjórnarskránni. Það strandaði aðallega á deilum við flokk einkaeignarinnar og einkaframtaksins á Alþingi, Sjálfstæðisflokkinn, sem ekki vildi setja í stjórnarskrána ákvæði um sameign á þjóðarauðlindum. Við skulum bara tala mannamál í þessum þingsal vegna þess að það er staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn þvældist fyrir því að þetta yrði hægt að klára á þeim tíma, rétt eins og hann gerði það með málþófi fyrir kosningar vorið 2009 þegar þingmenn flokksins töluðu í marga tugi klukkutíma og héldu fleiri hundruð ræður, mörg hundruð andsvör og gerðu mörg hundruð athugasemdir við fundarstjórn forseta til þess eins að koma í veg fyrir þann ásetning meiri hluta þingmanna að breyta stjórnarskránni fyrir aprílkosningarnar 2009. Að þeim loknum var útlitið ekki svo gott.

Ég er að rifja þetta upp, herra forseti, vegna þess að hér hafa menn verið að ræða um ferlið en ekki innihaldið og ég ætla að taka þátt í þeirri umræðu. Það brá þó til betra horfs þegar breið samstaða náðist á Alþingi um annað og nýtt ferli við endurskoðun stjórnarskrárinnar þegar hér voru samþykkt lög um kosningu stjórnlagaþings. Ég minni á að það var einungis eitt mótatkvæði í þessum 63 manna hópi við það ferli. Það náðist breið sátt um að haldinn skyldi þjóðfundur, að kjörin yrði stjórnlaganefnd í Alþingi og síðan kosið stjórnlagaþing beinni kosningu. Það átti að fjalla um tillögu stjórnlaganefndar og þjóðfundar. Alþingi skyldi síðan taka við og afgreiða stjórnarskrárfrumvarp á tveimur þingum með almennum kosningum á milli í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar en eins og við þekkjum er ekki hægt að breyta því núna.

Herra forseti. Þjóðfundur var haldinn í byrjun nóvember 2010 og þótti takast mjög vel. Stjórnlaganefnd vann úr því sem þar kom fram og afhenti skýrslu sína þegar þar að kom loksins en stjórnlaganefnd var ætlað að afhenda hana stjórnlagaþingi. Kosning til stjórnlagaþings fór fram 27. nóvember 2010 en með ákvörðun 25. janúar 2011 ógilti Hæstiréttur Íslands þá kosningu. Sú ákvörðun var bindandi og endanleg og því kom ekki til þess að stjórnlagaþing kæmi saman og væri sett af forseta Alþingis eins og til stóð 15. febrúar á þessu ári.

Þá var málið komið í öngstræti og það hefur verið til þess vitnað að þá hefði verið rétt að byrja upp á nýtt. Það voru ekki allir tilbúnir til þess, sem betur fer, og í kjölfar þessarar ákvörðunar ákvað forsætisráðherra að setja á fót samráðshóp fulltrúa allra þingflokka til að greina stöðuna og meta hvaða leið væri vænleg til að ljúka því verkefni að endurskoða stjórnarskrána á þessu kjörtímabili. Ástæðan fyrir því er sú að hæstv. forsætisráðherra taldi eins og fleiri þingmenn að það þing sem nú situr hefði skuldbundið sig til að tryggja að ný tillaga að stjórnarskrá yrði lögð fyrir þjóðina til endanlegrar afgreiðslu við næstu almennu þingkosningar. Í anda þess var þessi samráðshópur settur á laggirnar og eftir að hann hafði vegið og metið kosti ólíkra leiða varð niðurstaðan sú að leggja fyrir Alþingi að Alþingi sjálft leysti hnútinn sem endurskoðunarferlið var komið í. Það var gert í þessum sal með samþykkt þingsályktunartillögu um skipun stjórnlagaráðs. Hér erum við komin með afrakstur stjórnlagaráðs í hendur í skýrslu sem forsætisnefnd ber fram. Ég vil nota þetta tækifæri, eins og reyndar aðrir hafa gert, til að þakka þeim einstaklingum sem tóku þetta vandasama hlutverk að sér við mjög erfiðar aðstæður um leið og ég þakka fyrir afraksturinn.

