140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[16:48]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að við erum ekki að ræða um Sjálfstæðisflokkinn sérstaklega en ég hvet samt þann ágæta flokk til að nálgast þetta verkefni hér af tiltekinni hógværð og lítillæti. (Gripið fram í.)

Ég verð að segja að það er uppi krafa um að menn fái tækifæri til að kjósa um þær tillögur sem stjórnlagaráð hefur lagt fram. Það er ekkert óeðlilegt við það og kemur meira að segja fram í því bréfi sem fylgdi tillögum stjórnlagaráðs til þingsins að einhverjar breytingartillögur komi fram hér í þinginu við tillögur stjórnlagaráðs. Það er hægur vandi í kosningu fyrir menn að velja á milli slíkra kosta. Þessi hugmynd var reifuð í síðustu viku þegar þingsályktunartillaga hv. þm. Þórs Saaris o.fl. var til umræðu og ég tel að það sé alveg hægt að skoða það. Hins vegar má líka reyna að ná víðtækri samstöðu, meira að segja með því að leggja hlutina aftur fyrir stjórnlagaráðið ef menn eru eindregið þeirrar skoðunar að einhverjar tilteknar breytingar þurfi að gera og samstaða næst um það.

Varðandi 111. gr. er mér þannig farið að ég sé ekki ESB-púkann í hverju horni eins og margir í þessum sal. Ég skal ekki um það fullyrða hvort þar er endanlega rétt framsetning á ferðinni. Ég hef ekki myndað mér skoðun á því en ég fullyrði að stjórnlagaráð hefur væntanlega ekki sett þetta þarna inn til að auðvelda inngöngu Íslands í Evrópusambandið eða aðrar ríkjasamsteypur.