140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[16:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þessi síðasta umræða fer dálítið í taugarnar á mér vegna þess að við erum ekkert að ræða um Sjálfstæðisflokkinn alla daga og hvað hann hafi gert af sér eins og hv. þingmaður hefur tilhneigingu til að gera.

Við erum að ræða um tillögur stjórnlagaráðs um stjórnarskrá sem er miklu stærra mál. Ræða hv. þingmanns var ágæt og hún var ekkert að kenna Sjálfstæðisflokknum um eitt eða neitt svo ég muni, það kom ekki fyrr en í andsvörunum. Hún talaði um að þjóðin mundi greiða atkvæði um einstakar greinar og ég spyr: Hvað gerist ef þjóðin fellir út einhverja grein sem er nauðsynleg í uppbyggingu stjórnarskrárinnar? Það getur gerst, og hvernig ætlar hún að koma í veg fyrir það? Ég veit ekki enn þá, herra forseti, hvernig menn sjá fyrir sér á hvaða formi þetta verður borið undir þjóðaratkvæði. Er þetta frumvarp, eru þetta lög eða er það þingsályktun? Um hvað mun þjóðin eiginlega greiða atkvæði? Er það hugmynd að stjórnarskrá, tillaga að stjórnarskrá o.s.frv.? Ég vil fá að vita það nokkurn veginn. Þjóðaratkvæðagreiðslan er ekki einu sinni bindandi og getur ekki verið það.

Svo er það 111. gr. Þar er rætt um framsal ríkisvalds og ég spyr hv. þingmann sem veit ýmislegt: Er þetta undirbúningur undir það að Ísland gangi í Evrópusambandið? Þarna stendur að heimilt sé að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds en það eigi að bera það undir þjóðina til atkvæðagreiðslu. Er þetta byrjunin á því að framselja ríkisvaldið til Evrópusambandsins og afsala okkur sjálfstæði? Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé mjög ánægður með þetta ákvæði.