Það var ekki auðvelt að ég tel að taka sæti í stjórnlagaráði eftir þær umræður sem voru í Alþingi og eftir þær umræður sem voru víða í samfélaginu. Menn stilltu þessu upp sem einhvers konar átökum við æðsta dómstól landsins. Ég var talsmaður þess hér, og við sem fluttum þessa þingsályktunartillögu um árið, að Alþingi sjálft gæti og ætti að taka málið til sín og leysa úr þeim hnút sem kominn var á ferlið. Það var gert og það er vel. Nú erum við loksins komin þangað sem við ætluðum okkur að vera komin á þessum tíma og enn höfum við tóm til að ljúka því ætlunarverki. Ég endurtek að ég tel að þetta þing hafi skuldbundið sig til að tryggja að ný stjórnarskrá verði lögð fyrir þjóðina til endanlegrar afgreiðslu við næstu almennu kosningar. Til þess höfum við enn þá tóm. Við höfum breytt verklagi í þinginu og við höfum nú kosið nýja stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem fær það hlutverk að fara yfir allar þessar tillögur.

Hér liggur einnig fyrir sérstök tillaga um málsmeðferð sem var rædd í síðustu viku. Henni hefur einnig verið vísað til nefndarinnar og ég vil segja af því tilefni að við hljótum að ræða þá tillögu, en líka þurfum við að hlusta á allar þær raddir sem koma fram bæði í þeirri umræðu og í þessari umræðu um það hvernig þetta ferli verði farsælast og hvernig megi ná sem breiðastri samstöðu í okkar hópi, þingmanna, til að ljúka þessu ætlunarverki.

Það hafa margir sagt og það hefur heyrst í umræðunum að það sé rétt að farið verði í ráðgefandi kosningu um frumvarp til nýrrar stjórnarskrár um leið og nýr forseti verður kosinn á næsta sumri. Ég fagna því að fleiri og fleiri þingmenn taka undir þá ósk. Hins vegar finnst mörgum ekki gott að svara annaðhvort já eða nei við heildarhugmyndunum, við heildarpakkanum. Þetta er flókið og fjölbreytt skjal og menn vilja eðlilega geta sagt skoðun sína í ráðgefandi atkvæðagreiðslu á til að mynda auðlindakaflanum sérstaklega, til að mynda á kaflanum um valdsvið forseta Íslands sérstaklega og til að mynda um kosningakerfið, samþykkja einstaka kafla eða hafna þeim eftir atvikum. Mér finnst að ef við ætlum í alvöru að tala um ráðgefandi kosningu þannig að þingið fái einhverja hugmynd um afstöðu manna til einstakra tillagna verði að opna á þann möguleika að menn geti sagt skoðun sína á tilteknum þáttum í frumvarpinu, ekki bara já eða nei við öllu.

Það er margt í þessu frumvarpi, herra forseti, sem fellur vel að hugmyndum mínum um nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá en það er annað sem vekur mér nokkrar spurningar og jafnvel undrun. Ég velti því til að mynda fyrir mér hvort tilteknir hlutir eigi betur heima í stjórnarskrá eða lögum. Hér hefur verið nefnt niðurnjörvað kosningakerfi sem ég tel að hafi mistekist að beita í kosningunum til stjórnlagaþings, og spurt er hvort rétt sé að binda eitt kosningakerfi í stjórnarskrá með þeim hætti sem hér er gerð tillaga um.

Ég velti líka fyrir mér tveimur atriðum sem hér er gerð tillaga um að sett verði í stjórnarskrá sem svo sannarlega voru í herfilegum ólestri þegar minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur kom til valda 1. febrúar 2009 og sem hvort tveggja er búið að breyta farsællega með lögum. Annars vegar er þar um að ræða lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra. Settur var mjög skýr lagarammi um þessi mál og veitti ekki af. Hins vegar hafa verið sett mjög brýn ný ákvæði í lög um skipun dómara. Í tillögum stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir að þessi tvö atriði verði sett inn í stjórnarskrá með tilteknum hætti.

Mig langar til að rifja upp, af því að það er eins og það hafi gleymst, þessar breytingar sem gerðar voru á lögum um skipun dómara. Ráðherra getur ekki lengur skipað dómara, hvort heldur í héraðsdómi eða Hæstarétti, eftir eigin geðþótta. Það gengur ekki. Það er búið að sjá fyrir því með lögum. Dómsmálaráðherra, nú innanríkisráðherra, skal skipa fimm manns í dómnefnd til að fjalla um hæfi og dómnefndin á að láta ráðherra í té skriflega og rökstudda umsögn og það er óheimilt að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefnd hefur ekki talið hæfastan meðal umsækjenda. Þetta getur varla verið skýrara. Það er að vísu til undantekning á þessu, mjög þröng, ef Alþingi samþykkir annað innan tiltekins tíma með mjög stífum takmörkunum. Ég tel sem sagt sumt í þessu frumvarpi þegar komið í lög og óþarft að hafa í stjórnarskrá. Það er þó í reynd ekkert aðalatriði þessa máls, ekki hvað mér finnst um það, heldur hvað þjóðinni finnst um það. Þess vegna finnst mér brýnt að menn fái að taka afstöðu til einstakra þátta í þessu frumvarpi.

Ég sagði áðan að margt vekti mér spurningar og efasemdir, ekki síst eftir túlkun forseta Íslands á tillögum stjórnlagaráðs um það sem til þess embættis heyrir. Sú umræða sem spannst í kjölfarið á þeirri ræðu hér, „ég um mig frá mér til mín“, krefst þess að við tökum ítarlega umræðu um þingræðið, um valdmörk þess og um lýðræðið sem ég nefndi í upphafi. Við þurfum að velta fyrir okkur grundvallarspurningunum sem eru í 1. gr. núgildandi stjórnarskrár og frumvarpi stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár þar sem nú segir að Ísland sé lýðveldi með þingbundinni stjórn, stjórnlagaráð segir þingræðisstjórn en ég sé ekki muninn. Viljum við slíkt stjórnfyrirkomulag, viljum við slíka stjórnskipan eða viljum við franskt eða bandarískt forsetaræði þar sem forseti lýðveldisins velur sér ráðherra í sína ríkisstjórn og jafnvel dómara líka eins og gerist í Bandaríkjunum? Ég segi nei. Eins og við vitum getur verið vandséð að vinda ofan af túlkun þegar búið er að túlka tillögur með þessum hætti.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur lýst því yfir í þingsal að með því að forseti lýðveldisins hafi túlkað þetta með þessum hætti verði þeirri túlkun ekki breytt. Þá er lítið annað eftir að mínu viti, ef menn vilja ekki fylgja þeirri stefnu, en að breyta orðalagi greinanna. Þetta tel ég, herra forseti, mjög nauðsynlegt að ræða ítarlega innan þings og utan.

Ég á sæti í nýrri stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem fær þetta verkefni og ég verð að segja að ég hlakka til að takast á við það í þeim ágæta hópi sem þá nefnd skipar. Núna reynir á þingið að ljúka ferlinu, standa við stóru orðin, leggja þetta fyrir þjóðina og klára málið.

Það þarf auðvitað að huga að verklagi eins og ég sagði áðan, og ég tek undir það sem formaður nefndarinnar sagði, það þarf að ná samstöðu um verklagið til að byrja með og ég vona svo sannarlega að þeir sem gagnrýndu hér hvað mest þá ákvörðun að halda vinnunni áfram við undirbúning að nýrri stjórnarskrá þrátt fyrir úrskurð, en ekki dóm, Hæstaréttar Íslands láti það ekki þvælast fyrir sér heldur komi í málefnalega umræðu um einstaka þætti. Ég tel, eins og hér hefur verið bent á, að við eigum að taka það samtal upp við stjórnlaganefnd, við stjórnlagaráðið og þjóðina meðan við erum með þetta í vinnslu í þinginu. Við þurfum að huga að aðstöðu og fjármunum til þess og ég held að mér sé óhætt að fullyrða, herra forseti, að það hafi orðið töluverður afgangur af þeim fjármunum sem var ætlað til vinnu stjórnlagaþings og svo stjórnlagaráðs, kosninganna, þjóðfundarins og stjórnlaganefndar og reyndar hefur ekki staðið á fjárveitingum til þessarar vinnu. Það hefur staðið á allt öðru. Það hefur staðið á viljanum en ekki fjármunum þannig að maður ætti kannski ekki að þurfa að orðlengja frekar um það.

Ég óska Alþingi Íslendinga og íslensku þjóðinni til hamingju með þann áfanga sem hér hefur náðst. Við erum komin lengra í dag en við vorum í gær í átt að nýrri stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.